Menningar- og ferðamálasvið | Reykjavíkurborg

Menningar- og ferðamálasvið

Sviðsstjóri er Arna Schram.

Menningar- og ferðamálasvið ber ábyrgð á menningarmálum og rekstri menningarstofnana Reykjavíkurborgar. Það annast tengsl og þjónustu við ferðaþjónustuna og heildstæða kynningu á Reykjavík. Þá sér sviðið um skipulagningu og framkvæmd ýmissa viðburða og hátíða.

Sviðið hefur jafnframt umsjón með málefnum Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsi, tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, Listahátíðar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Menningar- og ferðamálasvið sér um samninga, styrki og samskipti við lista- og menningarlífið og er borgaryfirvöldum til faglegrar ráðgjafar í þeim málaflokkum sem undir sviðið heyra.

Sviðsstjóri vinnur með menningar-, íþrótta- og tómstundaráði, stýrir undirbúningi fyrir fundi ráðsins og framkvæmd ákvarðana þess. Hann ber ábyrgð á að rekstur og stjórnsýsla menningar- og ferðamálasviðs sé í samræmi við lög og markaða stefnu Reykjavíkurborgar þar með talið í fjármálum, þjónustu- og starfsmannamálum.  Sviðsstjóri hefur faglega forystu á sviðinu, ber ábyrgð á innleiðingu breytinga og nýsköpunar og heyra stjórnendur stofnana sviðsins beint undir sviðsstjóra. Sviðsstjóri kynnir fyrir fagráði tillögur í frumvarp að fjárhagsáætlun og starfsáætlun og hefur eftirlit með framkvæmd stefnumótunar og starfsáætlana. Sviðsstjóri ber af hálfu sviðsins ábyrgð á samskiptum og tengslum þess innan borgarkerfis sem utan. Sviðsstjóri situr í stjórn Hörpu fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Skrifstofa sviðsins

Skrifstofa sviðsins sinnir jafnframt þjónustu við menningar-, íþrótta- og tómstundaráð og samskiptum við stjórnsýslu borgarinnar. Skrifstofan ber ábyrgð á skjalavörslu, móttöku og umsjón erinda sem berast sviðinu, umsjón með innri og ytri vef sviðsins og ýmsum sérverkefnum í menningar-, markaðs- og ferðamálum.

Skrifstofa fjármála og rekstrar ber ábyrgð á almennri fjármálastjórnun, fjárhagsáætlunargerð og ráðgjöf til stofnana sviðsins. Á skrifstofunni eru unnin reglubundin uppgjör og ársreikningur og almennt eftirlit haft með rekstri. Skrifstofunni tilheyra safnbúðarverkefni og menningarkort. Skrifstofustjóri er tengiliður sviðsins í málefnum Borgarleikhússins. Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar er staðgengill sviðsstjóra.

Skrifstofa mannauðsmála styður stjórnendur sviðsins í mannauðsmálum og heldur utan um fræðslu og annan stuðning til stjórnenda sviðsins í starfsmannamálum.

Skrifstofa menningarmála annast almenna stjórnsýslu á sviði menningarmála og heldur utan um starfssamninga, styrki, húsnæðissamninga og viðurkenningar á vettvangi menningarmála í samráði við sviðsstjóra. Skrifstofustjóri stýrir viðburðateymi Menningar- og ferðamálasviðs  en það annast framkvæmd hátíða sem heyra undir sviðið. Þá hefur skrifstofustjóri umsjón og eftirlit með starfi sameiginlegs barnamenningarfulltrúa MOF og SFS (Skóla- og frístundasviðs).

Reykjavíkurborg var útnefnd ein af Bókmenntaborgum UNESCO á árinu 2011 og eru verkefni Bókmenntaborgarinnar hýst á skrifstofu menningar- og ferðamálasviðs.

Þróunarverkefni til þriggja ára um Tónlistarborgina Reykjavík tilheyrir sviðinu en markmiðið er að efla Reykjavík enn frekar sem tónlistarborg.

Menningarstofnanir Reykjavíkurborgar

Borgarbókasafn Reykjavíkur, Listasafn Reykjavíkur og Borgarsögusafn Reykjavíkur starfa samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar, menningarstefnu Reykjavíkurborgar og lögum og reglugerðum á hverju sviði.

Höfuðborgarstofa ber ábyrgð á ferðamálum fyrir hönd Reykjavíkurborgar þar með talið heildstæðri kynningu og markaðssetningu á Reykjavík í samræmi við ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar.

Skipurit: 

Aðalskipurit Reykjavíkurborgar

Image Map

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

10 + 2 =