Kjarvalsstofa í París
Kjarvalsstofa er stúdíóíbúð/vinnustofa í miðborg Parísar, sem listamenn á Íslandi geta sótt um að fá leigða. Stúdíóið er 40 fm og er íbúðin hluti af alþjóðlegu listamannamiðstöðinni Cité nternationale des arts, sem hýsir yfir 300 listamenn víðs vegar að úr heiminum á hverju ári. Miðstöðin er staðsett í miðborg Parísar, skammt frá Notre Dame dómkirkjunni. Kjarvalsstofa er í umsjá Reykjavíkurborgar og menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Umsókn
Opið er fyrir umsóknir um dvöl í Kjarvalsstofu í París frá miðnætti 12. desember til miðnættis 12. janúar 2024 fyrir dvöl á tímabilinu maí 2024 - apríl 2025.
Íbúðin er leigð út í tvo mánuði í senn að lágmarki og er leiguverð 606 evrur á mánuði á árinu 2024 en hækkar lítillega árið 2025. Auk stúdíóíbúðarinnar er hægt að leigja aðgang að öðrum rýmum í listamannamiðstöðinni, til að mynda æfingarýmum með flygli eða píanói, aðstöðu til tónleikahalds, leirbrennsluofni o.fl. Hægt er að skoða verðlista hér neðst á síðunni. Í stúdíóíbúðinni er svefnpláss fyrir tvo fullorðna, og er dvalargesti heimilt að hafa með sér annan gest, gegn greiðslu aukagjalds.
Í umsókn skal tilgreina markmið með dvölinni, hvaða verkefni umsækjandi hyggst vinna að og hvort verkefnið hafi sérstök tengsl við París eða Frakkland, í formi tengslamyndunar eða rannsókna. Með umsókn þurfa eingöngu að fylgja gögn sem umsækjandi telur að styðji umsóknina.
Umsókninni þarf að skila á ensku, þar sem Cité internationale des arts mun yfirfara umsókninar. Stjórn Kjarvalsstofu metur síðan umsóknirnar og tekur ákvörðun um hverjir hljóta úthlutun. Einnig eru valdir varamenn úr hópi umsækjenda. Stjórnin getur ákveðið að úthluta ekki öllum tímabilunum komi sérstakar aðstæður upp. Öllum umsækjendum er svarað um leið og úthlutun hefur verið ákveðin.
Ætlast er til að dvalargestir skili inn stuttri greinargerð að lokinni dvöl til stjórnar Kjarvalsstofu þar sem fram komi lýsing á unnu verkefni og afrakstri dvalarinnar.
Frekari upplýsingar veitir skrifstofa menningarborgar með netfangið menning@reykjavik.is