Greiðslur vegna barna

Íbúar sem fá greidda fjárhagsaðstoð eiga líka rétt á stuðningi við að greiða kostnað vegna daggæslu, leikskóla, frístundar og matar á þeim tíma sem börnin sækja þá þjónustu. Börnin þurfa að eiga sama lögheimili og foreldri.

Á ég rétt á greiðslum vegna barna?

Ef þú ert með börn á framfæri og þau eiga sama lögheimili og þú áttu rétt á greiðslum vegna barna. Í þeim mánuði sem þú færð fjárhagsaðstoð greiðum við kostnað vegna dvalar barna þinna á leikskóla (í allt að 8 klukkustundir), hjá dagforeldri og á frístundaheimili. Við greiðum líka fyrir skólamáltíðir.

Hvernig sæki ég um?

Ef leikskólinn eða frístundaheimilið tilheyrir Reykjavíkurborg eru upphæðirnar greiddar sjálfkrafa. Athugaðu samt hvort þú hafir sótt alla þá afslætti sem þú hefur rétt á. Annars þarftu ekki að hugsa um þetta frekar.

Ef börn eru hjá dagforeldri eða í einkareknum leikskóla þarftu að skila inn greiðslukvittun. Þú færð frekari upplýsingar um það þegar þú hefur fengið samþykkta fjárhagsaðstoð. Greitt er samkvæmt gjaldskrá Reykjavíkurborgar, en athugaðu að greiðsla vegna dvalar hjá dagforeldri er þó aldrei hærri en sem nemur 8 tíma vistun á leikskóla.

Ég vil vita meira

Ef þig vantar nánari upplýsingar, hafðu þá samband við okkur adstodvegnabarna@reykjavik.is og við svörum þér eins fljótt og auðið er.