Venjur og hegðun

Stefnur sem fela í sér aukna ábyrgð einstaklinga til að breyta hegðun sinni munu hafa ólík áhrif á mismunandi samfélagshópa. Samkvæmt umhverfiskönnunum á öllum Norðurlöndum, Svíþjóð og á Íslandi eru konur líklegri til að breyta hegðun sinni en karlar, tilbúnar að eyða og fórna meiru í þágu umhverfis- og loftslagsmála. Þó virðist sem konur séu líklegri en karlar til að vanmeta og gera minna úr þekkingu sinni á umhverfismálum.

Neyslu- og matarvenjur

Matarvenjur kynjanna eru ólíkar og benda rannsóknir til þess að karlmenn neyti almennt meira af kjötvörum en konur. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna nautgriparæktunar og neysla kjötmetis mengar hvað mest af allri matvælaframleiðslu. Niðurstaða könnunar um mataræði Íslendinga sem var framkvæmd á árunum 2019-2021 bendir til að íslenskir karlmenn borði að meðaltali heldur meira af kjöti á viku (736 gr) en konur (435 gr). Þá borða þeir tvöfalt meira af unnum kjötvörum en konur. Konur voru í meirihluta þeirra sem sögðust borða grænmetisrétti sem aðalrétt og eru þær líklegri en karlar til að vilja draga úr kjötneyslu og neyslu dýraafurða (38% á móti 23%).

Konur gegna stóru hlutverki þegar kemur að neyslu og innkaupum þar sem þær bera oft ábyrgð á innkaupum fyrir alla fjölskylduna. Vegna þess er oft fjallað um konur sem stærsta neysluhópinn á heimsvísu. Vert er þó að athuga að þær neyta ekki sjálfar alls þess sem keypt er fyrir heimilið. Rannsóknir sýna þá að meðal kolefnisfótspor einhleypra karlmanna sé rúmlega 10.000 kg á ári miðað við 8.100 kg fyrir einhleypar konur. Þetta er vegna þess að karlmenn eyða meiri fjármunum í hluti og vörur sem eru kolefnisfrekari líkt og bensín, bíla og kjötvörur á meðan konur eyða meira í hluti líkt og húsgögn og föt sem hafa minna kolefnisspor.

Endurvinnsla og flokkun

Vísbendingar eru um að konur sjái frekar um að endurvinna og flokka sorp innan veggja heimilanna en karlar. Þá virðist ákveðin kynbundin verkaskipting vera til staðar þar sem karlar sjá í meira mæli um að fara með sorp á flokkunarstöðvar. Aukin áhersla á flokkun sorps innan heimilanna mun því að öllum líkindum hafa meiri áhrif á konur þar sem þær eru líklegri en karlar til að breyta hegðun sinni og fjölskyldunnar í þágu umhverfis- og loftslagsmála.

Orkunotkun

Þegar kemur að orkusparnaði í löndum Evrópu finnst konum gagnlegast að fá betri upplýsingagjöf um orkunýtni- og sparnað til að geta breytt hegðun sinni. Karlar hafa hins vegar meiri áhuga á tæknilausnum eins og orkusparandi heimilistækjum eða styrkjum frá hinu opinbera. Við val á orkusölufyrirtæki horfa karlar helst til verðsins á meðan konur horfa einnig til umhverfisáhrifa orkugjafa. Stefnur sem leggja áherslu á orkusparnað innan heimilanna munu að öllum líkindum hafa meiri áhrif á konur en karla þar sem þær eru líklegri til að breyta hegðun sinni til að spara orku og eyða oftar en ekki meiri tíma í heimilisstörf en karlarÞá eru konur líklegri en karlar til að búa við svokallaða „orkufátækt“ vegna minni tekna. Erfiðara er því fyrir tekjulága hópa að fjárfesta í umhverfisvænni eða sparneytnari kostum fyrir heimilin eins og orkusparandi heimilistækjum þar sem þau kosta yfirleitt meira.

Umhverfiskannanir á Norðurlöndum

Á Norðurlöndum hafa konur meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum en karlar og þá eru ungar konur áhyggjufyllsti aldurshópurinn. Einnig eru konur á Norðurlöndum líklegri til að taka þátt í aðgerðum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum eins og að borða meira grænkerafæði, kaupa og selja notað og minna af nýjum fötum og neysluvörum.

Teikning af flækju með laufblaði

Persónuleg gildi og hegðun

Samkvæmt rannsóknum er fólk sem hagar og hugsar um sjálft sig sem hluta af heild og sýnir af sér óeigingirni líklegra til að stuðla að sjálfbærni, breyta hegðun sinni í þágu umhverfisins ásamt því að hafa áhyggjur af umhverfis- og loftslagsmálum. Hins vegar er fólk sem aðhyllist stéttaskiptingu og einstaklingshyggju líklegra til að gera lítið úr umhverfis- og loftslagsmálum. Þá er fólk sem beitir sér fyrir óbreyttri hegðun eða ástandi (e. status quo) ólíklegra til að viðurkenna eða horfast í augu við loftslagsbreytingar. Þetta er oft fólk í stjórnendastöðum sem persónulega hagnast af óbreyttu ástandi og áherslum. Rannsóknir benda á að í þessu samhengi eru karlar yfirleitt meirihluti fólks í stjórnendastöðum og því líklegri til að réttlæta kerfið eins og það er. Þá bendir rannsókn á að karlar virðast forðast að velja sér kvenkyns maka eða félaga sem aðhyllist karllæg gildi og hegðun í umhverfismálum þar sem þeir efast um gagnkynhneigð þessara þeirra. Hins vegar virðist sem hið sama gildi ekki fyrir karla sem sýna af sér kvenlæg gildi og hegðun í umhverfismálum. Það getur því verið að ákveðnir fordómar séu gagnvart konum sem aðhyllast ekki tilætluð kvenlæg gildi og hegðun í samfélaginu sem ýtir þar af leiðandi undir kynjaðar staðalmyndir.

Almennt virðast konur þó búa yfir meiri þekkingu á loftslags- og umhverfismálum en karlar. Hins vegar eru þær líklegri til að vanmeta og gera minna úr þekkingu sinni á málaflokknum. Rúmlega helmingur fólks á Íslandi finnst það vita hvorki mikið né lítið um loftslagsbreytingar en þá eru íslenskir karlar örlítið líklegri til að segjast vita mjög mikið eða frekar mikið um loftslagsbreytingar en konur.

Áhyggjur af loftlagsbreytingum

Á Norðurlöndum hafa konur meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum en karlar og þá eru ungar konur áhyggjufyllsti aldurshópurinn. Íslenskar konur hafa meiri áhyggjur en karlar af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar gætu haft á fjölskyldur þeirra og hugsa meira um áhrif sín á umhverfið. Íslenskar konur eru þá líklegri en íslenskir karlar til að vilja breyta hegðun sinni í þágu umhverfisins (73% kvenna á móti 53% karla). Þá finnst íslenskum körlum hegðun sín hafa mjög lítil eða engin áhrif á umhverfis- og loftslagsmál (44% karla á móti 17% kvenna) og eru einnig líklegri til að halda að á heimsvísu geti almenningur haft frekar lítil, mjög lítil eða jafnvel engin áhrif á umhverfis-og loftslagsmál. Þá eru íslenskir karlar líklegri til að halda að fréttir af alvarleika hlýnunar jarðar séu ýktar (28% karla á móti 15% kvenna).

Konur á Norðurlöndum eru líklegri til að taka þátt í aðgerðum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum eins og að borða meira grænkerafæði, kaupa og selja notað og minna af nýjum fötum og neysluvörum. Ungar konur á Norðurlöndum eru síðan reiðubúnari en allir aðrir aldurshópar til að hafa afskipti af umhverfismálum.

Ábyrgð og viðleitni

Rúmlega helmingur Íslendinga finnst að Ísland geri of lítið til að takast á við loftslagsbreytingar og eru konur þar í meirihluta. Þá eru karlar aðeins líklegri til að vera fyllilega ánægðir með sína eigin viðleitni til umhverfis- og loftslagsmála á meðan konur eru líklegri til að vera óánægðari með sína viðleitni. Þá eru íslenskar konur líklegri til að halda að einstaklingar beri ábyrgð á aðgerðum til að sporna við hlýnun jarðar ásamt því að vera aðeins líklegri en karlar til að finnast hið opinbera og fyrirtæki bera ábyrgð. Karlar svöruðu aðeins oftar en konur að einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera bæru frekar litla, mjög litla eða enga ábyrgð á aðgerðum til að sporna við hlýnun jarðar. Þá gætu sumir karlar séð það sem ógn gagnvart karlmennsku eða stöðu þeirra í samfélaginu að breyta hegðun sinni vegna loftslagsbreytinga þar sem slíkt hefur fengið á sig kvenlægan stimpil. Að segja körlum að hætta að borða kjöt og keyra stóra bíla gæti því reynst erfitt ef ekki er unnið að því að brjóta niður kynjaðar staðalmyndir líka.

Áhrif á fatlað fólk

Bent hefur verði á að fötluðu fólki líði oft eins og sökudólgum eða afgangsstærðum í umhverfis- og loftslagsmálum. Umhverfisstefnur- og lausnir séu oft ableískar, byggðar á getu- og hæfnihyggju þeirra sem búa til og þróa stefnur í umhverfis- og loftslagsmálum. Í þessu samhengi er litið á fatlað fólk sem annars flokks þjóðfélagsþegna. Dæmi um það er bann við plastsogrörum og hnífapörum sem kemur illa niður á fötluðu fólki ásamt því fatlað fólk hefur kannski ekki aðstoð, getu eða orku til þess að þrífa margnota rör og hnífapör.

Skattbyrði og jöfnuður

Aukin skattbyrði eða kostnaður á óumhverfisvænan varning hefur reynst vinsæl leið stjórnvalda til að stuðla að breyttum venjum fólks í baráttunni við loftslagsvandann. Aukin skattbyrði mun koma sér verst fyrir þau fátækustu og því mikilvægt að hið opinbera þrói mótvægisaðgerðir svo ójöfnuður aukist ekki. Þá ættu skattaívilnanir að taka mið af mismunandi fjárhagsstöðu fólks og styðja við þá hópa sem þurfa mestu aðstoðina. Til dæmis væri hægt að eyrnamerkja ákveðinn hluta af því fé sem fengið er frá kolefnis/mengunargjöldum beint til starfsemi eða heimila í viðkvæmri stöðu. Einnig væri hægt að vinna með einkageiranum að gera umhverfisvænar vörur aðgengilegar og á sanngjörnu verði.

Hegðun einstaklinga í loftslags- og umhverfismálum

Konur eru líklegri til að taka þátt í aðgerðum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum og virðast þær búa yfir meiri þekkingu á loftslags- og umhverfismálum en karlar. Hins vegar er konur líklegri en karlar til að vanmeta og gera minna úr þekkingu sinni á málaflokknum.