Nýsköpun

Stjórnvöld leggja mikið upp úr því að móta og efla nýsköpunarstefnu hér á landi til að bregðast við áskorunum vegna loftslagsbreytinga. Mikilvægt er að þessi þróun í nýsköpun taki mið af þörfum og hæfileikasviðum mismunandi hópa fólks þar sem nýsköpun hefur hingað til verið karllægur geiri sem tekur frekar þarfir og sérsvið karla til hliðsjónar.

Kynja- og jafnréttissjónarmið

Það er ákveðin kynjaslagsíða ríkjandi í hugmyndum og viðmiðum um hvað telst vera nýsköpun og eiga konur oft erfitt með að brjótast inn í umhverfi sem hefur verið þróað og viðhaldið af körlum. Karlar eru til dæmis í miklum meirihluta þeirra sem fá öndvegisstyrki Rannsóknasjóðs sem styrkir vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi. 

Þá verður mikil áhersla lögð á nýsköpun og nýja atvinnustarfsemi í kringum orkuskipti hér á landi til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Orkumál og nýsköpun í orkumálum er dæmi um karllæga atvinnugrein ásamt því að karlar sækja mikið oftar um og fá nýsköpunarstyrki í orkumálum hér á landi. Frá árunum 2017-2019 voru konur einungis 5% styrkhafa úr Orkusjóði og fengu 1% af heildarfjárhæð. Árið 2020 sóttu síðan engar konur um styrki í Orkusjóð. Á sama tíma voru 67% styrkþega Hönnunarsjóðs konur og fengu þær 75% af úthlutunarfjárhæð. 

Ef ekki verður búin til góð og yfirgripsmikil kynja- og jafnréttisstefna þegar kemur að nýsköpun hér á landi munu konur og aðrir minnihlutahópar missa af slíkum tækifærum þar sem áhugasvið karla og nýsköpunaráherslur vegna umhverfis- og loftslagsmála hafa hingað til haldist í hendur.

Í loftslagssjóði eru styrkir veittir til nýsköpunarverkefna annars vegar og styrkir til kynningar- og fræðsluverkefna hins vegar. Konur eru oftast í meirihluta þeirra sem sækja um styrki til kynningar- og fræðsluverkefna sem oft gengur út á hvernig best er að endurnýta og koma í veg fyrir matarsóun á meðan karlar sækja um styrki til nýsköpunarverkefna sem lúta að tæknilegum lausnum. 

Þá hefur formaður Loftslagssjóðs gagnrýnt íslensk stjórnvöld fyrir að leggja ekki meira fjármagn í eina sjóðinn á vegum ríkisins sem hefur beinlínis með loftslagsmál að gera. Sjóðurinn hefur verið að fá 100 milljónir króna á ári sem dugar lítið til að styrkja góð nýsköpunarverkefni í þágu umhverfis- og loftslagsmála og fer gegn stefnu stjórnvalda að auka nýsköpun í þeim málum.

Fyrir utan styrkveitingar eru karlar líklegri til að vera í frumkvöðlastarfsemi en konur og helstu ástæður fyrir því er að slík starfsemi einkennist af áhættu, samkeppni og einyrkjaumhverfi. Rannsóknir bæði hérlendis og erlendis benda til að konur séu líklegri til að setja þessi atriði fyrir sig en karlar. Þá segja konur að þarfir fjölskyldunnar haldi aftur af þeim þegar kemur að rekstri eigin fyrirtækja. 

Þá skortir konur oft fyrirmyndir til að sækja um eða leggja fyrir sig frumkvöðlastörf ásamt því að þær þurfa oftar að verja umsóknir sínar á meðan karlar fá oftar að spila sóknarleik og ræða gróðatækifæri.

Þátttaka kvenna í nýsköpun

Lítið virðist vera um samvinnu Norðurlandanna hvað varðar þátttöku kvenna í nýsköpun þó hvert land fyrir sig bjóði upp á ýmsar úrlausnir og hvata fyrir konur. Hægt væri að efla konur í nýsköpun á Norðurlöndunum ef unnið væri að betra tengslaneti og samnorrænum tækifærum. Einnig heldur Evrópusambandið utan um þó nokkur tengslanet og samtök sem leggja áherslu á að aðstoða, bæta aðgengi og styrkja konur í nýsköpun sem vert væri að kynna.

Aðgengi að fjármagni

Aðgangur að styrkjum og fjármagni er ein helsta hindrun kvenna til nýsköpunar. Sértækar aðgerðir líkt og nýsköpunarsjóðir sem einungis konur geta sótt í og aukið fjármagn til verkefna aðeins leidd af konum gætu aukið þátttöku kvenna í nýsköpun. Þá er Evrópusambandið farið að krefja umsækjendur um kynja- og jafnréttisáætlanir með styrkjaumsóknum sínum í nýsköpunarsjóði sambandsins.