Íbúafundur borgarstjóra – Hlíðar

Borgarstjóri býður til opins íbúafundar miðvikudaginn 2. febrúar kl. 20:00 fyrir íbúa í Hlíðum, en þeim borgarhluta tilheyra Norðurmýri, Holt, Hlemmur og Öskjuhlíð. Á fundinum kynnir borgarstjóri það sem efst er á baugi í hverfinu og mun eiga samtal við íbúa um framtíð hverfisins.  

Streymi

Streymt verður frá íbúafundinum á þessa vefsíðu og hér verður allt efni aðgengilegt að loknum fundi.

Við verðum á Kjarvalsstöðum fyrir þau okkar sem vilja mæta og að sjálfsögðu gætum við að smitvörnum.  

 

Dagskrá fundarins

  • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri: Hlíðar
    - skoða kynningu borgarstjóra
  • Stefán Pálsson, íbúi í Hlíðum: Sögulegt hverfi með hlýtt hjarta
    - Skoða vídeó 
  • Ævar Harðarson, arkitekt og deildarstjóri hverfisskipulags:  Samráð við gerð hverfisskipulags
    - skoða kynningu Ævars
  • Helga Bragadóttir, ráðgjafi: Hugmyndir og vinnutillögur í hverfisskipulagi fyrir Hlíðar
    - skoða kynningu Helgu
  • Spurningar og svör
    - sjá á upptöku fundarins og verður einnig sett inn hér neðst á síðuna

Fundarstjóri: Margrét M, Norðdahl, formaður íbúaráðs Miðborgar og Hlíða

Hefur þú spurningu?

Sendu þínar spurningar endilega fyrir fundinn. Fylltu út formið hér að neðan eða sendu tölvupóst á netfangið: ibuafundir@reykjavik.is.

Spurningar og svör

Norðurmýri og Holt / Háteigshverfi eða bara Hlíðar?

Spurning:
Bara forvitnast með íbuafundinn á miðvikudag, á þar líka að fjalla um Norðurmýri og Holt/ Háteigshverfi eða bara Hlíðar? Ég sé amk. ekkert um það...eingöngu minnst á Hlíðar í fundarboðinu og efni fundar... ATH fólk í Norðurmýri samsamar sig ekki með Hlíðum og ég veit allnokkur dæmi um að fólk taki ekki til sín svona tilkynningar, fundarboð o.þ.h. og missi þ.a.l. af þegar allt hverfið er kallað Hlíðar, sérstaklega eldri borgarar og gamalgrónir íbúar. Það er borgarkerfisins að hafa þetta skýrt, alltaf eins/samræmt heiti og passa upp á að íbúarnir fáir skýr og rétt skilaboð og nefna hverfið alltaf fullu nafni: Hlíðar, Holt og Norðurmýri. ATH Nýjasta nafngiftin sem var á hverfaskipulaginu (hengt upp á Kjarvalsstöðum stuttu fyrir jól) var að hverfinu var skipt upp í Háteigshverfi og Hlíðar með sinn hvorum hverfaskipulagsuppdrættinum og þá tilheyrir Norðurmýrin Háteigshverfi.... á þá líka að fjalla um Háteigshverfi á þessum fundi?

Svar:
Íbúafundurinn er fyrir borgarhlutann Hlíðar og til hans heyra Norðurmýri, Holt, Öskjuhlíð, Hlíðar og Hlemmur. Eftir ábendinguna uppfærðum við upplýsingar á vefsíðu og settum ný boð á samfélagsmiðla. 

Spurningar um úrræði fyrir fólk með fíkniefnavanda í hverfinu

Hvers vegna er heimili fyrir virka fíkla við hliðina á áfanga heimili fyrir edrú karlmenn?

Konukot er einnig stutt frá. Getur verið að það standi til að byggja fleiri heimili fyrir fólk með fíknivanda í hverfinu?

Hver er hugsunin á bakvið að hafa þessi úrræði í sama hverfi?

Var haft samband við sérfræðing í fíknivandi með í þessu skipulagi?

Það er rétt að mörg af úrræðum velferðarsviðs fyrir einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir eru miðsvæðis í Reykjavík. Nokkur þeirra eru í Hlíðunum en þau er einnig að finna í öðrum hverfum sem teljast miðsvæðis í borginni. Þannig er til að mynda Konukot, sem er neyðarskýli fyrir konur, í Hlíðunum, á meðan neyðarskýli ætluð karlmönnum eru í miðbæ Reykjavíkur og á Granda.  

Margir notenda þjónustunnar höfðu áður lögheimili í öðrum hverfum eða öðrum sveitarfélögum en sækja í að vera miðsvæðis. Sveitarfélögum ber skylda til að veita íbúum sínum aðstoð þegar þeir geta ekki leyst úr húsnæðisvanda sínum sjálfir. Mikilvægt er að úrræði séu nálæg þeim einstaklingum sem þau nota, svo þau nýtist þeim sem best. Í Reykjavík er unnið eftir hugmyndafræðinni „húsnæði fyrst“ en hún gengur út frá því að húsnæði sé grunnþörf og teljist til mannréttinda.  

Ekki er verið að byggja upp húsnæði fyrir einstaklinga með fíknivanda í Hlíðunum. Tveimur úrræðum stendur hins vegar til að loka (á Skeggjagötu sem er herbergjasambýli og á Gunnarsbraut sem er tímabundið herbergjasambýli fyrir konur). Einstaklingarnir sem búið hafa á Skeggjagötu munu fá annað húsnæði en konurnar sem nú búa á Gunnarsbraut munu flytja aftur í fyrra húsnæði á Hringbraut, en þar standa nú viðgerðir yfir. 

Leik- og grunnskólar

Samgöngur fyrir safnskóla á unglingastigi 

Ég er mjög fylgjandi safnskóla á unglingastigi. Þannig gæti nemendum verið boðið upp á meira úrval í valgreinum og hægt að nýta ýmsa sérþekkingu kennara og starfsfólks fyrir nemendur með sérþarfir. En enginn vill að unglingurinn sinn þurfi að labba 2 km í skólann og margir hugsa sér að keyra þá. Hvernig er hægt að leysa það mál? Ókeypis strætóferðir eða skólabíll sem færi í gegnum hverfið á morgnana og eina til þrjár ferðir síðdegis? 

Svar:  

Í þeim fimm sviðsmyndum sem starfshópurinn fjallar um í skýrslunni er gerð svót greining á samgöngum á milli eininga.  Í skýrslunni segir m.a.: „Rýna þarf samgönguæðar, hvernig ferðir Strætó falla að þjónustu við nemendur sem koma úr þessum hverfum og kanna möguleika á þörf fyrir annars konar samgöngubætur. Ljóst er að nemendur þurfa að fara um mislangan veg og yfir misfjölfarnar götur ef breyta á skólahverfum t.d. með nýjum unglingaskóla“ 

Þörf á leik- og grunnskólaplássum

Hvernig hyggst Reykjavíkurborg bregðast við stóraukinni þörf á leik- og grunnskólaplássum í hverfinu? Með tilkomu Hlíðarendahverfis hefur eftirspurn eftir plássum aldrei verið meiri. Ævintýraborg opnar á Flugvallarvegi en 100 pláss duga ekki til að svara eftirspurn. Sama má segja með grunnskólamál, foreldrar eru uggandi yfir því að borgina skorti framtíðarsýn við uppbyggingu hverfisins. Með réttu ættu börnin að hafa greiðan aðgang nú þegar að menntun í sínum hverfum. Foreldrum verður tíðrætt um þetta.

Svar:  

Brúum bilið aðgerðaáætlunin felur í sér mikla fjölgun leikskólaplássa og sú fjölgun er mest miðsvæðis í borginni sem mun m.a. nýtast foreldrum í Hlíðahverfi.  Á þessu ári opna nýir leikskólar við Nauthólsveg, Bríetartún, Ármúla (Múlaborg), Vörðuskóla, Kleppsveg og Safamýri auk þess sem leikskólinn Laugasól í Laugardal stækkar. Allt í allt fjölgar leikskólaplássum um rúmlega 500 með þessum nýju leikskólum og stækkunum miðsvæðis í borginni. 

Leikskólamál

Mig langar að spyrja um leikskólamál. Nú er ég einstæð með 7 mánaða gamalt barn og er í skóla. Ég er svo heppin að eiga góða að til að hjálpa mér, en ég á ekki ekki von á að fá pláss fyrir barnið á leikskóla í hverfinu fyrr en hann er orðinn 1 1/2 - 2 ára! Hvað er verið að gera í þessi málum?

Svar:  

Í samræmi við stefnu meirihlutans og samþykkt borgarstjórnar frá 18. nóvember 2018 er verið að fjölga verulega leikskólaplássum með það að markmiði að geta boðið börnum frá 12 mánaða aldri í leikskóla.  Samþykktin og aðgerðaáætlunin Brúum bilið gerði ráð fyrir því að börn frá 12 mánaða aldri kæmust að fyrir lok árs 2023 en nú er verið að ganga frá endurskoðaðri áætlun sem gerir ráð fyrir að þau komist að ári fyrr eða frá og með næsta hausti með því að fjölga plássum tvöfalt meira en áður var stefnt að.  Allar líkur eru á því að barn sem er 7 mánaða í dag komist því í leikskóla í haust enda er verið að opna nýja leikskóla við Bríetartún, Ármúla, Safamýri og Nauthólsveg sem mun m.a. nýtast foreldrum í Hlíðahverfi auk þess sem leikskóli opnar við Eggertsgötu og síðar á árinu við Laugasól í Laugardal svo helstu verkefni séu nefnd. 

Sameining á unglingastigi og grænar áherslur

Samkvæmt nýlegri skýrslu starfshóps skóla- og frístundasviðs  um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla, Hlíðaskóla og Vörðuskóla virðist ljóst að fyrirætlun borgarinnar sé að sameina unglingastig Háteigs- og/eða Hlíðaskóla við unglingastig Austurbæjarskóla í Vörðu- og/eða Austurbæjarskóla í náinni framtíð. Hvernig samræmist það stefnu Reykjavíkurborgar um græna borg, bíllausan lífsstíl, sjálfbær hverfi og nærþjónustu í göngufæri að ætla unglingum Háteigshverfis og Hlíða að sækja sér grunnmenntun út fyrir hverfið sitt? 

Svar:  

Það þarf að vera hvatning fyrir nemendur að ganga, hjóla eða taka strætó í skólann. Samgöngur þurfa að vera öruggar og að það taki skjótan tíma að fara á milli. Yfirfara þarf strætóferðir og skoða í samráði við Strætó hvort breytinga er þörf á akstursleiðum með tilliti til tímalengdar og fleira ef nauðsyn krefur. 

Bústaðavegur í stokk og fjöldi akreina á Miklubraut

Spurt er hvort vilji sé hjá borgaryfirvöldum til að kanna formlega afstöðu íbúa í Hlíðunum til þess að hluti af Bústaðarvegi fari í stokk, líkt og ein tillagan að fyrsta áfanga Miklubrautar í stokk gerir ráð fyrir?  

Hefur verið tekin ákvörðun um það hversu margar akreinarnar verða á Miklubraut við Klambratún, eftir að umferðin sjálf fer í stokk? Spyr að þessu því afar mikilvægt er að minnka sem mest annars vegar það hvernig Miklabraut sker sundur hverfið og hins vegar Bústaðavegur. Hef heyrt marga í Hlíðunum nefna þetta.  

Samgöngur: Svar: Bústaðavegur í stokk:  Þetta hefur ekki verið skoðað. Frekar hefur verið horft til þess að draga úr gegnumakstri og draga úr hraða umferðar og gera umhverfið vistlegra og öruggara fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, þ.e.a.s. á þeim hluta Bústaðavegar sem er austan Kringlumýrarbrautar, þ.e. í eigu og umsjón Reykjavíkurborgar. 

Græn svæði hverfisins

Hvenær kemur brú yfir Miklabraut við Stigahlíð?

Hvenær kemur alvöru hjólastígur meðfram Hringbraut/Vatnsmýri og svo í áttina að Kringlunni?  

Svar: Brú yfir Miklubraut við Stigahlíð: Ekki er gert ráð fyrir brú yfir Miklubraut við Stigahlíð. Í samræmi við samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir að Miklabraut fari í stokk á þessu svæði. Við þá aðgerð minnkar umferð ökutækja á yfirborði til muna þannig að unnt verður að vera með aðgengilegri og öruggari gönguþverun við Stigahlíð. 

Samgöngur Svar: Hjólastígur meðfram Hringbraut/Vatnsmýri:  Gert er ráð fyrir hjólastíg meðfram Hringbraut og Miklubraut til framtíðar. Samhliða því að Miklabraut verður færð í stokk er gert ráð fyrir að hjólastígar verði gerðir á yfirborði. Einnig er gert ráð fyrir hjólastígum samsíða borgarlínu eftir Miklubraut sem gert er ráð fyrir að verði komin um 2030. 

Hvenær koma almenningssalerni á Klambratún?

Þetta útivistarsvæði nýtir sívaxandi fjöldi fólks á öllum aldri langt fram eftir á björtum vor- og sumarkvöldum en það er engin salernisaðstaða eftir lokun Kjarvalsstaða. Það er ekki boðlegt!  

Svar: Hverfisskipulagi hafa borist athugasemdir við vinnutillögur þar sem óskað er eftir að bæt verði úr skori á almenningssalernum á Klambratúni.  Brugðist verður við því og settir skilmálar þar sem heimilt verður að koma upp almenningssalernum á þessum mikilvæga útivistarsvæði. 

Eru framkvæmdir á döfinni í Suðurhlíð. 

Ýmislegt hefur verið vel gert en það er ekki búið að ganga endanlega frá neðri hluta götunnar.  Má þá t.d. nefna græn svæði milli gangstéttar og götu og  frágang við skóg sem er neðarlega við götuna.  Einnig má nefna að enginn leikvöllur er nálægt fjölbýlishúsinu okkar. Við viljum síðan benda á að umhirða götunnar og umhverfis hefur ekki verið sem skyldi. Við vonumst til að fá einhver svör á fundinum. 

Svar: Suðurhlíð, fyrirhugaðar framkvæmdir í nágrenninu: Ekki eru fyrirhugaðar sérstakar framkvæmdir í Suðurhlíð sjálfri en brugðist er við ábendingum um lagfæringar á gróðri jafnóðum, eins og unnt er. Reykjavíkurborg og Vegagerðin vinna saman að undirbúningi biðstöðva fyrir strætó á Kringlumýrarbraut við göngubrúna. 

Skipulag á Veðurstofuhæð

Góðan daginn. Væri gott ef hægt væri að fjalla um væntanlegt skipulag á Veðurstofuhæð, hver staðan er og hvernig byggð eigi að rísa og byggingarmagn, sérstaklega í ljósi þess að ekki er mikið um græn svæði í hverfinu og Veðurstofuhæð mikið notað af íbúum. Einnig hefur mikið verið rætt um Miklubraut/Kringlumýrabraut í stokk, eins hugmynd af yfirbyggðu "grænu svæði" yfir Kringlumýrabraut. Er þetta draumsýn eða er eitthvað af þessu komið á framkvæmdaráætlun, hvaða tímasetningar er verið að ræða um  

Svar frá hverfisskipulagi /aðalskipulagi:   

Veðurstofuhæð er skilgreint sem þróunarreitur  í hverfisskipulagi sem þýðir að unnið verður sérstakt deiliskipulag. 

Vinna við hönnun Veðurstofuhæðarinnar er ekki hafin en aðalskipulagið gerði á sínum tíma ráð fyrir 150-250 íbúðum á svæðinu. Í nýju aðalskipulagi er ekki sett endanlega tala um fjölda íbúða, en byggingarmagn á svæðinu mun m.a. taka mið af nálægð við Borgarlínu og svo mati á umhverfisáhrifum byggðar, m.a. nálæga byggð og gróðursvæði. Reiturinn er í lægsta flokki samkvæmt stefnu um hæðir húsa (5 hæðir og undir). Hugmyndir hafa verið settar fram um námsmannagarð í gamla Veðurstofuhúsinu. Sambýli fyrir fatlaða með 5-7 íbúa. Samnýtanlegt bílastæðahús með möguleika á þjónustu og verslun á jarðhæð. Framtíðar byggingarreitur vegna stækkunar á kaldavatnstanki Veitna. Bætt aðgengi milli hverfa m.a. yfir Bústaðaveg. Vilji er til að halda í óraskaðar klappir, kjarr og mosa. Stór hluti svæðisins verður áfram grænt svæði, minni Öskjuhlíð hjá MH og hornið á Bústaðavegi og Kringlumýrarbraut. 

Á kynningarsíðu hverfisskipulags fyrir Hlíðar er í gangi netsamráð þar sem ein spurningin varðar hugmyndir um notkun á Veðurstofuhæðinni. 

Bílastæði

Bólstaðarhlíð 41-45 -  bílastæði

Samtals eru hér 60 íbúðir í þrem húsum (nr. 10, 12 og 14) með 60 bílastæðum í kjallara og 18 bílastæðum fyrir utan húsin, þar af 4 fyrir fatlaða. Sumir íbúa hér eiga tvo bíla, s.s. ég. 

Hér við Bólstaðarhlíð 41-45 eru 66 íbúðir, einnig á vegum Samtaka aldraðra, 

Þar eru bílastæði utanhúss 73, þar af 4 fyrir fatlaða. Þarna eru alla daga og allar nætur tugir stæða sem eru ekki nýtt. Undanfarnar vikur hef ég talið bílana á stæðunum og þá mest séð 35 bíla vera í þessum 73 stæðum. Það er eitthvað um það að íbúar framangreindra húsa við Austurhlíð leggi í bílastæði húsanna við Bólstaðarhlíð 41-45. Þessu er illa tekið af sumum íbúanna í Bólstaðarhlíð 41 og 45 og leiðindi í uppsiglingu. Spurning mín er hvort þessi 73, framangreind bílastæði, séu eign Samfélagshússins og íbúa við Bólstaðarhlíð 41-45? Hef heyrt að borgin ætti einhver af þessum 73 stæðum. 

Samgöngur

Svar:

Bílastæði Bólstaðarhlíð 41-45: Bílastæðin sem vísað er til eru innan lóðar Bólstaðarhlíðar 41-45. Bílastæði norðan Austurhlíðar 14 (9 stæði, þar af tvö fyrir hreyfihamlaða, tilheyra Austurhlíð 12-14, en eru með aðkomu frá Bólstaðarhlíð. Ekki er vitað um samkomulag við lóðarhafa um afnot borgarinnar af stæðunum.

 

Þétting byggðar við Skógarhlíð

Spurning er hvort satt reynist að klambra eigi niður byggingu/blokk á milli bensínstöðvar Orkunnar og slökkvistöðvar í Skógarhlíð, og ef svo er þá er mér spurn hvort þessir ráðamenn taki aldrei tillit til íbúa sem munu verða fyrir skertu útsýni, víðáttu og minnkandi andrými  
sem verða mun við þessar endalausu þrengingar. Ég bý í blokk í Eskihlíð næst bensínstöðinni og úr stærri stofuglugga mínum er ég með blokkina fyrir neðan mig alveg ofaní mér en úr borðstofuglugga og svölum hef ég aðeins meira andrými í suð-vestur átt sem nú er fyrirhugað að eyðileggja. Þó við sem búum í höfuðborginni gerum okkur fulla grein fyrir því að við búum í borg. (reyndar engri stórborg eins og sumir virðast vilja meina) þá sé ég enga nauðsyn á því að þrengja svo að íbúum að ekki sé lengur eftirsóknarvert þar að búa. Hélt að þessir ráðamenn væru svo umhugað um lífsgæði íbúa en það virðist öðru nær nema þegar um þrengingar gatna er að ræða þá er það réttlætt vegna minni mengunar og annað slíkt sem mér finnst reyndar ekki standast skoðun því meiri umferðartafir verða fyrir vikið með meiri mengun og lengri tíma sem tekur að komast til síns heima. Mér finnst það með öllu ólíðandi að geta beitt íbúa þessu ofbeldi með svona ákvörðunum eftir að maður hefur keypt sér fasteign þar sem umhverfi hafði mikil áhrif á það val. já ég kalla þetta ofbeldi þar sem þetta hefur valdið mér áhyggjum og vanlíðan með öllum þessum endalausu þrengingum á öllum sviðum. 

Svar frá hverfisskipulagi/aðalskipulagi:   

Skógarhlíðin er skilgreint sem þróunarsvæði  í hverfisskipulagi sem þýðir að unnið verður sérstakt deiliskipulag. Í AR 2040 segir um Skógarhlíð.  Blanda skrifstofa, þjónustu og stofnana. Léttur iðnaður heimill. Óheimilt er að reka matvöruverslanir á svæðinu nema það sé sérstaklega tekið fram í deiliskipulagi, að það sé heimilt. Skógarhlíð er áfram skilgreind sem blandað atvinnusvæði og ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð þar að svo stöddu, skv. AR2040. Á svæðinu eru því tækifæri til efla verslun og þjónustu við íbúa í Hlíðum – og að skapa ný atvinnutækifæri. Almennt þarf að bæta aðgengi milli Hlíða, Skógahlíðar, Valssvæðis og Öskjuhlíðar. 

Hverfisskipulag

Hver er stefnan varðandi íbúðir í bílskúrum í Hlíðum/Holtum/Norðurmýri?

A. varðandi nýjar ?

B. varðandi þegar komnar...

Nú þegar eru margar íbúðir innréttaðar í bílskúrum í hverfinu, Þar sem þær eru væntanlega flestar ef ekki allar í óleyfi eru því - ekki tryggðar flóttaleiðir úr þessum íbúðum - ekki rétt skráning á fasteigninni og því ekki borguð rétt gjöld af viðkomandi fasteign - ekki gert ráð fyrir aukabifreiðum sem fylgja þessum nýju íbúum. 

SVAR:  

 Hverfisskipulag fyrir Hlíðar gerir ráð fyrir að heimilt verði að innrétta litlar íbúðir í bílskúrum að uppfylltum nokkuð ströngum skilyrðum um aðbúnað, aðkomu og umfang. 

Sorphirða

Flokka rusl í 4 flokka á heimilum  

Gæti ekki verið heppilegt að fjölga grenndarstöðvum, þar sem það er landfræðilega mögulegt? Frekar en að það verði fleiri tunnur við hvert einasta heimili. Gæti ekki passað sumstaðar að setja flokkunarstöð í enda hverrar götu eða á borgarlóðum eins og bílastæði skóla eða leikskóla. 

Svar

Úrgangsstjórnun: Ekki þarf fleiri tunnur við heimili, ef heimili er með bláa, græna og gráa, þá verður þeirri gráu skipt út fyrir aðra sem er með hólfi fyrir lífrænan úrgang. Einnig verður mögulegt að sameina bláa og græna í eina.  

  • Ástæðan fyrir því að fleiri flokkar verða sóttir heim við hús, er löggjöfin um hringrásarhagkerið sem var samþykkt á Alþingi í fyrravor.  

  • Þar er það gert að skyldu að  flokkun og hirða á lífrænum eldhúsúrgangi, pappír og plasti verði heima við húsvegg.  

  • Sveitarfélögin í landinu þurfa að bregðast við því og bæta við ílátum undir þessa flokka, ef þau voru ekki fyrir nú þegar. 

  • Hugmyndir starfshópsins gera ráð fyrir að í boði verði svokallaðar tvískiptar tunnur, svo það þurfi ekki endilega að bæta við tunnum.  Þetta kemur til móts við t.d einbýli, raðbýli, tví og þríbýli -.  

  • Þar sem íbúar hafa bara verið með gráa tunnu, og enga eða eina tunnu undir endurvinnsluefni – þar bætast við 1-2 tunnur.  

  • Minnsta eining til dæmis við einbýlishús verða tvær tvískiptar tunnur. Dæmi: hús með 2 gráar tunnur, 1 bláa tunnu og 1 græna tunnu – þar skiptum við út annarri gráu fyrir tvískiptu. Engin fjölgun 

  • Í fjölbýli – þá koma inn brúnar tunnur og teknar verða gráar tunnur á móti ef magnið leyfir. 

  • Borgin er að fara í greiningu á því hver þörfin er við hvert hús og munum fara í breytingar hverfi fyrir hverfi. Alltaf verður hægt að breyta og við reynum að mæta þörfum íbúa eins og kostur er. 

  • Það er nokkuð gott og þétt kerfi grenndarstöðva um alla borg.  

  • Í desember voru 90 % húsnæðis innan við 500 metra frá grenndarstöð og í þessum húsum búa 83% íbúa. Í janúar bættist við ein grenndarstöð sem er í Sigtúni. 

  • Við munum halda áfram að þétta kerfið þannig við verðum með net minni grenndarstöðva innan við 500 metra frá heimili. Þar verða gámar fyrir málma, gler, textíl og skilagjaldsskyldar umbúðir 

  • Áfram verða stöðvar sem munu verða einnig með gáma undir pappír og plast.  Þar miðum við við 1000 metra frá heimili. Þangað geta íbúar farið með pappír og plast ef tunnan heima dugar ekki.