Notkun almenningssamgangna
Margar erlendar rannsóknir benda til þess að konur séu líklegri en karlar til að nýta sér almenningssamgöngur á meðan karlar nota frekar einkabíl. Á Íslandi er kynjahlutfall þeirra sem nota almenningssamgöngur (Strætó) hins vegar jafnara en gengur og gerist erlendis.
Kynja- og jafnréttissjónarmið
Eini greinanlegi munurinn á hegðun kynjanna í Strætó á Íslandi er að konur virðast aðeins oftar vera með áskriftarkort (55% á móti 45% karla) á meðan karlar eru líklegri til að kaupa staka miða. Þetta gæti til dæmis verið vegna mismunandi ferðamynsturs karla og kvenna (konur ferðast oftar en styttra á meðan karlar fara færri en lengri ferðir). Það gæti því verið fjárhagslegur ávinningur fyrir konur að vera með áskriftarkort. Þá er aðgengi og öryggi fatlaðs fólks í Strætó ábótavant en slíkt er mikilvægur þáttur í ferðavali og upplifun margs fatlaðs fólk.
Einnig bendir rannsókn Birtu Óskar Tómasdóttur (2021) til þess til að erlendir ríkisborgarar taki Strætó mun meira en innlendir þar sem kostnaður virðist hafa meira vægi í vali á samgöngum hjá innflytjendum en innlendum.
Samkvæmt ferðavenjukönnun Gallup 2019 svöruðu flestir þátttakendur að helstu ástæður þeirra fyrir að nota einkabíl í stað Strætó væri vegna þess að það kysi einfaldlega annan ferðamáta, fólki fyndist Strætó of tímafrekur og leiðakerfi væri ófullnægjandi.
Umhverfiskönnun Gallup 2022 sýnir síðan að einungis 5% svarenda taki að jafnaði strætó í og úr vinnu eða skóla, óháð árstíðum og landshlutum. Sama könnun bendir á að svarendur séu líklegri til að ganga í vinnu eða skóla en taka Strætó að vetri til. Þetta á við alla landshluta nema nágrannasveitarfélög Reykjavíkur.
Konur eru líklegri en karlar til að sinna ólaunaðri vinnu fyrir heimilin líkt og að fara með og sækja börn í leikskóla/skóla, kaupa inn fyrir heimilið og sjá um umönnun aldraðra foreldra eða annarra fjölskyldumeðlima. Í þessu samhengi er vert að nefna að samkvæmt Evrópsku vinnumarkaðsrannsókninni 2018 er umönnunarbyrði einstaklinga einna mest hér á landi og rúmlega 10% Íslendinga sinna veiku, fötluðu eða öldruðu skyldmenni reglulega og eru konur aðeins líklegri en karlar til þess.
Af Norðurlöndunum er þessi byrði langmest á Íslandi. Næst kemur Finnland með 3,3%. Það er því hægt að draga þá ályktun að ef einkabíllinn er fljótasta og greiðasta leiðin til að sinna öllum þessum verkum ásamt því að fara í og úr vinnu, velji einstaklingar frekar að ferðast með bíl en með almenningssamgöngum, hjóla eða ganga. Þá eru samgönguframkvæmdir, sérstaklega þær sem stytta ferðatíma, efla vinnusóknarsvæði og auka öryggi líklegar til að gagnast konum í meira mæli vegna ferðavenja þeirra.
Konur leggja einnig mikið upp úr öryggi og aðskildir ferðamátar líkt og sérrými fyrir gangandi og hjólandi gæti fjölgað konum sem velja aðra ferðamáta, sérstaklega ef vinna þeirra er í nærumhverfi. Þetta á einnig við um aðra samfélagshópa, líkt og börn og fatlað fólk. Þá er erfið vetrartíð með hálku og snjó á göngu- og hjólastígum meira hamlandi fyrir þessa hópa.
Aðskildir ferðamátar og góð vetrarþjónusta á göngu- og hjólastígum mun því að öllum líkindum styrkja þessa hópa til að nota fjölbreytta ferðamáta allt árið.
Öryggistilfinning og almenningssamgöngur
Könnun í bænum Kalmar í Svíþjóð sýndi að konur forðuðust að taka strætó á kvöldin vegna þess að þeim fannst öryggi þeirra ógnað þegar kom að því að ganga á leiðarenda frá stoppistöð. Bærinn þróaði svokallaðar „ljós stoppistöðvar“ sem gerði farþegum kleift að biðja strætóbílstjóra að stoppa á stöðum inn á milli tilgreindra stoppistöðva. Bílstjórar opnuðu síðan aðeins framdyr vagnsins og fylgdust með því að enginn farþegi fylgdi á eftir. Þetta gerði ferðir með kvöldstrætóum öruggari og meira aðlaðandi fyrir konur.
Vetrarþjónusta
Við greiningu á kynjaáhrifum snjómoksturs í Karlskoga í Svíþjóð kom í ljós að moksturinn hafði ólík áhrif á kynin. Rutt var fyrr að stöðum þar sem hlutfallslega fleiri karlar störfuðu en konur. Vert er að hafa í huga að hinir svokölluðu kvennavinnustaðir eru til að mynda skólar, leikskólar og öldrunarheimili, svæði sem þarf að ryðja að á tilskildum tíma. Vegir sem ætlaðir voru bílum og stærri vélhjólum voru hreinsaðir fyrst og göngu- og hjólastígar voru síðastir á forgangslistanum. Þegar tölur voru skoðaðar kom í ljós að karlar nýttu frekar vegina, en konur frekar gangstíga og almenningssamgöngur. Í ljósi þess að erfiðara er að ganga og hjóla í snjó en að keyra bíl hefur forgangsröðinni verið breytt. Með því að breyta forgangsröðinni varð borgin aðgengilegri fyrir alla, ekki síst börn, unglinga og fólk sem notast við hjólastóla eða göngugrindur. Þetta nýja skipulag fellur betur að þörfum flestra og þeim samgöngutækjum sem almenningur notast við án aukakostnaðar fyrir borgina. Þá minnkaði álag á bráðamóttöku í Karlskoga á hálkudögum vegna færri hálkuslysa.