Miðborgarleikskóli og fjölskyldumiðstöð
Gert er ráð fyrir að nýr Miðborgarleikskólinn verði fullbúinn árið 2023 og muni rúma 116 börn á aldrinum eins árs til sex ára. Einnig verður starfrækt fjölskyldumiðstöð í byggingunni. Leiksvæðið verður opið almenningi þegar leikskólastarfið er ekki í gangi.
Brúum bilið
Framkvæmdin er hluti af „Brúum bilið“, verkefnum borgarinnar sem ætlað er að tryggja börnum frá 12 mánaða aldri aðgang að leikskóla.
Framkvæmdin styður við stefnu Reykjavíkurborgar um vistvæn mannvirki.
Endurnýjun verður á svæðinu og það verður aðlaðandi borgarrými.
Leikskóli miðborgar er staðsettur á þremur stöðum í dag: Lindaborg, Njálsborg og Barónsborg.
Íbúafundur 28. apríl - gögn
Opinn staðbundinn kynningarfundur um Miðborgarleikskólann og miðstöð barna var haldinn 28. apríl kl. 17 í Borgartúni 14 á sjöundu hæð. Á fundinum var sagt frá fyrirhugaðri starfsemi, hönnun byggingar og lóðar, vottun framkvæmda og áætluðu framkvæmdatímabili.
Dagskrá fundar og kynningar:
Verkefnið undirbúningur:
Anna María Benediktsdóttir, arkitekt/verkefnisstjóri/ Umhverfis- og skipulagssvið
Miðborgarleikskóli – starfsemi/hugmyndafræði
Kristín Einarsdóttir, leikskólastjóri- Miðborgarleikskóla/ Ásdís Olga Sigurðardóttir, leiksólaráðgjafi SFS
Marcos Zotes – arkitekt, Basalt arkitektar
Svava Þorleifsdóttir – landslagsarkitekt, Landslag
Þorvarður G. Hjaltason, Rafmagns- og rekstrariðnfræðingur - Liska – ráðgjöf
Gyða Mjöll Ingólfsdóttir verkefnastjóri umhverfismála
Aðstöðusköpun – framkvæmdatímabil -VSÓ verkfræðiráðgjöf
Andrés Þór Halldórsson, verkfræðingur/ Guðjón Örn Björnsson, verkfræðingur
Fjölskyldumiðstöð og opinn leikskóli
Meginmarkmið fjölskyldumiðstöðvarinnar er að skapa góða aðstöðu fyrir foreldra ungra barna til þess að læra af öðrum foreldrum og fagfólki um ýmislegt sem tengist þroska barna þeirra eins og umönnun, tilfinningatengsl, jákvætt uppeldi, hreyfingu og málþroska um leið og boðið er upp á sértæk úrræði og snemmtæka íhlutun fyrir fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Gert er ráð fyrir því að foreldrar séu með börnum sínum og beri ábyrgð á þeim þann tíma sem þau eru í heimsókn.
Fjölskyldumiðstöðin verður starfrækt alla virka daga frá kl. 8-16, einnig verður hún starfrækt utan hefðbundins opnunartíma leikskólans, það er á kvöldin og um helgar fyrir þá hópa sem vilja og geta nýtt sér húsnæðið fyrir t.d. námskeið og fundi. Ef breyting verður á starfsemi fjölskyldumiðstöðvar á að vera hægt að breyta rými hennar svo hefðbundin leikskólastarfsemi geti farið þar fram.
- Skapa góða aðstöðu fyrir foreldra ungra barna til þess að læra af öðrum foreldrum og fagfólki um ýmislegt sem tengist þroska barna þeirra eins og umönnun, tilfinningatengsl, jákvætt uppeldi, hreyfingu og málþroska um leið og boðið er upp á sértæk úrræði og snemmtæka íhlutun fyrir fjölskyldur í viðkvæmri stöðu.
- Skapa rými til að foreldrar séu með börnum sínum og beri ábyrgð á þeim þann tíma sem þau eru í heimsókn.
- Geta orðið hluti af leikskólanum, ef breyting verður á starfsemi Miðborgar.
- Hafa möguleika á að afmarka fjölskyldumiðstöðina frá leikskólarýminu með aðgangsstýringu.
- Skapa aðstöðu fyrir ýmsa sérfræðinga sem tengjast fjölskyldumiðstöðinni eins og hjúkrunarfræðinga eða fulltrúa frá þjónustumiðstöð hverfisins.
Skýringarmyndir
Það sem máli skiptir
Eftirtalin atriði vógu þungt við var dómnefndar á verðlaunatillögum
- Ný sýn: Væntingar eru til þess að hönnun skólans og fjölskyldumiðstöðvarinnar marki nýja sýn í hönnun hvað varðar vellíðan, virkni og heilbrigði þeirra sem þar eru við leik og störf.
- Byggt fyrir börnin: Skólinn og umhverfi hans sé hannaður með börnin að leiðarljósi og uppfylli sem best væntingar til leiks, náms, velferðar og aukins þroska barna. Börn eiga að geta farið á svæði sem veitir þeim öryggistilfinningu og ró. Umhverfið inni og úti á að bjóða upp á áskorun í hreyfingu.
- Sveigjanleiki og fjölbreytni: Húsnæðið þarf að bjóða upp á sveigjanleika í rýmum sem styður við frelsi og val barna til athafna. Í leikskólanum á að vera hægt að leika og starfa í stórum jafnt og litlum hópum.
- Byggingarlist: Tillagan feli í sér vandaða byggingarlist sem komi til móts við umhverfisþætti án þess þó að fórna aðgengi eða öryggi notenda. Heildaryfirbragð sé hlýlegt og skipulag til fyrirmyndar. Aðlögun tillögunnar að umhverfi og staðaranda verði markviss.
- Útisvæðið, umhverfi, lóð og leiksvæði: Leikskólalóðin á að vera félagslegur og námslegur vettvangur og þarf að geta gegnt hlutverki hverfisvallar utan starfstíma leikskólans. Samspil útisvæða og byggingar sé gott og taki mið af umhverfisþáttum.
- Sjálfbærni: Umhverfissjónarmið og vistvæn hönnun verði höfð að leiðarljósi við hönnun og efnisval.
- Kostnaðaraðgát: Viðhöfð verði kostnaðaraðgát við gerð tillögunnar, jafnt í rýmisnýtingu, efnisvali, byggingaraðferðum og rekstri byggingarinnar.
Upplýsingar
Framkvæmdin var samþykkt í borgarráði 31. mars og fer hún í útboð í apríl. Áætlað er að framkvæmdir geti hafist í júní 2022 og að uppbyggingu skólans og frágangi lóðar ljúki fyrir árslok 2023.
Í verkefninu felst bygging nýs 1.465 m² leikskóla og fjölskyldumiðstöðvar á þrem hæðum auk kjallara. Fyrstu tvær hæðir eru fyrir almennt leikskólastarf en á þriðju hæð er fjölskyldumiðstöð/opinn leikskóli.
Námssvæði barnanna er á sameiginlegu svæði. Heimastofur og matsalur opnast inn á sameiginlega svæðið og er þaðan góð tenging við útisvæði. Hönnun er samkvæmt hugmyndafræði algildrar hönnunar þ.e. hönnun fyrir alla/aðgengi fyrir alla.
Byggingin mun uppfylla alþjóðlega umhverfisvottun, BREEAM Excellent. Í henni verða 116 hefðbundin leikskólapláss auk 20 plássa í opnum leikskóla/fjölskyldumiðstöð þar sem gert er ráð fyrir að foreldrar séu með börnum sínum og beri ábyrgð á þeim þann tíma sem þau eru í heimsókn.
Fjölskyldumiðstöðin verður starfrækt alla virka daga frá 8-16 einnig verður hún starfrækt utan hefðbundins opnunartíma leikskólans þ.e. á kvöldin og um helgar fyrir þá hópa sem vilja og geta nýtt sér húsnæðið fyrir t.d. námskeið og fundi. Ef breyting verður á starfsemi fjölskyldumiðstöðvar á að vera hægt að breyta rými hennar svo hefðbundin leikskólastarfsemi geti farið þar fram.
Leiksvæði barna er á lóðinni umhverfis skólann og á þaki/þökum byggingarinnar. Svæðið verður opið almenningi utan opnunartíma skólans. Ekki verður þó aðgengi að þakgörðum.
- Gæsluvallarhús sem fyrir er á lóðinni verður nýtt sem listasmiðja fyrir leikskólann.
- Framkvæmdin felur í sér sprengivinnu og uppgröft á lóð. Reynt verður að halda raski og ónæði fyrir íbúa í lágmarki.
- Gert er ráð fyrir að opið verði fyrir umferð meðan á framkvæmdum stendur.
Einnig er ráðgert að aðlaga svæðið utan lóðar og tryggja sem best aðgengi að starfseminni.
BREEAM umhverfisvottun
BREEAM umhverfisvottun tryggir að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkja sé hugað að öllum þáttum sjálfbærni. Það þýðir að frá upphafi er hugað að líftímakostnaði byggingarinnar, heilsu- og vellíðan notenda hennar á sama tíma og unnið er að því að draga úr umhverfisáhrifum hennar. Í BREEAM vottuninni fyrir Miðborgarleikskóla og fjölskyldumiðstöð er lagt mat á fjölmarga mismunandi þætti, svo sem:
- Umhverfis- og gæðastjórnun við undirbúning og hönnun sem og á framkvæmdar- og rekstrartíma.
- Heilsu og vellíðan notenda þar sem áhersla er lögð á birtu og lýsingu, varmavist, loftgæði og hljóðvist.
- Orkunýtni byggingarinnar sem og búnaðar sem í byggingunni er.
- Samþætt nýting vistferilsgreininga (LCA) og lífsferilskostnaðargreininga (LCC) til ákvarðanatöku er varðar orkunýtni og kolefnisspor.
- Góð aðstaða fyrir hjólandi og gangandi.
- Umhverfisvænt og heilnæmt efnisval.
- Aðlögun að loftslagsbreytingum.
- Úrgangsstjórnun á byggingar- og rekstrartíma.
- Lágmörkun ýmis konar mengunar t.d. er varðar kælimiðla/frostlög, regnvatn á lóð og ljósmengun.