Búseti

Búseturéttaríbúðum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Reykjavíkurborg gaf vilyrði árið 2016 um að Búseti fengi byggingarrétt fyrir á þriðja hundrað íbúðir á nokkrum stöðum í borginni. Haustið 2022 voru nær 900 búseturéttaríbúðir í Reykjavík.  

Samtals hefur Búseti lokið byggingu 417 íbúða frá 2019 til 2022.

Búseti lauk byggingu á 221 íbúð í Smiðjuholti og við Reynisvatnsás árið 2019. Framkvæmdum lauk á 20 íbúðum við Skógarveg og 78 á Keilugranda árið 2020. Byggingu 72 íbúða lauk við Árskóga 5-7 í Suður Mjódd árið 2021 og byggingu 26 íbúða við Beimabryggju 42 í Bryggjuhverfi III lauk einnig haustið 2021. 

Á fjórða ársfjórðungi 2022 hefst bygging 42 íbúða við Hallgerðargötu 20. Þar byggir Búseti 37 íbúðir fyrir sitt félagsfólk og 5 íbúðir fyrir Brynju sem er leigufélag Öryrkjabandalags Íslands.

Þá liggja fyrir vilyrði og viljayfirlýsingar um lóðir til félagsins fyrir allt að 335 íbúðum. Þar af eru 85 íbúðir á lóðum með samþykktu deiliskipulagi, 120 íbúðir á lóðum í skipulagsferli og 130 íbúðir á þróunar- og framtíðarsvæðum.
 

Búseturétturinn er þriðja leiðin

Íbúðir Búseta eru hannaðar í samræmi við markmið húsnæðisstefnu um fjölbreyttar húsagerðir, blöndun íbúðagerða innan hverfa og aukið framboð smærri íbúða  fyrir alla félagshópa. 

Með úthlutun lóðanna er stuðlað að fjölbreyttara húsnæðisframboði breiðs hóps í samfélaginu og reynt að skapa húsnæðisgrundvöll fyrir fjölda einstaklinga sem annars gætu þurft á aðstoð að halda. Þannig er byggð brú milli leigu- og eignaríbúða. 

Stundum er sagt að búseturétturinn sé þriðja leiðin, á milli leiguforms og eignarforms. Borgin stuðlar þannig að blöndun eignarforma í samvinnu við félag sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða.