Ábyrgðaryfirlýsing

Leigjendur sem fá greidda fjárhagsaðstoð geta sótt um ábyrgðaryfirlýsingu frá Reykjavíkurborg. Hún felur í sér að Reykjavíkurborg ábyrgist greiðslu tryggingar fyrir því að leigjandi standi við skyldur sínar samkvæmt þinglýstum húsaleigusamningi.

Á ég rétt á ábyrgðaryfirlýsingu?

Ef þú leigir íbúðarhúsnæði og hefur fengið greidda fjárhagsaðstoð í þessum og síðasta mánuði getur þú átt rétt á ábyrgðaryfirlýsingu. Leigjendur sem búa við mikla félagslega erfiðleika og húsnæðisvanda geta líka átt rétt á ábyrgðaryfirlýsingu þrátt fyrir að fá ekki greidda fjárhagsaðstoð.

Áður en þú getur sótt um ábyrgðaryfirlýsingu þarft þú að vera búinn að kanna rétt þinn á bankaábyrgð og láni hjá bankanum þínum.

Hvernig sæki ég um ábyrgðaryfirlýsingu?

Þú sækir um ábyrgðaryfirlýsingu á Mínum síðum

Einnig er hægt að fylla út umsókn á PDF-formi og senda á abyrgdaryfirlysing@reykjavik.is eða skila á miðstöð í þínu hverfi.

Drög að húsaleigusamningi eða undirritaður leigusamningur þurfa að liggja fyrir.  Þegar staðfestur/undirritaður leigusamningur liggur fyrir þá þarf að framvísa staðfestingu á því að leigusamningur hafi verið skráður í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða afriti af þinglýstum húsaleigusamningi.

Gera þarf ábyrgðaryfirlýsingu innan 3 mánaða frá því að umsókn var samþykkt.

Hvað gerist ef umsókn minni er synjað?

Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.

Þarf ég að endurnýja ábyrgðaryfirlýsingu?

Ábyrgðaryfirlýsing gildir almennt jafn lengi og leigusamningur. Endurnýja þarf ábyrgðaryfirlýsingu þegar leigusamningur rennur út.

Hvernig óskar leigusali eftir greiðslu tryggingar?

Leigusali sendir inn beiðni um greiðslu tryggingar á netfangið abyrgdaryfirlysing@reykjavik.is. Í kjölfarið fyllir hann út skriflega yfirlýsingu um vanefndir leigutaka á samningsskyldum. Leigusali skal leggja fram staðfestingu á að leigutaki hafi verið upplýstur um kröfuna.