Bílaeign- og notkun

Erlendar rannsóknir benda til þess að karlar séu líklegri til að eiga og nota bíla en konur og er ein ástæða þess að karlar eru oft í betri stöðu en konur til að kaupa og eiga bíla vegna sterkari fjárhagslegrar stöðu.

Bílaeign

Íslenskar tölur benda til að bílaeign karla hérlendis sé talsvert meiri en bílaeign kvenna þar sem konur voru einungis skráðar fyrir 37% fólksbifreiða árið 2017. Þessar tölur haldast stöðugar því samkvæmt stöðuskýrslu íslenskra stjórnvalda frá árinu 2022 eru 64% karla og 36% kvenna skráðir fyrir eignarhaldi fólksbifreiða á Íslandi. Áhugavert er skoða kynjagreindar upplýsingar um fjölda einstæðra bifreiðaeiganda á Íslandi fyrir sama ár því rúmlega 29.000 einstæðar konur voru skráðar fyrir bíl á meðan einstæðir karlar voru skráðir fyrir 62.000 bifreiðum. Hins vegar var heildarfjöldi einstæðra kvenna meiri sem þýðir að rúmlega 5.200 fleiri einstæðir karlar voru skráðir fyrir bíl en voru skráðir á öllu landinu. Þetta bendir til þess að stór hópur karla séu skráðir fyrir fleiri en einni bifreið. Rúmlega 29.000 einstæðar konur (af 57.932) voru því ekki skráðar fyrir neinni bifreið árið 2017.

Karlar hérlendis eru einnig líklegri til að vera skráðir eigendur þyngri og stærri ökutækja en konur. Stærri og þyngri ökutæki losa meira af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið og menga því meira. Við könnun á bifreiðaskrá árið 2018 kom í ljós að bílar í eigu íslenskra kvenna voru almennt sparneytnari ásamt því að 43% vistvænna bíla voru skráðir í eigu kvenna. Þá losa bílar í eigu kvenna að meðaltali 11% minna af gróðurhúsalofttegundum en bifreiðar karla. Tvær helstu ástæður fyrir því gæti verið meiri umhverfisvitund og minni kaupgeta kvenna vegna lægri launa. Þegar kemur að því að velja bíla hugsa konur almennt meira um sparneytni, áhrif þeirra á umhverfið og öryggi á meðan karlar leggja meiri áherslu á kraft, útlit og drægni.

Vistvænir bílar

Þrátt fyrir að karlar eigi frekar bíl/a en konur og kaupgeta þeirra sé oft meiri þá virðast konur vera hlutfallslega líklegri til að vilja eiga rafmagnsbíl. Það gæti útskýrst af auknum vilja kvenna til að breyta hegðun sinni í þágu umhverfisins ásamt því að vera reiðubúnari að eyða meiru í slíkt en karlar.

Samkvæmt umhverfiskönnun Gallup árið 2022 voru konur á Íslandi aðeins líklegri en karlar til að vilja kaupa rafmagnsbíl (48% kvenna á móti 44% karla) og þær nefndu að í 53% tilvika væri helsta ástæða þeirra til að skipta bílaflota út vegna umhverfissjónarmiða á meðan það var helsta ástæða 33% karla í könnuninni. Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu frá árinu 2020 voru umráðamenn rafbíla og tengiltvinnbíla 58% karlar og 42% konur. Þetta er áhugavert vegna þess að konur eru skráðar fyrir færri bílum en karlar ásamt því að ein ástæða þess að konur eigi minni og sparneytnari bíla sé vegna minni kaupgetu en karlar. Hingað til hafa vistvænir bílar verið dýrari en bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Það er því spurning hvort konur séu almennt tilbúnari til að eyða meiru í umhverfisvæna bíla eða hvort slíkar bifreiðar séu að verða aðgengilegri en áður vegna skattaívilnana stjórnvalda, til dæmis. Þetta væri vert að athuga.

Þó svo að skattaívilnanir stjórnvalda líkt og skattalækkun á kaupum vistvænna ökutækja lækki heildarverð eru allar líkur á því að lágtekjufólk og jaðarhópar geti ekki nýtt sér þessar ívilnanir þar sem kaupmátturinn til að kaupa eða skipta um bifreið er ekki til staðar. Það má því athuga hvort fé úr sameiginlegum sjóðum sé best varið til að niðurgreiða samgöngur fyrir þá sem hafa hvað mest efni á að skipta um eða kaupa sér dýrari bíla- heimili með hærri tekjur og fyrirtæki. Þá munu kolefnisgjöld sem sett eru á bifreiðar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti koma sér verst fyrir lágtekjuhópa þar sem þeir hópar eru líklegri til að eiga eldri bíla sem menga meira. Fjárfestingar í almenningssamgöngum eru almennt skemmra komnar en skattaívilnanir fyrir vistvæna bíla. Lágtekjuhópar standa því verr að vígi en aðrir þegar kemur að aðgengi samgangna á viðráðanlegu verði.