Ábyrgðaryfirlýsing fyrir flóttafólk
Leigjendur sem fá greidda fjárhagsaðstoð geta sótt um ábyrgðaryfirlýsingu frá Reykjavíkurborg vegna leiguhúsnæðis. Þannig ábyrgist Reykjavíkurborg greiðslu tryggingar fyrir því að leigjandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt húsaleigusamningi sem er þinglýstur eða skráður í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Á ég rétt á ábyrgðaryfirlýsingu?
Flóttafólk sem á rétt á fjárhagsaðstoð og leigir íbúðarhúsnæði getur átt rétt á ábyrgðaryfirlýsingu vegna leiguhúsnæðis.
Hvernig sæki ég um ábyrgðaryfirlýsingu?
Sótt er um ábyrgðaryfirlýsingu á miðstöð og þurfa drög að húsaleigusamningi eða undirritaður leigusamningur að liggja fyrir. Til að ábyrgðaryfirlýsing sé samþykkt þarf líka að skrifa undir samþykkt um ábyrgðaryfirlýsingu. Það getur þú gert um leið og þú sækir um ábyrgðaryfirlýsinguna.
Þegar staðfestur/undirritaður leigusamningur liggur fyrir þarftu að skrá hann í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) ef leigusali hefur ekki gert það eða að láta þinglýsa leigusamningnum, en það er gert hjá sýslumannsembættinu. Þegar leigusamningur hefur verið skráður eða honum þinglýst getur þú sótt ábyrgðaryfirlýsinguna á miðstöð í þínu hverfi.
Í vissum tilfellum er unnt að óska eftir ábyrgðaryfirlýsingu áður en leigusamningur er gerður. Í þeim tilvikum er nauðsynlegt að snúa sér til miðstöðvar.
Gera þarf ábyrgðaryfirlýsingu innan 3 mánaða frá því að umsókn var samþykkt.
Hvað gerist ef umsókn minni er synjað?
Ef umsókn um ábyrgðaryfirlýsingu er hafnað þá getur þú fengið aðstoð til að átta þig á hver ástæðan er og gert tilraun til að fá ákvörðun breytt með því að senda inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs
Þarf ég að endurnýja ábyrgðaryfirlýsingu?
Ábyrgðaryfirlýsing gildir almennt jafn lengi og leigusamningur. Óska þarf eftir að ábyrgðaryfirlýsing sé endurnýjuð ef og þegar leigusamningur er framlengdur.
Hvernig óskar leigusali eftir greiðslu tryggingar?
Leigusali þarf að upplýsa leigutaka um kröfuna. Síðan sendir hann inn beiðni um greiðslu tryggingar á netfangið abyrgdaryfirlysing@reykjavik.is. Í kjölfarið fyllir hann út skriflega yfirlýsingu um vanefndir leigutaka á samningsskyldum. Dæmi um vanefndir getur verið að leigutakinn hafi ekki greitt leigu og/eða valdið skemmdum á eign. Leigusali skal leggja fram staðfestingu á að leigutaki hafi verið upplýstur um kröfuna.
Hvað viltu skoða næst?
- Styrkur til húsbúnaðarkaupa Styrkur til kaupa á almennum húsbúnaði og raftækjum til heimilishalds.
- Sérstakur húsnæðisstuðningur flóttafólks Sérstök fjárhagsaðstoð vegna húsaleigu.
- Fjárhagsaðstoð fyrir flóttafólk Fjárhagslegur stuðningur þegar þörf er á.
- Menning og samfélag Samfélagsfræðsla og íslenskunámskeið, aðgengi að íslenskri menningu.