Náttúruvá

Áhrif loftlagsbreytinga eru meðal annars breytingar í veðráttu landsins. Ákafari úrkoma, óveður, breytingar á hitastigi, þurrkar, gróðureldar, tíðari skriðuföll, tíðari flóð, hækkun sjávarstöðu og bráðnun jökla eru meðal þeirra áhrifa sem eru talin líkleg. Aðlögun að loftlagsbreytingum mun þurfa að fela í sér viðbrögð við náttúruvá af ýmsu tagi.

Hlutverk félagsþjónustuaðila

Á Norðurlöndum gegna félagsþjónustuaðilar mikilvægu hlutverki hjá sveitarfélögum við að efla þrautseigju einstaklinga og veita þeim sem þurfa á því að halda aukinn stuðning og aðstoð. Þar á meðal er eldra fólk, börn og fatlað fólk.

Félagsþjónustuaðilar búa því yfir mikilvægri þekkingu sem gæti komið að góðum notum við undirbúning og framkvæmd neyðarþjónustu vegna náttúruhamfaraHins vegar er lítið sem ekkert til af rannsóknum eða upplýsingum um hvaða hlutverki þessir þjónustuaðilar gegna þegar náttúruhamfarir ganga yfir á Norðurlöndum.

Þrátt fyrir ákveðin líkindi milli landanna er undirbúningur og hlutverk ákveðinna aðila og stofnana mismunandi. Í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi er sérstaklega minnst á félagsþjónustuaðila í lagaramma landanna þegar kemur að náttúruhamförum. Ákveðnar varaáætlanir fyrir félagsþjónustuaðila eru einnig til í þessum löndum.

Hvorki á Íslandi né í Danmörku er minnst á félagsþjónustuaðila í lagarömmum vegna náttúruhamfara og ekki eru til sérstakar aðgerðaáætlanir eða leiðbeiningar fyrir félagsþjónustuaðila þar sem hlutverk þeirra á tímabilum náttúruhamfara er tekið skýrt fram.

Þó ekki sé sérstaklega minnst á hlutverk félagsþjónustuna í lagarömmum í Danmörku og á Íslandi er öllum opinberum aðilum og stofnunum á Norðurlöndum gert að undirbúa sig fyrir hamfarir. Hins vegar er góð og skilvirk hamfaraáætlun sú sem skilgreinir á skýran hátt hlutverk þeirra sem koma að áætluninni á öllum stigum málsins hvort sem það er í varnaráætlun, undirbúningi, viðbrögðum eða enduruppbyggingu.

Þess vegna gæti verið góð hugmynd að skilgreina hlutverk félagsþjónustuaðila í lagarömmum og áætlunum til að tryggja hnökralaus og skjót viðbrögð þar sem allir aðilar vita hvert þeirra hlutverk er og hvenær og hvernig á að grípa inn í.

Ólík áhrif náttúruhamfara á mismunandi hópa samfélagsins

Rannsóknir sýna að hamfarir af völdum loftslagsbreytinga hafa misjöfn áhrif á mismunandi hópa samfélagsins og eru skaðlegastar eldra fólki, fátæku fólki og börnum. Konur eru í meirihluta eldra fólks sem býr við fátækt. Almennt glíma fleiri konur við fátækt en karlar og bera meiri ábyrgð á umönnun barna, fjölskyldu og heimilis. 

Þá benda rannsóknir til þess að konur sem eru vanar umönnunarhlutverkum, hvort sem það er í starfi eða heima fyrir, gegni slíkum störfum í meira mæli í samfélaginu þegar náttúruhamfarir ganga yfir og seinna meir, í enduruppbyggingu samfélaga.

Aðrir þættir sem hafa áhrif á varnarleysi fólks vegna náttúruhamfara eru fatlanir, einstaklingar sem búa einir og með lítið stuðningsnet og kynþáttur. Fólk með takmarkað stuðningsnet og líkamlegar skerðingar er oft verr undirbúið fyrir náttúruhamfarir, ásamt því að möguleikar og geta þeirra til neyðarrýmingar eru skertar. Þetta fólk á einnig erfiðara með að aðlagast samfélaginu eftir hamfarir. Þá á fatlað fólk sem tilheyrir öðrum minnihlutahópum ennþá erfiðara að fá þarfir sínar metnar.

Fellibylurinn Katrina sem reið yfir New Orleans í Bandaríkjunum varpaði ljósi á djúpa samfélagslega misskiptingu þar í landi og sýndi fram á að ekki var einungis um að ræða náttúruhamfarir heldur einnig pólitískar hamfarir. Flest fórnarlambanna voru jaðarhópar; fátækt, svart og eldra fólk. Þá reyndist auðveldara fyrir fjárhagslega vel stætt fólk að flýja á meðan fátækt fólk í New Orleans var ólíklegra til að eiga eða hafa afnot af bíl og átti því erfiðara með að yfirgefa svæðið auk þess að það hafði ekki efni á því.

Ástæður fyrir því að þessir hópar fara verr út úr náttúruhamförum en aðrir þjóðfélagshópar er vegna útilokunar og ójöfnuðar þegar kemur að þátttöku og ákvarðanatöku í málum er varða náttúruhamfarir ásamt verri stöðu þeirra í samfélaginu. Að útiloka þessa hópa frá þróun í stefnumótun og ákvarðanatöku gerir þessa hópa að fórnarlömbum aðstæðna sinna. Hið opinbera ætti að notast við þekkingu og nálgun þeirra á málefninu til að stuðla að réttlátum umskiptum í umhverfis- og loftslagsmálum.