Nýjar og sveigjanlegri reglur um bílastæðakort taka gildi 2026
Heimilt verður að afgreiða annað íbúakort á gjaldskyldum svæðum innan Reykjavíkur og einnig verður Bílastæðasjóði heimilt að gefa út sérstök bílastæðakort fyrir rekstraraðila. Rekstraraðilakortin eru hugsuð fyrir aðila með rekstur á gjaldskyldu svæði í borginni. Þessar breytingar á reglum um bílastæðakort eru gerðar með það fyrir sjónum að skapa aukinn sveigjanleika fyrir bæði íbúa og rekstraraðila.
Þetta var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag. Tillögunum verður vísað til borgarráðs og einnig þarf að birta reglurnar í Stjórnartíðindum áður en þær geta tekið gildi og hægt verður að sækja um þessi nýju kort. Áætlað er að það geti verið í upphafi árs 2026.
Í samráðsgátt Reykjavíkur í sumar
Reglurnar voru kynntar í umhverfis- og skipulagsráði í sumar og voru drög að reglunum í samráðsgátt Reykjavíkur frá 15. júlí til 15. ágúst. Tillögurnar um rekstraraðilakortin voru lagðar fram óbreyttar eftir samráð en tvær breytingar voru gerðar á reglunum um íbúakort eftir ábendingum og tillögum sem bárust inn í samráðsgáttina. Nú er útlistað að afnotaskiptaskiptayfirlýsing dugi í þeim tilvikum sem kveðið er á um að stæði séu í sameign og stæði á lóð eru færri en íbúðirnar sem eiga kortin í sameign, hvort sem fyrir liggur eignaskiptayfirlýsing eða ekki. Einnig að reglurnar verði tímabundnar og gildi til 31. desember 2027. Áður en þær renna út verður, með hliðsjón af reynslu, tekin ákvörðun um hvort þær verði áfram óbreyttar eða endurskoðaðar.
Sem stendur eru tæplega tvö þúsund íbúakort í notkun. Gjaldskyld bílastæði Bílastæðasjóðs, sem íbúakort gilda fyrir eru í dag um 3.200 en almenn bílastæði á íbúakortasvæðunum, það er þeim svæðum sem íbúakortin gilda á, hvort sem þau eru gjaldskyld eða ekki, eru að minnsta kosti tvöfalt fleiri.
Helstu breytingar á reglum um íbúakort
Sú tillaga sem lögð er fram felur í sér talsverðar breytingar á gildandi reglum um íbúakort og eru þær helstu eftirfarandi:
- Heimild er veitt til að afgreiða annað íbúakort, svokallað íbúakort 2, í þeim tilvikum þar sem ekki er stæði á lóð og áður hefur verið gefið út eitt íbúakort. Þá er heimilað að gefa út eitt íbúakort 2 í þeim tilvikum þar sem að réttur til notkunar á að hámarki einu stæði á lóð fylgir íbúðinni.
- Heimild er veitt til að veita tímabundna undanþágu frá kröfum um skráningu lögheimilis til umsækjenda sem dvelja í athvörfum og geta ekki vegna sérstakra, tímabundinna aðstæðna flutt lögheimili sitt á dvalarstað (eins og á til dæmis stundum við um skjólstæðinga Kvennaathvarfsins).
- Starfsmenn sendiráða á Íslandi og aðrir svipaðir aðilar sem eru erlendir ríkisborgarar og geta ekki átt lögheimili á Íslandi eru undanþegnir frá kröfu um skráningu lögheimilis.
- Skilgreining útvíkkuð á íbúðarhúsnæði sem heimilt er að gefa út íbúakort vegna.
- Krafa er gerð um að umsækjandi sé skráður eigandi eða umráðamaður ökutækis í ökutækjaskrá.
Rekstraraðilakort til að koma með aðföng og fyrir sveigjanleika
Rekstraraðili þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að geta fengið kort. Til að mynda má bílastæði ekki fylgja húsnæðinu og einungis er heimilt að gefa út eitt rekstraraðilakort vegna hvers reksturs. Rekstur staðsettur innan gjaldsvæðis 1 getur ekki fengið úthlutað rekstraraðilakorti. Ef rekstur umsækjanda er á mörkum tveggja gildissvæða er honum heimilt að velja á hvoru svæðanna rekstraraðilakortið gildir.
Tillagan miðar að því að mæta rekstraraðilum hverfisverslana á gjaldskyldum svæðum. Hverfisverslanir og aðrir rekstraraðilar sem sinna nærþjónustu innan hverfa eru nauðsynlegur þáttur til að auðvelda íbúum að fækka bílferðum sínum. Rekstraraðilakort getur auðveldað slíkum aðilum rekstur sinn. Tillagan gerir ráð fyrir að kortin séu útfærð á svipaðan hátt og kort fyrir íbúa innan gjaldsvæða bílastæðasjóðs. Markmið korta fyrir rekstraraðila er til dæmis að tryggja að hægt sé að koma með aðföng að tilteknum stað rekstraraðilans og þannig auka sveigjanleika.
Gjaldið gæti orðið 20.000 krónur á mánuði
Tillaga um gjaldskrá er lögð sérstaklega fram en þar er lagt til að gjald fyrir fyrir þetta nýja íbúakort verði 20.000 krónur á mánuði. Einnig er lagt til að gjaldið fyrir rekstraraðilakortið verði sömuleiðis 20.000 krónur á mánuði. Það jafngildir því að greitt sé fyrir gjaldskyldu á gjaldsvæði 2 fyrir rétt rúmar þrjár klukkustundir á dag (230 krónur á klukkustund) af þeim 11-12 klukkustundum á dag sem gjaldskylda er.
Skoða íbúakortasvæði Bílastæðasjóðs í Borgarvefsjá: