Mismunandi ferðamynstur kynjanna

Þegar horft er til þeirra þátta sem Reykjavík getur haft mest áhrif á í umhverfis- og loftslagsmálum sést að losun frá samgöngum er langstærsta hlutfall samfélagslegrar losunar. Ef eingöngu er horft til einfalds kolefnisspors eru samgöngur 82% allrar losunar og ljóst er að samdráttur í losun í Reykjavík þarf að stórum hluta að koma frá vegasamgöngum.

Til þess að draga úr losun ætlar Reykjavíkurborg leggja áherslu á að efla þjónustu og aðgang að útivistarsvæðum, samgöngum í göngufæri við heimili og vinnustaði og byggja upp innviði fyrir almenningssamgöngur. Þá hafa veigamestu aðgerðir íslenskra stjórnvalda hingað til snúið að losun frá vegasamgöngum. Þar á meðal er skattlagning jarðefnaeldsneytis á bensín- og dísilbíla á meðan ívilnanir eru veittar fyrir vistvænni farartæki og rafhleðslustöðvar.

Hingað til hafa hefðbundnar samgönguáætlanir, skipulag og umferðarlíkön almennt ekki tekið tillit til mismunandi ferðamynsturs kynjanna. Bæði erlendar og innlendar rannsóknir sýna að karlar ferðast almennt lengri en færri ferðir yfir daginn á meðan konur fara í margar stuttar ferðir sem tengjast umönnun og heimilisstörfum.

Kynjaáhrif á forgangsröðun samgönguverkefna á Íslandi er lítið þekkt og þar af leiðandi erfitt að meta hvort að við forgangsröðun verkefna og áætlanagerð sé fyrst og fremst tekið mið af ferðamynstrum og þörfum karla. Á sama tíma eru nánast allar ákvarðanir um samgönguverkefni teknar af körlum.

Íslenskar og erlendar rannsóknir benda til þess að konur séu líklegri en karlar til að vinna nálægt heimilum sínum. Þetta er vegna þess að vinnumarkaðurinn er kynskiptur og vinna karlar oftar en konur í störfum sem eru staðsett inn í borgum eða miðsvæðis. Konur eru hins vegar oftar í störfum sem er frekar dreift í úthverfin. 

Konur eru líklegri til að vilja forgangsraða samgöngubótum milli þéttbýliskjarna innan vinnusóknarsvæða en karlar vilja forgangsraða stærri verkefnum milli vinnusóknarsvæða. Þá vill fólk frekar eyða meiri tíma með fjölskyldum sínum og í vinnu en á leið í og úr vinnu. Vegna þess er hraðasti og greiðasti umferðarmátinn oftast valinn, bæði hjá konum og körlum.