Íþróttir og útivist
Komdu út að leika! Hreyfing og útivist styðja við góða líkamlega og andlega heilsu. Í Reykjavík finnur þú fjölda útivistarsvæða sem bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilega afþreyingu. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er með eitthvað fyrir alla og svo eru auðvitað sundlaugarnar opnar allan ársins hring.
Skíðasvæðin
Innan borgarmarka Reykjavíkur eru þrjár skíðalyftur sem ætlaðar eru börnum og byrjendum í Ártúnsbrekku, Breiðholti og Grafarvogi. Lyfturnar eru opnar þegar aðstæður leyfa. Stærri skíðasvæði eru í Bláfjöllum og Skálafelli.
Sundlaugar
Það er fátt betra en útivera og hreyfing þegar kemur að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu - og svo er ekki margt sem jafnast á við það að flatmaga í heitum potti!
Ylströndin Nauthólsvík
Ylströndin í Nauthólsvík, sem tekin var í notkun árið 2000, hefur sannarlega fest sig í sessi sem paradís í borgarlandinu sem laðar að jafnt innlenda sem erlenda gesti. Í Nauthólsvík er að finna þjónustumiðstöð með búnings- og sturtuaðstöðu fyrir baðgesti auk veitingasölu og grillaðstöðu.
Sjósund
Sjósund nýtur vaxandi vinsælda og þykir það einstaklega gott fyrir áhugafólk um sjósund að nýta sér aðstöðu Ylstrandar allt árið. Starfsfólk Ylstrandar reyna eftir fremsta megni að gefa sjósundfólki góð ráð en þó má sérstaklega taka fram að reyndir sjósundkappar eru bestir í að gefa góð ráð.
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Dýra- og skemmtigarður staðsettur í Laugardalnum. Í garðinum eru haldin dýranámskeið fyrir börn og unglinga. Á sumrin eru tækin opin en allt árið í kring er dagskrá þar sem hægt er að sjá þegar dýrunum er gefið að borða eða stundum jafnvel hægt að skella sér á hestbak. Garðurinn er opinn alla daga.
Strandblak
Glæsilegir strandblakvellir eru við Árbæjarlaug, Laugardalslaug og við Gufunesbæ sem gestir geta nýtt sér.
Til að nýta sér vellina þarf að bóka tíma.
Hitt húsið
Hitt Húsið er miðstöð ungs fólks. Ef þú ert á aldrinum 16-25 ára getur þú nýtt þér aðstöðuna til að syngja, dansa, dreyma, skapa, læra, spila, funda og nánast hvað sem þér dettur í hug!
Komdu og kynntu hugmyndina þína eða kíktu bara í kaffi og sjáðu hvað er í gangi.