Flóttafólk
Flóttafólk sem kemur til Íslands er fjölbreyttur hópur sem kann að hafa þörf fyrir margskonar stuðning og upplýsingar m.a. um fjármál, atvinnu- og húsnæðisleit, skólagöngu barna og ungmenna, réttindi og skyldur.
Hér má finna helstu upplýsingar um þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir flóttafólki með lögheimili í borginni.
Hvað þarf ég áður en ég sæki um þjónustu?
- Dvalarleyfisskírteini eða birtingarvottorð útgefið af Útlendingastofnun.
- Vegabréf eða önnur gild persónuskilríki. Sjá nánar Leyfð persónuskilríki (audkenni.is).
- Virka íslenska kennitölu.
- Lögheimili í Reykjavík.
- Bankareikning í íslenskum banka.
- Rafræn skilríki ef kostur er. Flestir bankar og símafyrirtæki veita rafræn skilríki.
- Myndbönd um rafræn skilríki.
Hvaða stuðning get ég sótt um?
Velferðarsvið veitir flóttafólki margvíslegan stuðning, til dæmis fjárhagsaðstoð til framfærslu. Þau sem eiga rétt á fjárhagsaðstoð til framfærslu gætu einnig átt rétt á öðrum stuðningi eins og ábyrgðaryfirlýsingu vegna leigu á húsnæði, styrk til að kaupa á nauðsynlegum húsbúnaði og raftækjum til heimilisins, aðstoð sérfræðinga við að vinna úr sálrænum áföllum og fleira. Í vissum tilfellum veitir velferðarsvið einnig annan stuðning, til dæmis vegna fötlunar eða öldrunar.
Hvar sæki ég um stuðning?
Fyrsta umsókn er lögð fram á miðstöð þess hverfis þar sem þú átt lögheimili. Ef þú ert ekki komin með húsnæði og býrð á gistiheimili eða hóteli þá verður það að vera í Reykjavík.
Í fyrstu heimsókn skoðum við hvort þú átt rétt á:
- Fjárhagsaðstoð
- Ábyrgðaryfirlýsingu vegna leigu íbúðarhúsnæðis
- Annarri aðstoð