Snjómokstur og hálkuvarnir í fullum gangi

Ökumenn eru beðnir um að fara varlega.

Starfsfólk vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar hefur verið að störfum síðan seint í gærkvöldi þegar þurfti að greiða leið Strætó. Um klukkan 04 í nótt var svo hafist handa við mokstur á stofnvegum og stígakerfi.

Um 30 tæki eru nú að sinna þjónustunni í öllum þjónustuflokkum – á götum, stígum og plönum. Við bætast fleiri tæki eftir þörfum og er megináherslan að halda helstu leiðum borgarinnar gangandi.

Spáð er áframhaldandi snjókomu í dag og gul viðvörun verður í gildi frá kl. 14. Starfsfólk vetrarþjónustu verður áfram að störfum allan daginn og fram á kvöld.

Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát, gefa sér lengri ferðatíma og fylgjast með færð.

Í Borgarvefsjá er hægt að sjá hvar vetrarþjónustan hefur verið að störfum síðustu tvo sólarhringa, hvenær hefur verið hálkuvarið eða rutt.