Atvinnumál framtíðarinnar

Mikla vinnu og natni þarf að leggja í umskipti starfa vegna umhverfis- og loftslagsmála. Það þarf að víkka skilgreininguna á grænum störfum svo ákveðnir hópar missi ekki störf sín og ójöfnuður myndist ekki meðal þjóðfélagshópa. Ef það er gert opnar það möguleikana á að fá fjölbreyttari hóp fólks til starfa og uppbyggingu á grænum störfum.

Hver tapa, hver græða?

Í dag er lögð áhersla á að grænvæna störf í byggingargeiranum, samgöngum, tækniþróun og vísindum sem eru dæmi um frekar karllæg störf. Fjárfestingar, styrkir, úrlausnir og ný störf sem munu skapast vegna umskipta í umhverfis- og loftslagsmálum munu því frekar nýtast körlum ef ekkert verður aðhafst í atvinnumálum.

Þegar kemur að umskiptum í atvinnu vegna umhverfis- og loftslagsbreytinga er mikilvægt að greina í upphafi hverjum umskiptin nýtast: hverjir fá þessi nýju störf sem verða til, hverjir fá best launuðu störfin og hverjir missa störfin sín? Þar sem græn störf og þróun þeirra eru frekar ný af nálinni ætti það að gefa hinu opinbera ákveðið frelsi til að leggja áherslu á atvinnugreinar sem hafa ekki notið jafn mikillar athygli í umræðunni eins og til dæmis umönnunarstörf. 

Umönnunarstörf eru viss burðargrind samfélaga. Konur eru í miklum meirihluta í þeim störfum sem snúa að umönnun og þá eru slík störf álitin vera atvinnugrein sem losar lítið af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið. Þetta eru störf sem má ekki missa og ætti því að leggja áherslu á að þróa og bæta kjör þessara starfstétta enn frekar í sambandi við grænan atvinnuveg þar sem sífellt fleiri þurfa á umönnun að halda og dagvistun barna gerir fólki kleift að sækja vinnu. Hægt væri að þróa og þjálfa fólk sem er í berskjölduðum störfum vegna grænna umbreytinga yfir í umönnunarstörf. Hins vegar verður sú þróun að byggja á sanngirni og réttlátum kjörum.

Áætlað er að störf í framleiðslu, þjónustu, smásölu og ferðaþjónustu séu sérstaklega berskjölduð vegna sjálfvirknivæðingar. Þessi störf krefjast gjarnan lítillar formlegrar menntunar og eru karlmenn í störfum sem krefjast lítillar menntunar frekar í hættu en konur að missa störf sín, ásamt innflytjendum og ungu fólki í tímabundnum láglaunastörfum. Þá eru innflytjendur að jafnaði með tæplega 8% lægri laun en innlendir þegar leiðrétt hefur verið fyrir helstu lýðfræði- og starfstengdum þáttum á Íslandi. Niðurstöður sýna einnig að innflytjendur eru að jafnaði með lægri laun en innfæddir með sömu menntun og skilyrtur launamunur er á bilinu 11-15%.  

Hugmyndir vinnuveitenda um hvaða einstaklingar eru „æskilegir“ starfsmenn í ákveðin störf skipta máli og þar hefur kyn, uppruni og fleira áhrif. Þá bendir samantekt upplýsinga frá 140 löndum sem tóku þátt í Gender Equality Index Sameinuðu þjóðanna að fylgni sé milli aukins kynjajafnréttis, hagvaxtar og minni losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Þetta bendir til þess að félagslegi þátturinn vegna grænna umskipta sé alveg jafn mikilvægur og hinn fjárhagslegi til að ná árangri í umhverfis- og loftslagsmálum.

Störf í viðgerðarþjónustu - hringrásarhagkerfið

Viðgerðarþjónusta gæti orðið að mikilvægri atvinnugrein til að stemma stigu við loftslagsbreytingum ásamt því að styðja við hringrásarhagkerfið. Markmið hringrásarhagkerfisins er að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi, meðal annars með því að bæta líftíma og endingu varnings og efna. Slíkt gæti komið í veg fyrir offramleiðslu varnings og ónauðsynleg innkaup. Þá myndu slík störf einnig styðja við réttlát umskipti í umhverfis- og loftslagsmálum þar sem mikilvægt er að búa til fjölbreytt störf í stað þeirra sem munu glatast vegna grænna umskipta. 

Endurmenntun og færniþjálfun gæti nýst vel fyrir slíkan atvinnuveg, sérstaklega fyrir fólk sem þarf að skipta um starfsvettvang vegna breyttra áherslna stjórnvalda í atvinnumálum og þeirra sem eiga erfiðara með að nálgast örugga vinnu, líkt og fólk með lágt menntunarstig, fólki af erlendum uppruna eða öðrum jaðarhópum samfélagsins. Þá myndi aukin áhersla á viðgerðarþjónustu skila sér til neytenda í formi lægri útgjalda.

Hins vegar verður að stuðla að aukinni vitneskju meðal almennings um mikilvægi þess að gera við og lagfæra í staðin fyrir að kaupa nýtt og auka aðgengi almennings að viðgerðarþjónustu á sanngjörnu verði. Þá hefur Evrópusambandið unnið að því að auka rétt neytenda til viðgerða á vörum sínum, bættu aðgengi að varahlutum og aðgengi neytenda til að gera við sínar eigin vörur.

Það er hins vegar möguleiki á að viðgerðarþjónusta ýti undir hefðbundin kynhlutverk ef ekki er hugað að því sérstaklega við eflingu þessara starfsgreina þar sem konur eru líklegri til að gera við og laga fatnað á meðan karlmenn gera oftar við bíla og alls kyns tæki.

Nýsköpun í loftslagsmálum

Bæði íslensk stjórnvöld og Reykjavíkurborg leggja mikið upp úr því að móta og efla nýsköpunarstefnu hér á landi til að bregðast við nýjum áskorunum vegna umhverfis- og loftslagsbreytinga. Í þessu samhengi er mikilvægt að þessi þróun í nýsköpun, sem hefur það að markmiði að spyrna gegna loftslagsvánni, taki mið af þörfum og hæfileikasviðum mismunandi hópa fólks þar sem nýsköpun hefur hingað til verið karllægur geiri sem tekur frekar þarfir og sérsvið karla til hliðsjónar.

Skógrækt og landbúnaður

Efling skógræktar, landgræðslu, endurheimt og verndun votlendis eru nokkrar af árangursríkustu leiðunum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hins vegar rennur einungis brot af fjárveitingu sem rennur til landshlutaverkefna í skógrækt, beint til atvinnustarfsemi kvenna.

Störf í samgöngu- og byggingariðnaði

Störf sem forgangsraða sjálfbærni og leggja áherslu á þróun umhverfisvænna lausna eru almennt aðlaðandi fyrir konur. Störf sem eru frekar tengd við karla líkt og verkfræði og byggingarvinna sem leggja áherslu á slíkt gætu því laðað fleiri konur að geirunum.

Einnig benda rannsóknir til þess að þegar konum fjölgar í byggingarstörfum er almennt meiri áhersla lögð á umhverfisvæna starfshætti.

Greining var gerð á tveimur mikilvægum atvinnugreinum fyrir grænt hagkerfi í Kanada; samgöngur og byggingargeirinn. Greiningin sýndi að almennt var lítið til af upplýsingum um þátttöku kvenna í þessum starfsgreinum og vegna þess, meðal annars, höfðu fyrirtæki og stofnanir ekki tekið mið af kynja- og jafnréttissjónarmiðum við endurskipulagningu þessara atvinnugreina fyrir grænt hagkerfi.

Þá kom einnig í ljós að auðveldara var fyrir starfsfólk sem starfaði þegar í þessum greinum að fá þjálfun í umhverfisvænni starfsháttum og breytingum en fyrir fólk sem ekki var vant þessum störfum eða var að koma nýtt inn.

Konur voru meirihluti þeirra sem aldrei höfðu unnið við þessi störf og höfðu starfsgreinarnar ekki haft það í huga við umbreytingu þessara starfa.

Viðgerðarþjónusta - skattaívilnanir

Stjórnvöld ýmissa Evrópulanda hafa verið að veita almenningi skattaívilnanir vegna viðgerðarþjónustu. Þetta er gert til þess að hvetja fólk til að að láta gera við hluti í stað þess að kaupa nýja. Í Svíþjóð hefur virðisaukaskattur vegna viðgerðarþjónustu farið úr 25% niður í 12% og á þetta við allt frá fatnaði, hjólum og yfir í stærri heimilistæki. Þá geta neytendur einnig endurheimt helming kostaðar af vinnulaunum vegna viðgerða við skil á skattframtali.