Lóðir fyrir grænt húsnæði

Teikning af húsi sem er eins og blómapottur í laginu og kona vökvar gróður á þakinu

Reykjavíkurborg kallar eftir umsóknum um samstarf á fimm lóðum fyrir vistvæna húsnæðisþróun. Markmiðið er að styðja við uppbyggingu vistvænni mannvirkja þar sem kappkostað hefur verið að draga úr neikvæðum áhrifum á loftslag og umhverfi. Í verkefninu er horft heildrænt á sjálfbærni og lögð áhersla á að fagurfræði, tækni og notagildi haldist þétt í hendur.

Um verkefnið

Gögn um samkeppnina, lóðalýsingar og skilyrði má sjá hér í kynningarbæklingi.



Svör við innsendum fyrirspurnum varðandi verkefnið eru birt neðst á þessari síðu.



Áherslur um mat umsókna má sjá í matsblaði.

Samkeppnin er hluti af Græna planinu og tekur mið af áherslum aðalskipulags og loftslagsáætlunar Reykjavíkurborgar.

Fimm lóðir með 20-80 íbúðum hver

Nú eru boðnar fram 5 lóðir í borginni þar sem kallað er eftir hugmyndum að vistvænni húsnæðisþróun en hún felur meðal annars í sér möguleika á uppbyggingu 20-80 íbúða á hverjum reit.

 

Lóðirnar eru við Arnarbakka og Völvufell í Breiðholti, Frakkastíg í Miðborg og Veðurstofureit í Hlíðunum. Þær eru ólíkar að eiginleikum og á mismunandi stað í skipulagsferli og er það von borgarinnar að það hvetji til fjölbreyttra og skapandi úrlausna.

Fjölbreytt og þverfagleg teymi

Gert er ráð fyrir því að umsækjendur setji á laggirnar fjölbreytt og þverfagleg teymi sem vinni í samstarfi við Reykjavíkurborg á hverjum og einum reit.

 

Tilgreina þarf þekkingu og reynslu umsækjenda á sviði sjálfbærni, arkitektúrs, verkfræði og framkvæmda í teymi sem skipi að hámarki 8 manns.

Umsókn fyrir 31. janúar 2022

Sækja má um fleiri en eina lóð en óheimilt að gera fleiri en eitt tilboð í hverja lóð. Um úthlutun lóðarinnar gilda almennir lóða- og framkvæmdaskilmálar Reykjavíkurborgar frá 13. júní 2013, skilmálar í úthlutunarkafla auk skipulagsskilmála. Þá kunna að verða settir sér skilmálar fyrir hverja lóð.

 

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur og skal umsókn skilað í síðasta lagi mánudaginn 31. janúar 2022 á netfangið athafnaborgin@reykjavik.is með efnislínunni „Umsókn – Grænt húsnæði framtíðarinnar“.

Teikning af fólki og hundi úti í náttúrunni.

Fyrirspurnir

Fyrirspurnir skal senda á netfangið athafnaborgin@reykjavik.is.

og eru svör birt hér neðar á síðunni.

Spurningar og svör vegna lóða fyrir grænt húsnæði

17. Má skila inn umsókn á bæði íslensku og ensku?

Já, heimilt er að skila inn umsókn á bæði íslensku og ensku.

 

(Svar birt á vef 21.12.2021)

16. Almennt: Skilyrði kveða á um að uppsetning umsóknar eigi ýmist að vera í "landscape" eða "portrait". Er alveg víst að svo eigi að vera?

Reykjavíkurborg biður um að atriði þrjú í umsókninni, „Lýsing á verkefni og arkitektúr“, sé í landscape. Teymin mega sjálf ráða hvort önnur atriði umsóknarinnar séu útfærð í landscape eða portrait.

15. Veðurstofureitur: Nýtingarhlutfall, byggingarmagn og fjöldi íbúða

Veðurstofureitur: Í gögnum er talað um nýtingarhlutfall upp á 3,0 á lóð sem er um 0,5-0,6 hektara. Þetta eru því um 15.000 – 18.000 fermetra byggingarmagn. Samtímis er talað um ca. 80 íbúðaeiningar. Er gert ráð fyrir því að fjöldi íbúða geti orðið umtalsvert meiri, miðað við nýtingarhlutfall og fjölda fermetra?

Svar:

Áréttað er að deiliskipulag reitsins er á frumstigi og í mótun og mörgum spurningum því ósvarað, þ.m.t. um nýtingarhlutfall og fjölda íbúða. Gera má ráð fyrir að þetta skýrist í samtali og samráði þeirra aðila sem koma að þróunarferlinu.

(Svar birt á vef 15.12.2021)

14. Almennt: Talað er um í gögnunum að tryggja þurfi að mannvirkin standi á öllum þremur fótum sjálfbærni, hinna vistfræðilega, félagslega og efnahagslega. Er hægt að skilgreina nánar hvernig þessi þættir verða metnir í tilboðum?

Áhersla er lögð á að verkefnin séu hugsuð út frá öllum þremur víddum sjálfbærni. Hægt er að sjá nánar í matsblaði hvernig hver þáttur fyrir sig verður metinn til stiga. Sjá matsblað verkefnisins.

 

(Svar birt á vef 7.12.2021)

13. Almennt: Athugasemd varðandi hönnunarstjóra verkefnis

Í gögnum útboðsins er „Lögð áhersla á að hönnunarstjóri og byggingarstjóri séu ótengdir eigendum, hönnuðum og verktökum til þess að gæta hlutleysis í eftirliti.“ Er hægt að skýra hver ástæða þessara óska? Við óskum eftir að þessi krafa verði felld út þar sem hún er óraunhæf. Hönnunarstjóri er yfirleitt hluti af hönnunarhópnum og byggingastjóri hjá verktaka.

 

Svar:

Sjá svar við spurningu nr. 10 hér á síðunni.

 

(Svar birt á vef 7.12.2021)

12. Lóð 5 – Veðurstofan: Er hægt að skilgreina hvaða lóð/svæði við Veðurstofuna sé fyrirhuguð sem svæði í þessari samkeppni?

Sjá svar við spurningu nr. 1 hér á síðunni.

 

(Svar birt á vef 7.12.2021)

11. Umsóknarfrestur: Óskað hefur verið eftir framlengdum umsóknarfresti

Óskað hefur verið eftir rýmri tíma til að skila inn umsóknum. Bent hefur verið á að um sé að ræða nýjung og að umsækjendur þurfi tíma til að gaumgæfa skilyrði og umsóknarform. Þá hefur verið bent á að desember sé annasamur mánuður hjá fagaðilum.  



Svar:

Reykjavíkurborg tekur athugasemdirnar til greina og veitir aukinn frest til þess að skila inn umsóknum. Í stað 22. desember 2021 skal umsóknum nú skilað í síðasta lagi mánudaginn 31. janúar 2022. 

(Svar birt á vef 3.12.2021)

10. Hönnunarstjóri: Athugasemd hefur borist frá Arkitektafélagi Íslands varðandi hönnunarstjóra

Athugasemd hefur borist frá Arkitektafélagi Íslands þar sem bent er á að matsatriðið varðandi það að hönnunarstjóri sé ótengdur eiganda, hönnuðum og verktökum til að gæta hlutleysis í eftirliti megi endurskoða. Í athugasemdinni segir að í byggingarreglugerð komi fram að eigandi skuli tilnefna hönnunarstjóra en að venjan sé alla jafna sú að þar sem arkitektar komi að verkum þá séu þeir einnig hönnunarstjórar og sjái um samræmingu hönnunargagna. AÍ hafi borist athugasemdir varðandi þetta atriði frá bæði arkitektum og verktökum. Arkitektafélagið bendir á að þeir sem keppi á markaði vilji sjaldnast að hönnunarstjórar séu aðrir en þeir arkitektar sem þeir hafi fengið í þetta verkefni með sér. Athugasemdin lýtur m.a. að því að smæð markaðarins þýði að ekki sé nægur mannskapur/fyrirtæki til staðar til að fyrirbyggja möguleg tengsl við keppinauta.



Svar:



Reykjavíkurborg bendir á að í matsblaði hafi þessi þáttur minnst vægi. Það sé því vel mögulegt að ná mjög góðri einkunn í „Samsetning og lykilmeðlimir teymis“ – án þess að hönnunarstjóri sé ótengdur eiganda, hönnuðum og verktökum. Sá matsþáttur muni í raun eingöngu hafa áhrif verði umsóknir að öðru leyti metnar jafnar. Í matsblaði Græns húsnæðis framtíðarinnar standi „Séu hönnunarstjóri og byggingarstjóri ótengdir eiganda, hönnuðum, verktaka eða öðrum aðilum teymisins, er tekið jákvætt tillit til þess í samanburði við teymi annarra umsækjenda þegar að umsóknirnar eru að öðru leiti metnar jafnar.“  



Bent er á að í lögum um mannvirki nr. 160/2010 hafi verið gerðar nokkrar breytingar frá fyrri löggjöf sem miðast hafi við meginregluna um „að koma í veg fyrir að mönnum sé ætlað að hafa eftirlit með sjálfum sér“ eins og komi fram í athugasemdum flutningsmanna við lagafrumvarpið. Viðamestar hafi verið breytingar á hlutverki byggingarstjóra en einnig verið gerðar breytingar varðandi samræmingu hönnunargagna og innra eftirlit með hönnun sbr. 15. gr. og 23. gr. mannvirkjalaganna. Í athugasemdum flutningsmanna með lagafrumvarpinu komi fram að eigandinn beri samkvæmt lögunum ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga og reglugerða og skuli eigandinn hafa virkt innra eftirlit með því að þeir aðilar sem hann ráði til að hanna, byggja og reka mannvirkið fari eftir ákvæðum laga. 

Samkvæmt mannvirkjalögum sé eiganda því skylt að ráða hönnunar- og byggingarstjóra til þess að rækja ábyrgðarskyldur sínar að þessu leyti og hljóti þá, í ljósi meginreglunnar sem nefnd var hér fyrst, að vera betra séu eftirlitsaðilarnir ótengdir öðrum aðilum byggingarframkvæmdarinnar. Af þessum sökum sé „tekið jákvætt tillit til þess í samanburði við teymi annarra umsækjenda þegar að umsóknirnar eru að öðru leiti metnar jafnar“ séu hönnunar- og byggingarstjóri hlutlausir aðilar. 

Verkefnateymi Græns húsnæðis framtíðarinnar hefur rætt málið við fulltrúa Arkitektafélags Íslands. Reykjavíkurborg tekur athugasemdina greina og heldur jafnframt til haga því samtali sem af henni leiddi er varðar skilning á lögum og því verklagi sem almennt er viðhaft. Brugðist verður við þessu í næstu umferð verkefnisins. Jafnframt mun Reykjavíkurborg leggja áherslu á áframhaldandi gott samtal við hagaðila með það að markmiði að læra af því og betrumbæta verkefnið enn frekar.



(Svar birt á vef 3.12.2021)

9. Almennt um þátttöku: Munu þau sem sendu inn hugmyndir í hugmyndaleitina Húsnæði framtíðar með léttu vistspori sem Rvk.borg efndi til sl. vor, og/eða hafa átt í samtali við Reykjavíkurborg um þróun græns húsnæðis, njóta þess að einhverju leyti nú?

Ákveðið var að nálgast þetta þannig að allir þátttakendur væru sem jafnast settir í mati á umsóknum. Því eru ekki gefin formleg stig fyrir að hafa áður verið í samtali við borgina eða sent inn hugmyndir. Hins vegar hafa þau sem sendu inn hugmyndir og/eða hafa áður átt í samtali við Reykjavíkurborg um þróun græns húsnæðis haft áhrif á hvaða eiginleikar hafa verið hafðir í huga við gerð verkefnisins o.þ.a.l. hvernig verkefnið hefur þróast og hvaða matsatriði hafa verið tekin inn. Með því að senda inn hugmyndir á sínum tíma hafa viðkomandi aðilar auk þess væntanlega sett sig inn í ákveðinn hugsunarhátt og unnið og slípað til hugmyndir sem ætla má að geti gefið þeim ákveðið forskot við úrlausn þessa verkefnis.

(Svar birt á vef 1.12.2021)

8. Almennt um þátttöku: Hefur það afleiðingar (refsingu) í för með sér ef ekkert verður úr verkefni sem hefur fengið úthlutað lóð? Getur þetta haft áhrif á möguleika þeirra er standa að viðkomandi teymi til að fá úthlutað lóð síðar meir?

Nei.

(Svar birt á vef 22.11.2021)

7. Greiðsluskilmálar: Hverjir eru greiðsluskilmálar fyrir byggingarrétt á lóðinni, í ljósi þess að hún er ekki byggingarhæf?

Lóðin kemur ekki til greiðslu fyrr en hún hefur verið gerð byggingarhæf.



(Svar birt á vef 22.11.2021)

6. Veðurstofureitur – bílastæðakrafa: Verða bílastæðakröfur vegna húsnæðis á Veðurstofureit lægri ef niðurstaða skipulagsvinnu verður sú að reisa bílastæðahús á reitnum? Yrði mögulegt bílastæðahús á vegum Reykjavíkurborgar/Bílastæðasjóðs

Umferðar- og bílastæðamál reitsins verða ávörpuð í þeirri deiliskipulagsvinnu sem framundan er. Bílastæðahús gæti komið til álita í þeirri vinnu. Á þessu stigi málsins er ekki hægt að segja til um bílastæðakröfu eða hvort og hver myndi byggja og/eða reka mögulegt bílahús.

(Svar birt á vef 22.11.2021)

5. Veðurstofureitur – deiliskipulag: Hver er staða deiliskipulags á reitnum?

Vinna við deiliskipulag er á frumstigi. Sjá nánar um ýmsar hugmyndir er komið hafa fram um reitinn í kynningarbæklingi.

(Svar birt á vef 22.11.2021)

4. Veðurstofureitur – deiliskipulag: Er mögulegt fyrir mögulegan kaupanda lóðar að koma að deiliskipulagi reitsins?

Já. Teyminu sem verður hlutskarpast í samkeppninni um reitinn mun gefast kostur á því að semja um að taka þátt í þeirri vinnu og þannig geta mátað hugmyndir sínar við reitinn og e.a. haft áhrif á skipulag hans.

(Svar birt á vef 22.11.2021)

3. Veðurstofureitur – deiliskipulag: Hversu lengi er gert ráð fyrir að deiliskipulagsvinna reitsins standi yfir?

Vinna við deiliskipulag er á frumstigi og í raun ómögulegt að segja hversu langan tíma slíkt gæti tekið. Almennt getur deiliskipulagsvinna oft tekið um 12 til 24 mánuði.

(Svar birt á vef 22.11.2021)

2. Veðurstofureitur – kvaðir: Tiltekið er Félagsbústaðir eigi kauprétt að 5% þeirra íbúða á Veðurstofureit sem verða til undir merkjum Græns húsnæðis framtíðarinnar. Eru einhverjar aðrar kvaðir á þessum íbúðum?

Sé litið til alls Veðurstofureitsins eru uppi kvaðir um að þriðjungur byggingarréttar á honum verði helgaður vistvænni uppbyggingu (þessu verkefni um Grænt húsnæði framtíðarinnar). Annar þriðjungur verði helgaður húsnæðisfélögum sem byggja án hagnaðarsjónarmiða og þriðji þriðjungur verði helgaður uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Hvað varðar þann þriðjung sem helgaður hefur verið þessu verkefni, Grænu húsnæði framtíðarinnar, er um að ræða kvaðir um græna uppbyggingu, þær sem fram koma í samkeppnislýsingunni. Ekki er þar gert ráð fyrir viðbótarkröfum varðandi hagkvæmt húsnæði en viðbúið að í vinnu við þróun skipulags reitsins geti komið um kvaðir varðandi lagnir, gönguleiðir o.þ.h.

(Svar birt á vef 22.11.2021)

1. Veðurstofureitur – reiturinn sjálfur: Hvaða svæði er nákvæmlega um að ræða á reitnum? Er um að ræða eitt af lituðu svæðunum á loftmyndinni í kynningarbæklingnum eða allan reitinn?

Í raun er um að ræða allan reitinn. Gert er ráð fyrir að u.þ.b. þriðjungur (33%) byggingarmagns á öllum Veðurstofureitnum (allt að 80 íbúðir á um 0,5-0,6 hekturum) verði eyrnarmerktur þessu verkefni - Grænu húsnæði framtíðarinnar. Nákvæmlega hvar íbúðirnar skulu rísa innan reitsins hefur ekki verið ákveðið og mun koma ljós við þróun hans. Gert er ráð fyrir að annar þriðjungur reitsins verði helgaður hagkvæmu húsnæði og enn annar húsnæðisfélögum sem byggja án hagnaðarsjónarmiða. Lituðu rammarnir sem dregnir hafa verið inn á loftmynd af svæðinu endurspegla hugmyndir um mögulegar staðsetningar þessara þriggja verkefna innan heildarreitsins en segja ekki fyrir um hvernig endanleg niðurröðun á reitnum verður. Í samkeppninni hafa teymin skv. þessu nokkuð frjálsar hendur innan stóra reitsins varðandi form og tengsl reita og útfærslu á hugmyndum sínum að grænni uppbyggingu á Veðurstofureit.

(Svar birt á vef 22.11.2021)