Dæmisaga um framkvæmdir

Mikilvægt að hafa fjölbreytta atvinnuuppbyggingu

Jarðgangaframkvæmdir hér á landi hafa sýnt að á framkvæmdatíma fjölgar körlum og framkvæmdirnar ná oft að stoppa fólksflutninga úr dreifbýlum og jafnvel fjölga íbúum í skamman tíma. Hins vegar fer fólki aftur að fækka að einhverjum árum liðnum ef ekki kemur til fjölbreytt atvinnuuppbygging.

Fáskrúðsfjarðargöng

Fáskrúðsfjarðargöng og uppbygging álversins á Reyðarfirði er dæmi um framkvæmdir þar sem samgöngubætur og atvinnuuppbygging hélst í hendur og fjölgaði íbúum. Hins vegar skekktust kynjahlutföllin verulega miðað við það sem var fyrir framkvæmdir og því ljóst að uppbyggingin og atvinnutækifæri gögnuðust körlum frekar en konum.

Héðinsfjarðarganga á Ólafsfirði

Sömu þróun mátti sjá með tilkomu Héðinsfjarðarganga á Ólafsfirði á meðan Siglufirði tókst betur til þar sem uppbygging fjölbreyttra starfa í tengslum við ferðaþjónustu virðist hafa skipt máli eftir byggingu ganganna. 

Rannsókn um samfélagsáhrif Vaðlaheiðarganga

Hins vegar sýndi rannsókn um samfélagsáhrif Vaðlaheiðarganga frá árinu 2014 eða rúmlega fjórum árum fyrir opnun ganganna að stór meirihluti íbúa bæði austan og vestan Vaðlaheiðar myndi að öllum líkindum ekki flytjast burt og munur kynjanna var sáralítill. Þó var almenn óánægja með fjölbreytni starfa, sérstaklega hjá konum austan Vaðlaheiðar. Þá hafa ekki verið birt gögn um afstöðu fólks eftir opnun ganganna eða upplýsingar um fólksflutninga á framkvæmdatíma.

Áhugavert væri að rannsaka gangaframkvæmdir á Íslandi betur þar sem um er að ræða stórar framkvæmdir og mikið fjármagn. Þá er ætlun þeirra að tengja og auðvelda aðgengi fólks milli byggðakjarna en lítið er vitað um raunveruleg kynja- og jafnréttisáhrif þeirra.