Umhverfiskannanir á Norðurlöndum

Umhverfiskönnun sem var lögð fyrir Norðurlandabúa sýnir að konur virðast almennt hafa meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum en karlar og fleiri konum finnst að mikilvægasta samstarfssvið Norðurlandanna ætti að vera umhverfis- og loftslagsmál (50% kvenna á móti 30% karla). Níu af hverjum tíu konum segjast vera áhyggjufullar vegna loftslagsbreytinga á móti sjö af hverjum tíu körlum. Þá styðja aðeins fleiri konur við þá hugmynd að Norðurlöndin eigi að vera í fararbroddi í loftslagsaðgerðum á heimsvísu. Þá voru flestir svarenda tilbúnir að halda áfram að flokka og endurvinna, kaupa minna af fötum og neysluvörum, kaupa notað og nota vistvæna samgöngumáta til að takmarka áhrif þeirra á umhverfið. Þá voru áberandi fleiri konur og sérstaklega ungar konur tilbúnar að borða meira grænkerafæði, kaupa meira notað og minna af nýjum fötum og neysluvörur en karlar. Ungar konur virtust einnig reiðubúnari að hafa afskipti af umhverfismálum en jafnaldra karlar og hafa ungar konur mestar áhyggjur af loftslagsbreytingum af öllum aldurshópum.

Umhverfiskönnun í Svíþjóð

Umhverfiskönnun í Svíþjóð bendir til þess að karlmönnum finnist stjórnvöld, iðnaður og fyrirtæki eiga að bera mestu ábyrgðina þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum. Konur í Svíþjóð halda hins vegar að hegðunarbreyting einstaklinga sé mikilvægari til að bregðast við umhverfis- og loftslagsáhrifum en benda á að þær viti oft ekki hvað sé best að gera í þeim málum. Þá treysta þær tæknilegum úrlausnum minna en karlar þegar kemur að því að leysa loftslagsvandann. Þá eru þær oftar en karlar á móti hækkun á orkuverði og kolefnissköttum eða öðrum stefnum sem auka fjárhagslega byrði einstaklinga þar sem slíkar stefnur eiga það til að bitna verr á konum en körlum. Sænskar konur eru líklegri til að vera með sektarkennd yfir vistfræðilegu fótspori sínu en karlar og reyna að kaupa varning af fyrirtækjum og framleiðendum sem styðja við umhverfis- og loftslagsmál eða selja umhverfisvænar og lífrænar vörur. Þá eru þær tilbúnar að eyða meira í slíkt en karlar.

Umhverfiskönnun Gallup 2022

Umhverfiskönnun Gallup 2022 bendir til þess að margt sé líkt milli Svíþjóðar og Íslands þegar kemur að hegðun og skoðun einstaklinga á umhverfis- og loftslagsmálum. 

Helstu niðurstöður úr þeirri könnun benda til þess að rúmlega 46% svarenda finnist þau vita hvorki mikið né lítið um loftslagsbreytingar og karlar voru aðeins líklegri en konur til að segjast vita mjög mikið eða frekar mikið um þær. Þá fannst rúmlega 46% svarenda að Ísland gerði of lítið til að takast á við loftslagsbreytingar og voru konur þar í meirihluta. Þá virtust svarendur alla jafna vera ánægt með viðleitni sína til umhverfis- og loftslagsmála en karlar voru aðeins líklegri en konur til að vera fyllilega ánægðir með sína viðleitni og konur líklegri til að vera óánægðari. Samt benda margar rannsóknir til þess að konur séu líklegri til að breyta hegðun sinni í þágu umhverfisins og tilbúnar að fórna og eyða meiru til þess en karlar. Þá eru íslenskar konur, líkt og þær sænsku líklegri til að halda að einstaklingar beri ábyrgð á aðgerðum til að sporna við hlýnun. Íslenskar konur eru einnig aðeins líklegri en íslenskir karlar til að finnast stjórnvöld bera ábyrgð á aðgerðum.

Íslenskar konur virðast hafa meiri áhyggjur en karlar af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar geta haft á fjölskyldur þeirra. Þá sögðust 10% karlkyns svarenda vera mjög ósammála þeirri fullyrðingu á meðan slík hugsun kvenna reyndist ómarktæk. Konur eru einnig líklegri til að hafa mjög miklar og nokkrar áhyggjur af hlýnun jarðar (81% á móti 66% karla). Engar áhyggjur karla eru 12% en sú fullyrðing er ekki mælanleg hjá konum.

Fleiri íslenskar konur en karlar segjast hugsa mikið um áhrif sín á umhverfið og loftslagsbreytingar og rúmlega 49% karlkyns svarenda sögðust hugsa lítið um áhrif sín á móti 39% kvenna. Þá styður þessi könnun við ýmsar rannsóknir sem benda til þess að konur séu líklegri til að vilja breyta hegðun sinni en karlar (73% kvenna á móti 53% karla). Íslenskum körlum finnst hegðun þeirra hafa mjög lítil eða engin áhrif á umhverfis- og loftslagsmál (44% karla á móti 17% kvenna). Þeir eru einnig líklegri til að halda að á heimsvísu geti almenningur haft frekar lítil, mjög lítil eða jafnvel engin áhrif á umhverfis-og loftslagsmál. Karlkyns svarendur voru líklegri en kvenkyns svarendur að halda að fréttir af alvarleika hlýnunar jarðar væru ýktar (28% á móti 15%)

Huglæg byrði

Konur virðast bera meiri huglæga byrði (e. mental load) þegar kemur að loftslagsmálum þar sem þær virðast almennt hafa meiri áhyggjur af loftslagsmálum en karlar. Því er líklegt að andlegu byrðarnar af því að breyta hegðun og venjum sínum, fjölskyldu og jafnvel maka leggist frekar á herðar kvenna ef ekki er unnið að því að ná til annarra hópa. ímyndin um hinn ,,fullkomna” umhverfisvæna einstakling sem flokkar og endurvinnur, lagar og bætir föt og eldar hollan og umhverfisvænan mat tekur  ekki mið af þeirri staðreynd að flest þessara verkefna munu lenda á konum.

Fræðsla og umfjöllun

Helstu hvatar og ástæður þátttakenda umhverfiskönnunnar Gallup  til að lágmarka áhrif sín á umhverfið voru fræðsla og umfjöllun, tækifæri til þess að breyta hegðun sinni, góð tímasetning og fjárhagslegur ávinningur. Þá virðist fræðsla og umfjöllun vera helsta ástæða fólks til þess að breyta innkaupum til heimilisins. Það sem kemur helst í veg fyrir að fólk breyti hegðun sinni er að það heldur að það sem það geri hafi lítil áhrif, því finnst stuðningur stjórnvalda ónægur og að það sé of kostnaðarsamt að breyta hegðun sinni. Helstu fyrirmyndir fólks til breyttrar hegðunar var að það vissi að það væri að hjálpa næstu kynslóð ásamt því að vernda Ísland og náttúru landsins til lengri tíma.