Hjólandi
Tilgangur göngu- og hjólastígakerfis Reykjavíkurborgar er að gera íbúum og gestum kleift að ferðast hjólandi eða gangandi um borgina á öruggan, skemmtilegan og vistvænan máta. Reykjavík stefnir á að verða hjólaborg á heimsmælikvarða. Þá er nauðsynlegt að fólk geti horft til hjóla sem fyrsta vals þegar kemur að ferðamáta.
Hjólreiðaáætlun
Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar er leiðarvísir í eflingu hjólreiða og uppbyggingu hjólreiðainnviða. Aukin hlutdeild hjólreiða er hagkvæm, hefur góð áhrif á umhverfi, lýðheilsu og lífsgæði og skapar betri borg.
Markmið
Markmið Hjólreiðaáætlunarinnar er að auka hlutdeild hjólreiða í ferðum í borginni en stefnt er að því að að minnsta kosti 10% allra ferða í borginni verði farnar á hjóli árið 2025.
Framtíðarsýn
Í Hjólreiðaáætluninni er sett fram framtíðarsýn fyrir hjólaborgina Reykjavík með mælanlegum markmiðum til ársins 2025 og þeim framkvæmdum og aðgerðum sem stefnt er að á tímabilinu. Lagt er til að fjárfestingar í nýjum hjólreiðainnviðum í Reykjavík verði að lágmarki fimm milljarðar króna á tímabilinu. Áætlunin byggir á fjórum yfirmarkmiðum sem öll hafa mælanleg undirmarkmið.
Stígar
Heildarkort eru ekki lengur gefin út á pappírsformi en búið er að gera kort yfir litaðar lykilleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Á áningarstöðum víðsvegar um borgina er líka búið að setja upp kort til að hjálpa vegfarendum að rata.
Rétt er að minna á að gangandi vegfarendur eru í forgangi á blönduðum stígum.
Snjóhreinsun
Þegar snjór fellur eða hálka myndast í Reykjavík er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun vetrarþjónustu og snjóvaktir fer á stjá. Aðstæður eru vaktaðar reglubundið og mannskapur kallaður út eftir þörfum.