Íbúafundur borgarstjóra – Grafarholt og Úlfarsárdalur

Borgarstjóri býður til opins íbúafundar í nýju menningarmiðstöðinni í Úlfarsárdal miðvikudaginn 16. febrúar kl. 20:00. Kynning á því sem er efst á baugi í hverfinu.

Streymi

Streymt verður frá íbúafundinum á þessa vefsíðu og verður það aðgengilegt sem upptaka að loknum fundi.

Við verðum í nýju menningarmiðstöðinni í Úlfarsárdal fyrir þau okkar sem vilja mæta og að sjálfsögðu gætum við vel að smitvörnum.

Fundurinn verður haldinn í salnum Miðgarði í nýju byggingunni að Úlfarsbraut 122 – 124, gengið er inn um inngang Bókasafns / Sundlaugar. 

 

Dagskrá fundarins

  • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri: Grafarholt og Úlfarsárdalur
  • Helga Friðriksdóttir, íbúi: Dalurinn minn - sveit í borg
  • Sigurður Ingi Tómasson, formaður FRAM: Nýir tímar í Úlfarsárdal
  • Spurt og svarað: Tekið við spurningum úr sal og farið yfir spurningar sem hafa verið sendar 
     
  • Fundarstjóri: Stefanía Sigurðardóttir formaður íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals.

Hefur þú spurningu?

Sendu endilega fyrir fundinn spurningar sem þú hefur. Einnig er velkomið að bera fram spurningar á fundinum. Fylltu út formið hér að neðan eða sendu tölvupóst á netfangið: ibuafundir@reykjavik.is.

Spurningar og svör

Sundlaugin Úlfarsárdal 

Verður byggð rennibraut við nýju sundlaugina í Úlfarsárdalnum eins og fyrirhugað var skv. upphaflegu plani? 

SVAR:

Upphaflega planið var að gera þarna rennibraut með aðgengi fyrir alla. Sú lausn reyndist þegar til átti að taka of plássfrek fyrir rýmið sem við höfum úr að moða, og verður hún útfærð í Laugardal þar sem er meira rými. Núna erum við að undirbúa útboð á hefðbundinni tvöfaldri rennibraut. Vinna við undirstöður og umhverfi fer fljótlega af stað, en innkaupasvið er ekki búið að ljúka yfirlestri útboðsgagna. Þangað til við höfum tilboð í hendi er erfitt að segja til um það hvenær hún verður tilbúin, en bjartsýnir búast við að það verði á þessu ári. Frekari breytingar verða í Laugardalslaug og  almenningur er hvattur til að senda inn hugmyndir um endurgerð laugarinnar.

 
 

Stígar um Reynisvatn/Reynisvatnsheiði

Spurning:

Í fyrrasumar/haust var lögð vinna í stíginn í kringum Reynisvatn. Þetta var handabakavinna og notað í þetta lélegur leirkenndur ofaníburður. Í umhleypingum í haust og vetur hefur göngustígurinn verið ófær á köflum vegna drullu.Það er með ólíkindum að sjá hversu illa er hugsað um göngustíga í kringum þetta svæði Reynisvatn/Reynisvatnsheiði.

 

Svar:

Hér er spurt um tvennt, annars vegar stíginn í kringum Reynisvatn og hinsvegar stíga/slóða á Reynisvatnsheiði. Stígurinn í kringum Reynisvatn var lagfærður síðasta sumar/haust. Borið var efni í stíginn en stígurinn ekki byggður upp - sem hefði verið mun stærri framkvæmd. Þá var borið í stíginn sama efni og hefur verið notað í malarstíga í Reykjavík til margra ára. Efnið kemur úr námu við Geirland og er aðeins leirkennt svo að það þjappist vel, en auðvitað getur komið upp drulla í gegn í miklum leysingum. Á tveimur stöðum er stígurinn illa farinn og verður farið í lagfæringar á honum næsta vor og ráðstafanir gerðar til þess að hann fari ekki í illa í næstu leysingum. Hins vegar varðandi Reynisvatnsheiðina, þá eru fjölmargir stígar og slóðar þar, í misjöfnu ásigkomulagi og sumir einungis troðningar/kindagötur og ekki eiginlegir stígar. Verið er að vinna að heildarskipulagi Austurheiða og er nú unnið að gerð stíga og áningarstaða uppi á heiðinni. Í fyrsta áfanga verður horft til Paradísardals og stíganna þar upp frá Rauðavatni. Um langtímaverkefni er að ræða til næstu ára.