Eignaskiptayfirlýsing

Byggingarfulltrúi fer yfir eignaskiptayfirlýsingar og viðauka til að gæta þess að þær séu gerðar í samræmi við lög, reglugerðir og málaskrá byggingarfulltrúa. Eignaskiptayfirlýsingum er skilað rafrænt í gegnum Mínar síður borgarinnar. 

Gjöld fyrir eignaskiptayfirlýsingu eru innheimt samkvæmt gjaldskrá byggingarfulltrúa.

Afgreiðslutími

Byggingarfulltrúi afgreiðir eignaskiptayfirlýsingar eins fljótt og hægt er. Afgreiðslutíminn getur verið mismunandi eftir flækjustigi eignaskiptayfirlýsingar og gæðum gagna sem berast með umsókn.

Hvað er eignaskiptayfirlýsing?

Eignaskiptayfirlýsing er lögboðinn skriflegur gerningur eigenda fjöleignarhúss sem gerður er á grundvelli fyrirmæla fjöleignarhúsalaga og geymir lýsingu á húsinu og lóð þess og mælir fyrir um skiptingu þess í séreignir, sameign allra og sameign sumra og ákvarðar hlutdeild hvers eiganda í sameign og markar með því grundvöll að réttindum og skyldum eigenda innbyrðis og gagnvart einstökum hlutum húss og lóðar.

Þarf að gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið mitt?

Öll fjöleignarhús þurfa að vera með þinglýsta eignaskiptayfirlýsingu. Þú finnur upplýsingar um hvort að gerð hefur verið eignaskiptayfirlýsing fyrir húsið þitt hjá viðkomandi sýslumannsembætti. Ef engin eignaskiptayfirlýsing er til eða hún er ófullnægjandi þarf að halda húsfund um málið og taka ákvörðun um að láta gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið.

Hverjir mega gera eignaskiptayfirlýsingu?

Til að mega gera eignaskiptayfirlýsingu þarf að hafa tilskilin leyfi ráðherra.

Skil á eignaskiptayfirlýsingu

Til að geta skilað inn eignaskiptayfirlýsingu til staðfestingar þarf að hafa eftirfarandi við höndina:

  • Upplýsingar um eiganda/greiðanda gjalda.
  • Eignaskiptayfirlýsingar á PDF-formi.
  • Skráningartöflu á Excel-formi, útgáfu 5.03., sem sýnir útreikninga hlutfallstalna og lýsingu eigna.

Þinglýsing á eignaskiptayfirlýsingu

Til að breytt skráning á fjöleignarhúsi öðlast gildi í þá þarf eftirfarandi að fara til sýslumanns í þinglýsingu:

  • Tvö eintök af eignaskiptayfirlýsingu þar af eitt á löggildan pappír, undirritað og stimplað af byggingarfulltrúa ásamt undirritun eiganda samkvæmt lögum um fjöleignarhús
  • Afsal ef um er að ræða eignartilfærslu, til dæmis ef verið er að færa geymslu eða bílastæði á milli eigna
  • Ef um er að ræða eignatilfærslu úr sameign og bæta við séreign þá þarf afsal eiganda viðkomandi sameignar
  • Ef verið er að gera breytingar á þegar byggðu mannvirki til dæmis viðbyggingar eða ofanábyggingar þá þarf að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingu fyrir lokaúttekt
  • Um leið og sýslumaður þinglýsir eignaskiptayfirlýsingu þá birtist skráning eigna samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu samstundis í fasteignaskrá
""

Fyrsta eignaskiptayfirlýsing

Gátlisti um hvað þarf að koma fram í fyrstu eignaskiptayfirlýsingu.

""

Breyting á eldri eignaskiptayfirlýsingu

Gátlisti um hvað þarf að koma fram í breytingu á eignaskiptayfirlýsingu.

""

Viðauki við þinglýsta eignaskiptayfirlýsingu.

Gátlisti um hvað þarf að koma fram við þinglýsta eignaskiptayfirlýsingu. 

Hafa samband

Haft er samband við byggingarfulltrúa með því að senda tölvupóst á upplysingar@reykjavik.is

 

Setjið „Berist til byggingarfulltrúa“ í efni tölvupóstsins og gætið þess að pósturinn innihaldi heimilisfang og/eða málsnúmer eftir því sem við á.

Þjónustuver borgarinnar getur aðstoðað við almennar fyrirspurnir í síma 411 1111, á netspjalli og í gegnum netfangið upplysingar@reykjavik.is