Fjárhagsaðstoð | Reykjavíkurborg

Fjárhagsaðstoð

Sveitarfélagi er skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar.

Hverjir eiga rétt á þjónustunni?

Rétt á fjárhagsaðstoð eiga þeir sem eiga lögheimili í Reykjavík og hafa tekjur og eignir undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Aðstoðin getur verið í formi láns eða styrks.

Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna, meðal annars vegna heimilisaðstoðar, náms eða óvæntra áfalla, sbr. IV. kafla reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.

Hversu há er fjárhagsaðstoðin?

Fjárhagsaðstoð til einstaklings getur verið allt að 189.875 krónur á mánuði og 284.813 á mánuði til hjóna eða fólks í sambúð en heimilishald hefur áhrif á upphæð fjárhagsaðstoðar, sjá nánar upplýsingar um grunnfjárhæðir í 11. grein reglna um fjárhagsaðstoð. Aðstoðin er óháð barnafjölda þar sem reiknað er með að barnabætur, meðlög og barnalífeyrir mæti kostnaði vegna barna. 

Ferill umsóknar/þjónustu

 • Umsókn og fylgigögnum skal skilað á þjónustumiðstöð í þínu hverfi. Starfsmaður metur umsókn og gögn með tilliti til reglna um fjárhagsaðstoð veitir viðtöl og ráðgjöf eftir þörfum hvers og eins. Samþykkt fjárhagsaðstoð er lögð inn á bankareikning umsækjanda.
   

 • Umsækjandi fær skriflegt svar ef umsókn er synjað. Hafi umsækjandi fengið fjárhagsaðstoð samfellt í sex mánuði er hann boðaður sérstaklega í viðtal. Umsóknareyðublöð má nálgast á þjónustumiðstöðvum. Umsókn gildir að öllu jöfnu frá þeim degi sem beiðni er móttekin hjá þjónustumiðstöð. Dagsetja skal umsókn um fjárhagsaðstoð frá síðustu mánaðamótum og skoða jafnframt tekjur frá mánaðamótum á undan til að athuga hvort þær hafi verið hærri en viðmiðunartekjur. Framfærsla umsóknarmánaðar skerðist um þá fjárhæð. Fjárhagsaðstoð er veitt til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem hafa tekjur á eða undir viðmiðunarmörkum. Heimildir eru til styrkja eða láns vegna sérstakra aðstæðna.
   
 • Umsækjandi og maki/sambúðaraðili skulu einnig kanna til þrautar rétt til annarra greiðslna áður en leitað er eftir fjárhagsaðstoð, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Hafi umsækjandi sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, er heimilt að skerða fjárhagsaðstoðina um helming mánuðinn sem atvinnutilboðinu var hafnað og næsta mánuð á eftir.
   
 • Umsækjandi þarf að tilkynna um breytingar á tekjum og fjölskylduaðstæðum, en slíkar breytingar geta haft áhrif á rétt til fjárhagsaðstoðar. Fjárhagsaðstoð sem veitt er á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga er alltaf endurkræf. Umsókn skal útfyllt á sérstöku umsóknareyðublaði þar sem fram koma upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldugerð, nafn maka og barna á framfæri. Umsækjandi fær upplýsingar á þjónustumiðstöð um hvaða gögnum skal skilað með umsókn.
   
 • Öll fjárhagsaðstoð til framfærslu er skattskyld og af henni er reiknuð staðgreiðsla skatta. Þess vegna er nauðsynlegt að skila inn skattkorti.
   
 • Njóti umsækjandi réttar til atvinnuleysisbóta skal hann nýta sér þann rétt og aðeins eiga rétt á leiðréttingu að viðmiðunarmörkum. Til þess þarf hann að framvísa launaseðli eða greiðsluyfirliti frá atvinnuleysistryggingasjóði.
   
 • Hafi viðkomandi ekki hafið atvinnuleit hjá Vinnumiðlun, án viðhlítandi skýringa, missir hann hlutfallslegan rétt til fjárhagsaðstoðar það tímabil.

Synjun á umsókn

Ákvörðun um synjun á umsókn um fjárhagsaðstoð má skjóta til velferðarráðs Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík. Skal það gert skriflega og eigi síðar en fjórum vikum eftir að viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun. Ákvörðun velferðarráðs má kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt er að koma fyrirspurnum og kvörtunum/ábendingum á framfæri símleiðis eða í móttöku á öllum þjónustumiðstöðvum borgarinnar.

Sótt er um þjónustuna á útprentuðu eyðublaði.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 0 =