Íbúðir fyrir aldraða og hjúkrunarrými

Reykjavíkurborg vinnur að auknum og bættum búsetuúrræðum fyrir eldri borgara. Áætlun um að byggja um 450 íbúðir fyrir eldri borgara miðar vel, í samstarfi við Sjómannadagsráð, Naustavör, Hrafnistu, Grund, Sóltún, Samtök aldraðra og Leigufélag aldraðra/Félag eldri borgara. Reykjavíkurborg hefur beitt sér fyrir byggingu hjúkrunarheimila og fjölgun hjúkrunarrýma í borginni. Hvort tveggja er háð framlögum og samþykki ríkisins.

Allt að 344 ný hjúkrunarrými á næstu árum

Hjúkrunarheimilið Sléttuvegi 25 er nýtt hjúkrunarheimili með 99 rýmum og var opnað 28. febrúar 2020. Það er rekið af Hrafnistu, dótturfélagi Sjómannadagsráðs.

Vorið 2021 var undirritað samkomulag við heilbrigðisráðuneytið um byggingu tveggja hjúkrunarheimila í Reykjavík.

  • Við Mosaveg í Grafarvogi verður byggt heimili með 132-144 hjúkrunarrýmum. Gert er ráð fyrir að það verði tekið í notkun árið 2026. 
  • Einnig hefur verið undirrituð viljayfirlýsing um byggingu allt að 200 hjúkrunarrýma við Ártúnshöfða.
     

465 íbúðir fyrir eldri borgara byggðar 2018-2022

Frá 2018 til haustsins 2022 hafa verið byggðar 292 íbúðir fyrir eldri borgara.

  • Sóltún–Mánatún, 44 íbúðir. Sóltún.
  • Mörkin-Suðurlandsbraut, 74 íbúðir. Grund. 
  • Árskógum 1-3, 68 íbúðir. Félag eldri borgara.
  • Austurhlíð 10, 60 íbúðir. Samtök aldraðra.
  • Sléttuvegur 25-27, 60 íbúðir. Naustavör.
  • Hraunbær 103abc, 60 íbúðir. Dverghamrar.

Á stefnuskrá er að fjölga þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara í Seljahlíð um 20 íbúðir.

Samstarf um lífsgæðakjarna

Í húsnæðisáætlun sem lögð var fram í borgarráði haustið 2022 kemur fram að 564 íbúðir/hjúkrunarrými eru í skipulagsferli eða þróun. Á vordögum 2022 samþykkti borgarráð vilyrði  og viljayfirlýsingar um uppbyggingu allt að 200 íbúða við Ártúnshöfða, í Gufunesi og við Leirtjörn vestur á vegum Leigufélags aldraðra og Samtaka aldraðra. 

Einnig hefur verið ákveðið að auglýsa eftir samstarfsaðilum og hugmyndum um þróun húsnæðis í anda svokallaðra lífsgæðakjarna. Þar er lögð áhersla á fjölbreytt búsetuform. Eignaríbúðir, búseturéttaríbúðir, leiguíbúðir og jafnvel hjúkrunaríbúðir eða hjúkrunarheimili í bland við annað íbúðahúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Markmiðið er að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og ólíkum þörfum er mætt.