Grænt húsnæði framtíðarinnar

Húsnæðismál eru eitt mikilvægasta verkefni samtímans en mikil og nauðsynleg uppbygging íbúðarhúsnæðis skilur eftir sig djúpt kolefnisfótspor. Þörf er á nýjum grænum hugmyndum og lausnum og því stendur Reykjavíkurborg fyrir þróunarverkefnum sem hluta af Græna planinu og taka mið af áherslum aðalskipulags og loftslagsáætlunar Reykjavíkurborgar.

Samkeppni - Lóðir fyrir grænt húsnæði

Reykjavíkurborg kallaði í byrjun árs 2022 eftir umsóknum um samstarf á fimm spennandi lóðum fyrir vistvæna húsnæðisþróun.

 

Innlendar og erlendar fyrirmyndir

Fyrirmynd verkefnisins er annars vegar verkefni borgarinnar um hagkvæmt húsnæði þar sem borgin er í dag að vinna með níu þróunaraðilum að því að byggja upp hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur um alla borg og hins vegar alþjóðlega verkefni Re-inventing Cities þar sem tvö einstök verkefni eru nú í þróun við Lágmúla og Ártúnshöfða.

Nábýli við græn svæði og útivistarsvæði 

Horft verður meðal annars til svæða sem eru nálægt grænum svæðum og útivistarsvæðum og notið geta nábýlis við þau. Stefnt verður að því að 25-33% íbúða innan hvers reits verði almennar íbúðir (með stofnframlögum) eða á hendi óhagnaðardrifinna félaga. Uppbygging á öllum reitum skal uppfylla samningsmarkmið um nýja uppbyggingarreiti.