Menningar- og ferðamálasvið

Menningar- og ferðamálasvið leggur rækt við menningu og ferðamál í borginni á fjölbreyttan hátt. Með rekstri menningarstofnanna, viðburða og hátíða ásamt margvíslegum stuðningi og samstarfi við lista og menningarlífið. Sviðið er leiðandi í markaðssetningu á Reykjavík sem áfangastað í samvinnu við aðila innan  ferðaþjónustunnar. 

Starfandi sviðstjóri

Huld Ingimarsdóttir

Menningarmál 

Menningar- og ferðamálasvið heldur utan um rekstur Borgarbókasafns, Listasafns Reykjavíkur og Borgarsögusafns. Skrifstofa sviðsins heldur utan um stefnumótun, þróun og faglega stjórnun þeirra fjölbreyttu þjónustu og verkefna sem unnin eru á sviðinu, auk umsýslu vegna funda menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Ásamt sviðsstjóra eru í ráðhúsinu skrifstofa menningarmála, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, Tónlistarborgin Reykjavík og viðburðateymi borgarinnar.  

Borgarbókasafn 

Borgarbókasafnið lánar bækur, miðlar sögum, þekkingu og menningu í sjö hverfum borgarinnar. Þar eru hýstar mörg þúsund bækur, kvikmyndir, tónlist, dagblöð og tímarit. Þar eru jafnframt fjölbreyttir viðburðir í hverri viku. Á safninu er leitast við að jafna aðstöðu fólks, aðgengi og tækifæri og efla læsi í sinni víðustu mynd. Í fjölbreyttum rýmum safnanna gefst tækifæri til að skapa tengsl, samtal og upplifun. Markmið safnsins er að efla lýðræðislega þátttöku og samfélagslega  nýsköpun. 

Borgarsögusafn 

Borgarsögusafn safnar, skráir og varðveitir menningarminjar. Safnið leggur áherslu á að vera í sterkum tengslum við samfélagið og hvetur gesti til þátttöku.  Borgarsögusafn miðlar forvitnilegri sögu borgarinnar á fjölbreyttan hátt, vekur fólk til umhugsunar og er skapandi og skemmtilegur staður til að heimsækja. Borgarsögusafn samanstendur af Árbæjarsafni, Landnámssýningu, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Sjóminjasafni og Viðey. 

Listasafn Reykjavíkur 

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækið listasafn sem er að finna á þremur stöðum í borginni, í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni. Þar eru reglulega haldnar sýningar á samtímalist og á verkum eftir þrjá af þekktustu listamönnum þjóðarinnar, Erró, Kjarval og Ásmund Sveinsson. Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón og eftirlit með útilistaverkum í eigu borgarinnar.

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO 

Frá árinu 2011 hefur borgin verið aðili að netverkinu Skapandi borgir UNESCO ásamt um 170 öðrum borgum. Í því felst mikil viðurkenning á stöðu bókmennta í Reykjavík. Bókmenntaborgin leggur rækt við orðlistalíf í víðum skilningi jafnt innanlands sem á erlendum vettvangi. Einnig heldur hún utan um starfsemi Gröndalshúss.

Tónlistarborgin Reykjavík 

Markmið Tónlistarborgarinnar er að efla Reykjavík sem tónlistarborg með því að koma á fót öflugu stuðningskerfi og skapa hagstæð skilyrði fyrir gróskumikla tónlistarstarfsemi um alla borg. Eins að ímynd íslenskrar tónlistar verði samofin ímynd Reykjavíkur sem menningarborgar og áhugaverðs áfangastaðar.  

Viðburðir og hátíðir 

Reykjavíkurborg stendur fyrir og styður við fjölda viðburða og hátíða allt árið um kring. Á sviðinu er starfandi viðburðateymi sem hefur umsjón meðal annars með Vetrarhátíð, Barnamenningarhátíð, 17. júní, Menningarnótt, tendrun Friðarsúlunnar og aðventudagskrá borgarinnar.

Fjölbreyttur stuðningur við menningu og listir 

Styrkir 

Reykjavíkurborg veitir árlega fjölda styrkja til ýmissa menningarmála ásamt því að veita verðlaun og viðurkenningar. Styrkir úr borgarsjóði eru auglýstir til umsóknar að hausti ár hvert. Fagráð fara yfir umsóknirnar og taka ákvörðun um úthlutun fyrir árslok.  

Gestadvöl 

Borgin bíður upp á gestadvöl á tveimur stöðum fyrir innlent og erlent listafólk. 

Aðrar stofnanir 

Borgin styður við rekstur Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss, Leikfélags Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Dansverkstæði, Tjarnarbíós og Listamiðstöðvarinnar á Korpúlfsstöðum ásamt því að vera með 2-3 ára samstarfssamninga við ýmis listfélög. 

Ferðamál  

Höfuðborgarstofa

Höfuðborgarstofa vinnur með ferðamál Reykjavíkurborgar. Þar er unnin kynning á Reykjavík sem spennandi áfangastað bæði innanlands og erlendis. Höfuðborgarstofa leiðir samstarf sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu um markaðssetningu erlendis undir sameiginlegu vörumerki Reykjavíkur. Megináhersla í starfi stofunnar er markaðssetning á áfangastaðnum Reykjavík og vinnur hún náið með öðrum hagaðilum í ferðaþjónustu.  

Skoðaðu vefinn Borgin okkar og fáðu hugmyndir að hvað má gera og sjá í borginni sem og visitreykjavik.is sem er á ensku.  

 

Starfsáætlun 2022

Starfsáætlun menningar- og ferðamálasviðs fyrir árið 2022 er aðgengileg á pdf formi og með henni er ársskýrsla ársins 2021. 

Metnaðarfull starfsáætlun sem sýnir það fjölbreytta og lifandi starf sem fram fer í menningar- og ferðamálum í borginni.