Lumar þú á hugmynd um framtíð Laugardalslaugar?

Betri hverfi Borgarhönnun

Teikning eftir Halldór Baldursson vegna hugmyndasöfnunar um framtíð Laugardalslaugar.

Almenningur er nú hvattur til að senda inn hugmyndir um endurgerð Laugardalslaugar. Hugmyndasöfnun gengur vel og ljóst er að fólk skortir ekki hugmyndaflug þegar kemur að framtíð þessarar stóru laugar í hjarta borgarinnar.

Undirbúningur hönnunarsamkeppni um endurgerð Laugardalslaugar og tengdra mannvirkja stendur nú yfir og er liður í honum að safna hugmyndum frá almenningi. Leitast er eftir nýjum og framsæknum hugmyndum svo það er um að gera að leyfa sér að dreyma stórt. Hægt er að skila inn hugmyndum í hugmyndakassa í afgreiðslu Laugardalslaugar, í gegnum Betri Reykjavík og með tölvupósti á hugmynd@itr.is. Á annað hundrað hugmynda hafa þegar borist og má sjá þær á skjá í Laugardalslaug. 

Sundlaug er ekki bara sundlaug

En af hverju var farið í þetta verkefni?

„Laugin er löngu komin á tíma vegna viðhalds, sjálft laugarkarið, lagnir og fleira. Það er kominn tími á að endurnýja allt,“ segir Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar. „Og það skiptir máli hvernig laugin á að þróast. Á Íslandi er sundlaug ekki bara sundlaug. Hún er samfélagsmiðstöð og hefur mikilvægt hlutverk sem slík. Þetta erum við alltaf að reyna að efla og kannski þess vegna var uppeldisfræðingur ráðinn í starf forstöðumanns hér,“ bætir Árni við.

Með hugmyndasöfnuninni, sem stendur til 28. febrúar, gefst almenningi kostur á að koma á framfæri sínum hugmyndum um framtíð laugarinnar áður en fagfólk tekur til við að útfæra tillögur í hönnunarsamkeppni. „Við erum að leita að hugmyndum um hvað væri sniðugt að gera; hvað vantar svo laugin verði aftur flaggskip, eða drottning sundlauganna. Við viljum taka hana þangað aftur,“ segir Árni kankvís. „Svo stefnum við á að setjast niður með krökkum í hverfinu og heyra þeirra skoðanir á því hvernig þetta á að vera. Þau munu eldast með lauginni og eru kúnnar framtíðarinnar.“

Leikur dýrmætur fyrir allan aldur

Árni segir margar ótrúlega skemmtilegar hugmyndir komnar. „Þær snúast til dæmis um andlega næringu í heitum böðum og svo eru alls konar flottar hugmyndir sem snerta leiksvæði. Það er mjög dýrmætt því leikur er svo mikilvægur, fyrir allan aldur,“ segir hann. „Það eru til dæmis komnar hugmyndir að leiktækjum fyrir eldri börn og unglinga og ég er mjög spenntur að gera meira í kringum þetta. Okkur vantar líka aðra kennslulaug innandyra þar sem væri möguleiki á annars konar afþreyingu eins og flotsundi á kvöldin. Svo höfum við fengið margar frábærar hugmyndir varðandi framtíð stúkunnar, til dæmis hefur verið lagt til að breyta henni í kaffihús eða garðskála sem mætti heimsækja á sundfötunum. Ég er mjög hrifinn af því hvað fólk er hugmyndaríkt, þetta er einmitt það sem við vorum að leitast eftir.“ 

Húmorinn ekki langt undan 

Í tengslum við hugmyndasöfnunina teiknaði Halldór Baldursson útópíska mynd þar sem hugmyndaauðgi fær sannarlega að njóta sín. Myndin er á stórum skjá og á henni má til dæmis sjá fólk standa í röð eftir því að fæða barn í lauginni. „Húmorinn er ekki langt undan, við erum hrifin af öllu sem auðgar lífið og gerir það skemmtilegra,“ segir Árni. 

Nálgast má nánari upplýsingar um hugmyndasöfnunina á heimasíðu Laugardalslaugar og á síðu Reykjavíkurborgar.