Gildi og stefnumótun

Stjórnvöld og sveitarfélög leggja mikla áherslu á samgöngumál, landbúnað, innviðafjárfestingu, breytingar á neysluvenjum fólks og nýsköpun í grænum umskiptum. Þetta eru yfirleitt atvinnuvegir og greinar þar sem karlar eru í miklum meirihluta.

Ríkjandi gildi og stefnur í umhverfis- og loftlagsmálum

Aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum leggur mikla áherslu á umskipti í samgöngumálum, landbúnaði, vinnslu úrgangs og aðgerðir gegn sóun. Einnig er lögð áhersla á þróun nýrra hvata til umskipta og kolefnisbindingar. Þá er áhersla lögð á nýsköpun sem styður við þessi umskipti ásamt tæknilegum úrlausnum.

Reykjavíkurborg er með sína eigin áætlun í umhverfis- og loftslagsmálum. Loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025 leggur áherslu á sex meginmarkmið sem eru gönguvæn Reykjavíkurborg, orkuskipti, heilsueflandi ferðamátar, hringrásarhugsun, vistvæn mannvirki og kolefnisbindingar. Þá hefur borgin útbúið svokallaða sóknaráætlun til ársins 2030 sem ber heitið Græna planið. Græna planið dregur saman lykilverkefni og grænar fjárfestingar í borginni. Mikil áhersla verður lögð á að skapa störf við uppbyggingu innviða, svo sem í samgöngum, við uppbyggingu athafnasvæða og við íbúðabyggingar, allt dæmigerð karlastörf. Breytingar á neysluvenjum skipa einnig stóran sess í Græna planinu þar sem íbúar og rekstraraðilar verða hvattir til endurnýtingar og flokkunar.

Íslensk stjórnvöld sem og Reykjavíkurborg leggja mikla áherslu á nýtingarhyggju, uppbyggingu, tækniþróun og vísindi þegar kemur að umbreytingum í þágu umhverfis- og loftslagsmála. Minna er talað um hvernig hægt sé að nýta samvinnu og umhyggju gagnvart náttúrunni og samfélaginu í þessu samhengi. Hið fyrra er talið dæmi um karllæg gildi á meðan hið seinna er dæmi um kvenlæg gildi samfélaga. Á Vesturlöndum eru umhverfis og- loftslagsmál oft römmuð inn sem vandamál vegna iðnvæðingar og lausnir hugsaðar út frá tæknivæðingu, ákveðinni stjórn á náttúruauðlindum og efnahagslegri útþenslu.

Kynja- og jafnréttissjónarmið

Mikið af ofangreindum áherslum talast á við karllæg gildi samfélaga þar sem valdsvið vísinda, tækni og samgangna eru oftar á borði karla en kvenna. Þó svo að rannsóknir og kannanir bendi til þess að konur hafi meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum og eru oft tilbúnari til að ganga lengra en karlar til að breyta hegðun sinni eru konur yfirleitt í minnihluta þeirra sem fara með ákvarðanavald í umhverfis- og loftslagsmálum.

Rannsóknir benda einnig á að þegar kvenkyns stjórnendum fjölgar innan fyrirtækja leiði það til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Hins vegar virðast kynja- og jafnréttissjónarmið í umhverfis- og loftslagsmálum ekki fá hljómgrunn innan stofnana ef konur og aðrir minnihlutahópar fá ekki að taka þátt í umræðum og ákvarðanatöku. Þá þarf oft meira en bara þátttöku þessara hópa í umhverfis- og loftslagsmálum til að alvöru breytingar eigi sér stað.

Rannsóknir í Skandinavíu sýna að þegar konur eru til jafns við karla í ákvarðanastöðum í umhverfis- og loftslagsmálum þýði það ekki endilega að aðgerðir taki mið af kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Oft virðist vera takmörkuð þekking á kynja- og jafnréttisáhrifum umhverfis- og loftslagsmála ásamt því að vilji eða áhugi til breytinga er oft lítill.

Fjölbreyttur hópur fólks í stjórnunarstöðum, kerfislægar breytingar ásamt þekkingu og þjálfun í samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða innan stofnana, fyrirtækja og hins opinbera gæti stuðlað að árangursríkum stefnum sem taka mið af ólíkum áhrifum umhverfis- og loftslagsmála á mismunandi hópa í samfélaginu.

Til að skapa pláss fyrir aðrar skoðanir og stefnur í umhverfis- og loftslagsmálum þarf sterkt borgaralegt samfélag og aukna meðvitund um loftslagsvandann. Einnig þarf ákveðna mótstöðu gegn ríkjandi hugmyndafræði líkt og áherslu á karllægar atvinnugreinar og stanslausri uppbyggingu ef umskipti í þágu umhverfis- og loftslagsmála eiga ekki að skapa aukinn ójöfnuð í samfélaginu. 

Ein leið til þess að koma í veg fyrir aukna misskiptingu í samfélögum vegna umhverfis- og loftslagsbreytinga er að opna fyrir þátttöku jaðarsettra hópa og þeirra sem eru hvað mest berskjaldaðir fyrir umskiptum vegna umhverfis- og loftslagsbreytinga. Þessir hópar fá alla jafna ekki að taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum sem hafa hvað mest áhrif á framtíð þeirra.

Þá þurfa stefnur og aðgerðir stjórnvalda og sveitarfélaga ekki endilega að koma frá fólki í valdastöðum, sérstaklega þær sem snúa að umhverfisvænni hegðun fólks. Rannsóknir sýna að grasrótarhreyfingar og verkefni leidd af samfélaginu sjálfu hjálpar til í baráttunni við loftslagsvána. Fólk sem sýnir af sér nágrannakærleik og samstöðu við nærumhverfi sitt kemur oft með hugmyndir sem ráðamönnum dettur ekki í hug.

Kyngreind gögn

Oft skortir kyngreind tölfræðigögn fyrir málaflokka, málefni, megináætlanir og helstu verkefni umhverfis- og loftslagsmála svo með góðu móti megi meta kynja- og jafnréttisáhrif á Norðurlöndum. Bæta þarf öflun og aðgengi að kyngreindum gögnum og einnig þarf að gera frekari rannsóknir á stöðu mismunandi hópa innan samfélagsins í tengslum við umhverfis- og loftslagsbreytingar. 

Loftslagsráð bendir á að í mörgum ríkjum Evrópusambandsins sé unnið að innleiðingu grænnar fjárlagagerðar til að tryggja samhæfingu og stefnumörkun fjármála í loftslagsstefnu stjórnvalda og þetta er eitthvað sem íslensk stjórnvöld gætu tileinkað sér. Einnig er bent á að íslenska ríkið þurfi að skilgreina með skýrum hætti markmið og áherslur í umhverfis- og loftslagsmálum, bæði hvað varðar mótvægisaðgerðir og aðlögun að loftslagsbreytingum. Ef það væri gert væri auðveldara að meta núverandi aðgerðir ásamt kostnaði og áhrifum.

Traust til stjórnvalda

Svarendur í umhverfiskönnun Gallup voru líklegri til að vera óánægðir með viðleitni stjórnvalda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en virtust ánægðari með viðleitni sveitarfélaga sinna. Þá héldu flestir að Ísland gæti ekki orðið kolefnishlutlaust fyrir árið 2040.

Í könnun sem var lögð fyrir Norðurlandabúa mátti sjá að Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar bera hvað minnst traust til stjórnvalda. Rúm 3% íslenskra svarenda báru mjög mikið traust til stjórnvalda miðað við rúmlega 10-14% á hinum Norðurlöndunum.

Skýrsla sem gerð var í kjölfarið bendir á að til að hægt sé að innleiða umbætur sem styðja við græn umskipti í norrænum samfélögum þurfi almenningur að treysta stjórnvöldum og trúa því að stjórnmálafólk geti brugðist við loftslagsvandanum.

Helstu ástæður fyrir litlu trausti til stjórnvalda voru að þau væru of hægfara og að stjórnmálafólk fylgdi ekki sömu stefnu og þau sjálf. Þá sýna rannsóknir að fólk sem treystir stjórnvöldum og stjórnmálafólki er líklegra til að sætta sig við úrræði líkt og kolefnisskatta og aðrar aðgerðir sem lúta að hegðunarbreytingum einstaklinga, sérstaklega ef auknar skatttekjur hins opinbera vegna þess er notað til góðs.

Er aukin þátttaka kvenna nóg?

Aukin þátttaka kvenna í skógræktarsamtökum í Svíþjóð og Indlandi leiddi ekki til aukinnar samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða vegna þess að lítill áhugi var meðal karla innan samtakanna fyrir breytingum í starfsemi og stefnum. Í Svíþjóð fannst konum erfitt að koma skoðunum sínum á framfæri ásamt því aðgerðir voru yfirleitt fyrirfram ákveðnar af körlunum sem stjórnuðu samtökunum. Á Indlandi fannst körlunum sínir eigin hagsmunir mikilvægari og enginn tilgangur væri að vinna að hagsmunum kvennanna fyrr en þeirra markmiðum væri ná. Því er mikilvægt að samhliða því að jafna kynjahlutföll sé ráðist í aðgerðir sem beinast að því að breyta stofnanamenningu og ríkjandi gildum og viðhorfum.