Loftslagssamningur
Reykjavíkurborg hefur verið valin til þátttöku í Evrópusamstarfi ásamt ríflega hundrað öðrum borgum um að verða kolefnishlutlaus árið 2030. Hluti af þessu verkefni er að gera loftslagssamning við hina ýmsu aðila í íslensku samfélagi um það hvernig við náum þessu nýja markmiði saman.
Samstarfsverkefni
Loftslagssamningur Reykjavíkur er samstarfsverkefni borgarinnar við alla geira samfélagsins um hvaða skref þarf að taka til að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2030. Í þessum hópi er íslenska ríkið, önnur sveitafélög, háskólasamfélagið, einkafyrirtæki, frjáls félagasamtök og líka borgarbúar. Það þýðir að við þurfum öll að leggjast á eitt til að koma auga á hindranir, forgangsraða og hraða ferlinu í átt að kolefnishlutleysi.
Samgöngur stærsti þátturinn
Til að ná markmiðinu þarf að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda það kolefni sem ekki næst að draga úr. Stærsti valdur gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík eru vegasamgöngur og þá einna helst í gegnum notkun einkabílsins. Því þarf að finna leiðir til þess að fækka ferðum með einkabílnum.
Nýsköpun og rannsóknir
Hugmyndin er að Evrópuborgirnar 112 sem taka þátt í verkefninu verði miðstöðvar nýsköpunar og rannsókna svo aðrar borgir Evrópu geti lært af reynslunni til að verða kolefnihlutlausar árið 2050. Ísland skrifaði undir Parísarsáttmálann árið 2015 en hann gengur út á það að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C. Til þess þarf heimurinn að hafa náð kolefnishlutleysi árið 2050.
Ráðgjöf
Reykjavíkurborg fær sérsniðna ráðgjöf frá alþjóðlegu samtökunum NetZeroCities. Þau halda utan um verkefnið í samstafi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og samtökin Climate-KIC, Eurocities og ICLEI.