Spurt og svarað um fjárhagsaðstoð

Hér finnur þú algengar spurningar og svör um fjárhagsaðstoð.

Ferli umsóknar

Hvað er fjárhagsaðstoð?

Framfærsla til þeirra sem geta ekki aflað sér lífsviðurværis.

Á ég rétt á fjárhagsaðstoð?

Ef þú hefur náð 18 ára aldri, átt lögheimili í Reykjavík og uppfyllir skilyrði um tekjur og eignir.

Rétt á fjárhagsaðstoð eiga þeir sem eiga lögheimili í Reykjavík og hafa tekjur og eignir undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Aðstoðin getur verið í formi láns eða styrks.

Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna, meðal annars vegna heimilisaðstoðar, náms eða óvæntra áfalla, sbr. reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.

Hvernig sæki ég um?

Þú getur sótt um rafrænt með því að smella hér

Ef þú ert ekki með rafræn skilríki getur þú sótt um á miðstöðvum Reykjavíkurborgar.

Hvað gerist þegar ég sæki um?

Umsókn fer í úrvinnslu hjá Rafrænni miðstöð velferðarsviðs eða frekari vinnslu hjá starfsmanni á miðstöð.

Ef þú ert að sækja um fjárhagsaðstoð í fyrsta sinn eða sex mánuðir eru liðnir frá því að þú sóttir síðast um fjárhagsaðstoð þá þarft þú að mæta á miðstöð innan tveggja virkra daga frá því að umsókn var lögð fram til að sanna á þér deili með því að sýna skilríki með mynd.

Hvaða gögnum á ég að skila inn?

Þú færð upplýsingar um skil á gögnum í umsóknarferlinu. Gerð er krafa um að kannaður sé réttur frá öðrum aðilum og staðfestingu á því sé skilað inn.

Hvað ef umsókn er synjað?

Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.

Upphæð fjárhagsaðstoðar

Hversu há er upphæðin?

Fjárhagsaðstoð til einstaklings getur verið allt að 239.895 krónur á mánuði og 383.832 krónur á mánuði til hjóna eða fólks í sambúð en heimilishald hefur áhrif á upphæð fjárhagsaðstoðar, sjá nánar upplýsingar um grunnfjárhæðir í reglum um fjárhagsaðstoð.

Hefur það áhrif á upphæð hversu mörg börn ég á?

Aðstoðin er óháð barnafjölda þar sem reiknað er með að barnabætur, meðlög og barnalífeyrir mæti kostnaði vegna barna. Ef börnin eiga sama lögheimili og þú er líka veittur stuðningur við að greiða kostnað vegna daggæslu, leikskóla, frístundar og matar á þeim tíma sem börnin sækja þá þjónustu. 

Þarf ég að borga skatt af fjárhagsaðstoð?

Öll fjárhagsaðstoð til framfærslu er skattskyld og af henni er reiknuð staðgreiðsla skatta.

Hafa tekjur í mánuðinum á undan áhrif á upphæð fjárhagsaðstoðar?

Tekjur í mánuðinum á undan sem eru hærri en fjárhagsaðstoðin geta haft áhrif á upphæð og rétt til fjárhagsaðstoðar.

Heimilt er að veita undanþágu frá tekjum fyrri mánaðar vegna:

a)    Einstaklinga sem eru að ljúka endurhæfingu og hafa fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun.

b)    Einstaklinga sem fá greidda síðustu greiðslu atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun.

c)    Einstaklinga sem hafa nýlokið starfi í gegnum atvinnuúrræði Virknihúss Reykjavíkurborgar. 

Um er að ræða undanþágu sem nær til greiðslna fyrsta mánuðinn eftir að greiðslum lýkur frá framangreindum aðilum.

Einstaklingar sem taka þátt í atvinnuúrræðum Virknihúss Reykjavíkurborgar, þ.e. Individual Placement Support (IPS) og Atvinnu- og virknimiðlun (AVM), eiga rétt á undanþágu hvað varðar frádrátt tekna við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar, allt að 50.000 krónur á mánuði á meðan viðkomandi er þátttakandi í atvinnuúrræði.
 

Hvað ef ég vil nýta uppsafnaðan persónuafslátt?

Ef þú vilt nýta uppsafnaðan persónuafslátt eða nota hluta af honum þá sendir þú upplýsingar á netfangið rfa@reykjavik.is.

Greiðslur fjárhagsaðstoðar

Hvernig fara greiðslur fram?

Greitt er inn á bankareikning umsækjanda ef réttur er til staðar.

Kostar eitthvað að fá fjárhagsaðstoð?

Nei, þjónustan er kostnaðarlaus.

Lög og reglur

Hvaða lög og reglur gilda um fjárhagsaðstoð?

Skylt er að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr:

Annað

Hvað ef ég er atvinnulaus?

Þá þarftu að kanna rétt til atvinnuleysisbóta og sýna fram á að þú sért í virkri atvinnuleit.

Hvað ef ég er óvinnufær?

Þá þarftu að skila inn læknisvottorði sem staðfestir tímabil óvinnufærni, kanna rétt úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og athuga með rétt til sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands.