Skógrækt og landbúnaður

Efling skógræktar, landgræðslu, endurheimt og verndun votlendis eru nokkrar af árangursríkustu leiðunum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Kynja- og jafnréttissjónarmið

Aðeins brot af fjárveitingu sem rennur til landshlutaverkefna í skógrækt, rennur beint til atvinnustarfsemi kvenna. Á hverju ári úthlutar Landgræðslan fjármunum úr Landbótasjóði til ákveðinna verkefna hér á landi, til dæmis fyrir sjálfbæra landnýtingu, endurheimt gróðurs og kolefnisbindingu gróðurs og jarðvegs. Á árunum 2011-2020 fengu konur aðeins 4 m.kr af þeim 510 m.kr sem úthlutað var. Stofnanir og félög fengur rúmar 411 m.kr og karlar 95 m.kr. Slíkt hið sama má sjá hjá öðrum samvinnuverkefnum Landgræðslunnar- karlar og stofnanir fá mikinn meirihluta veittra styrkja.

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem fá beingreiðslur vegna hefðbundinna bústarfa eru karlmenn þar sem þeir eru oftar skráðir fyrir eignum ásamt bein og- stuðningsgreiðslum en konur. Starfsframlag kvenna í landbúnaði er því oft hvergi skráð í opinberum gögnum. Þess vegna eru karlar til dæmis frekar skráðir sem rétthafar skógræktarsamninga þar sem þeir eru þegar skráðir fyrir greiðslum. Það eru því ákveðnar kerfislægar og lagalegar hindranir sem hamla atvinnuþátttöku kvenna hvað viðkemur ræktun nytjaskóga. Unnið hefur verið að því að gera hlut kvenna sýnilegri með því að gefa hjónum og sambýlisfólki tækifæri til að fá greiðslur samkvæmt samningum skipt jafnt milli aðila. Áhugavert verður að sjá hvort slíkar aðgerðir beri nógu mikinn árangur til að rétta af stöðu kvenna í landbúnaði og skógrækt.

Almennt hefur ekki farið fram heildstæð greining og kortlagning gagna í náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu hér á landi sem tekur mið af kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Það þarf því að ráðast í greiningar og rannsóknir á þessu sviði. Aukin binding kolefnis með breyttri landnotkun og skógrækt mun auka þörf fyrir vinnuafl í greininni og upplýsingar benda til þess að skógrækt og landgræðsla sé karllægur geiri, og því líklegra til að gagnast körlum en fólki af öðru kyni, nema gripið sé til sértækra aðgerða. Einnig væri áhugavert að veita lífrænum búskap meiri athygli hér á landi þar sem erlendar rannsóknir benda til þess að konur séu líklegri til að stunda lífrænan búskap en karlar. Einstaklingar í slíkum búskap virðast vera meðvitaðri um umhverfis- og loftslagsmál, er yngra og með hærra menntunarstig en fólk í venjulegum búskap. Þá væri áhugavert í þessu samhengi að athuga hvort konur séu líklegri en karlar til að vera í eða vilja vera í grænmetisbúskap þar sem þær eru líklegri til að vera grænkerar.