Menningar- og íþróttasvið
Menningar- og íþróttasvið Reykjavíkurborgar leggur rækt við mannlífið í borginni á fjölbreyttan hátt með rekstri menningarstofnana og íþróttamannvirkja, ásamt því að styðja við grasrótina í listalífinu, íþróttum og barnamenningu. Sviðið skipuleggur hátíðir í borginni og styður við fjölmarga viðburði og hátíðir sem lífga upp á lífið í borginni allt árið um kring.
Um sviðið
Menningar og íþróttasvið heldur utan um rekstur borgarsafnanna; Borgarbókasafns, Listasafns Reykjavíkur, Borgarsögusafns sem og rekstur sundlauga borgarinnar, íþróttamannvirkja, hjólabrettagarða og gervigrasvalla.
Skrifstofa sviðsins heldur utan um stefnumótun, þróun og faglega stjórnun þeirra fjölbreyttu þjónustu og verkefna sem unnin eru á sviðinu. Á sviðinu er víðtækt samstarf við hagsmunaaðila í lista-, íþrótta- og æskulýðsstarf. Sviðið styður við barnamenningu með fjölbreyttum hætti og styrkir þátttöku barna og unglinga í íþróttastarfi með Frístundakortinu.
Umsýsla vegna funda menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs er á ábyrgð sviðsins sem og ábyrgð á að ákvarðanir ráðsins komi til framkvæmda.
Skrifstofa sviðsins
Eiríkur Björn Björgvinsson, Sviðsstjóri
Steinþór Einarsson, Skrifstofustjóri stjórnsýslu, staðgengill sviðsstjóra
Skrifstofustjórar
Arnfríður S. Valdimarsdóttir, Skrifstofustjóri menningarborgar
Atli Steinn Árnason, Skrifstofustjóri útilífsborgar
Helga Friðriksdóttir, Skrifstofustjóri íþróttaborgar
Staðsetning
Skrifstofa sviðsins er í Borgartúni 12-14
Stofnanir og verkefni
Borgarbókasafn
Borgarbókasafnið lánar bækur, miðlar sögum, þekkingu og menningu í sjö hverfum borgarinnar. Þar eru hýstar mörg þúsund bækur, kvikmyndir, tónlist, dagblöð og tímarit. Þar eru jafnframt fjölbreyttir viðburðir í hverri viku. Á safninu er leitast við að jafna aðstöðu fólks, aðgengi og tækifæri og efla læsi í sinni víðustu mynd. Í fjölbreyttum rýmum safnanna gefst tækifæri til að skapa tengsl, samtal og upplifun. Markmið safnsins er að efla lýðræðislega þátttöku og samfélagslega nýsköpun.
Borgarsögusafn
Borgarsögusafn safnar, skráir og varðveitir menningarminjar. Safnið leggur áherslu á að vera í sterkum tengslum við samfélagið og hvetur gesti til þátttöku. Borgarsögusafn miðlar forvitnilegri sögu borgarinnar á fjölbreyttan hátt, vekur fólk til umhugsunar og er skapandi og skemmtilegur staður til að heimsækja. Borgarsögusafn samanstendur af Árbæjarsafni, Landnámssýningu, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Sjóminjasafni og Viðey.
Hitt húsið
Hitt Húsið er miðstöð ungs fólks þar sem ungmenni geta nýtt aðstöðuna til að syngja, dansa, dreyma, skapa, læra, spila, funda — nánast hvað sem því dettur í hug!
Fjölskyldugarðurinn
Fjölskyldugarðurinn í Reykjavík er staðsettur í veðursældinni í Laugardalnum þar sem borgarbúar og gestir geta notið nálægðar við íslensk húsdýr og skemmt sér á fjölbreyttu útileiksvæði allan ársins hring. Dýraþjónusta Reykjavíkur hefur aðsetur í garðinum og heldur utan um málefni gæludýra og annarra dýra sem lent hafa í hremmingum í borginni.
Listasafn Reykjavíkur
Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækið listasafn sem er að finna á þremur stöðum í borginni, í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni. Þar eru reglulega haldnar sýningar á samtímalist og á verkum eftir þrjá af þekktustu listamönnum þjóðarinnar, Erró, Kjarval og Ásmund Sveinsson. Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón og eftirlit með útilistaverkum í eigu borgarinnar.
Sundlaugar
Í Reykjavík njótum við heilsuræktar í sundlaugum borgarinnar allt árið. Þar er hægt að komast í sundleikfimi og gufu og rækta líkama og sál í félagsskap við samborgara okkar.
Ylströndin
Ylströndin í Nauthólsvík hefur fest sig í sessi sem paradís í borgarlandinu. Sjóvarnargarðar loka af fallegt lón þar sem kaldur sjór og heitt vatn renna saman í eitt. Ylströndin er fjölbreyttu svæði þar sem lögð er áhersla á útiveru, sólböð og sjóböð.
Skíðasvæðin í borginni
Innan borgarmarka Reykjavíkur eru þrjár skíðalyftur sem ætlaðar eru börnum og byrjendum. Stærri skíðasvæði borgarbúa er í Bláfjöllum og Skálafelli.
Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO
Frá árinu 2011 hefur borgin verið aðili að netverkinu Skapandi borgir UNESCO ásamt um 170 öðrum borgum. Í því felst mikil viðurkenning á stöðu bókmennta í Reykjavík. Bókmenntaborgin leggur rækt við orðlistalíf í víðum skilningi jafnt innanlands sem á erlendum vettvangi. Einnig heldur hún utan um starfsemi Gröndalshúss.
Tónlistarborgin Reykjavík
Markmið Tónlistarborgarinnar er að efla Reykjavík sem tónlistarborg með því að koma á fót öflugu stuðningskerfi og skapa hagstæð skilyrði fyrir gróskumikla tónlistarstarfsemi um alla borg. Eins að ímynd íslenskrar tónlistar verði samofin ímynd Reykjavíkur sem menningarborgar og áhugaverðs áfangastaðar.
Viðburðir og hátíðir
Reykjavíkurborg stendur fyrir og styður við fjölda viðburða og hátíða allt árið um kring. Hjá Reykjavíkurborg er starfandi viðburðateymi sem hefur umsjón meðal annars með Vetrarhátíð, Barnamenningarhátíð, 17. júní, Menningarnótt, tendrun Friðarsúlunnar og aðventudagskrá borgarinnar.
Fjölbreyttur stuðningur við menningar og íþróttastarf í borginni
Styrkir
Reykjavíkurborg veitir árlega fjölda styrkja til ýmissa menninga- og íþróttamála ásamt því að veita verðlaun og viðurkenningar. Styrkir úr borgarsjóði eru auglýstir til umsóknar að hausti ár hvert. Fagráð fara yfir umsóknirnar og taka ákvörðun um úthlutun fyrir árslok.
Viltu sækja um styrk í Borgarsjóð?
Menningar- og íþróttasvið hefur umsjón með frístundastyrk til allra barna á aldrinum 6-18 ára með lögheimili í Reykjavík. Ráðstöfun styrksins fer fram í gegnum skráningarkerfi félaga.
- Aðrir styrkir, verðlaun og viðurkenningar sem borgin veitir.
Samstarf
Borgin styður við rekstur Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss, Leikfélags Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Dansverkstæði, Tjarnarbíós, Listamiðstöðvarinnar á Korpúlfsstöðum og rekstur margra íþróttamannvirkja í borginni. Einnig styður borgin við menningar og íþróttalífið með lengri samstarfssamninga við ýmis list- og íþróttafélög.
Möguleikar íbúa Reykjavíkurborgar til skemmtilegrar frístundaiðju eru afar miklir og ættu allir aldurshópar að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Reykjavíkurborg leggur áherslu á miðla á einfaldan hátt upplýsingum um starf borgarinnar. Sérstök áhersla er lögð á að kynna möguleika barna og unglinga í hverfum borgarinnar.
Gestadvöl
Borgin býður upp á gestadvöl á tveimur stöðum fyrir innlent og erlent listafólk.
Skipurit