Græn skref
Verkefnið Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar snýst um að efla vistvænan rekstur í starfsemi borgarinnar ásamt því að skapa fordæmi í því að minnka umhverfisáhrif sveitarfélagsins með kerfisbundnum hætti.
Vinnustaðurinn
Hjá Reykjavíkurborg starfa um 10.000 manns og er borgin einn af stærstu vinnustöðum landsins. Reksturinn er umfangsmikill og hefur umtalsverð umhverfisáhrif, bæði vegna athafna starfsmanna og vegna tengdrar þjónustu sem borgin veitir. Rekstri borgarinnar fylgir losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars frá bílum, meðhöndlun úrgangs og ýmsum verkframkvæmdum. Einnig hefur borgin óbein áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars í gegnum ákvarðanir sem snerta innkaup.
Allar stofnanir Reykjavíkurborgar eiga að vera þátttakendur í Grænum skrefum og ljúka skylduaðgerðunum. Grænar áherslur eru nú svo til í allri starfsemi Reykjavíkurborgar. Með þátttöku sinni leggja stofnanir borgarinnar sitt af mörkum til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi starfsfólks síns og draga úr rekstrarkostnaði.
Aðgerðir Grænna skrefa
Umhverfisstjórnunarkerfið Græn skref byggist á fjölmörgum aðgerðum í þremur flokkum sem hafa áhrif á umhverfið, og er aðgerðalistanum skipt upp í skylduaðgerðir og viðbótaraðgerðir. Verkefnið er unnið þvert á öll fagsvið borgarinnar en verkefnisstjóri verkefnisins hefur aðsetur á umhverfis- og skipulagssviði.
Tilgangur Grænna skrefa
Að samræma umhverfisáherslur í stefnum Reykjavíkurborgar og markmið um kolefnishlutleysi 2030
Reykjavíkurborg hefur sett sér ýmsar stefnur þar sem umhverfismál eru nefnd eða eru stór hluti af. Í aðalskipulaginu eru markmið um vistvænar samgöngur og haustið 2024 skrifaði Reykjavíkurborg undir loftslagssamning við 100 aðrar borgir Evrópu þar sem aðalmarkmiðið er að draga úr losun og ná kolefnishlutleysi. Í Grænu skrefunum eru forgangsatriði úr þessum stefnum sett í framkvæmd.
Að gera alla starfsemi Reykjavíkurborgar umhverfisvænni
Reykjavíkurborg rekur um það bil 360 einingar eða stofnanir sem eru ólíkar að stærð og starfsemi. Sama þó að einingin sé lítil eða hafi fáa starfsmenn, þá geta allar stofnanir lagt sitt af mörkum og hvert framlag til umhverfismála skiptir máli. Við þurfum að horfa til þess að Reykjavíkurborg er einn vinnustaður og allar stofnanirnar mynda saman eina heild.
Að draga úr kostnaði í rekstri Reykjavíkurborgar
Vistvæn innkaup fela í sér meiri skilvirkni og betri greiningu á því hvað á að kaupa inn og hver þörfin er. Með þessu er hægt að ná hagræðingu í innkaupum. Í Grænum skrefum er einnig mikil áhersla lögð á að minnka sorp, prentun, matarsóun, orkunotkun og draga þannig úr óþarfa sóun. Þar með næst einnig mikill sparnaður.
Að gera Reykjavíkurborg að fyrirmynd annarra í umhverfismálum
Reykjavíkurborg er þátttakandi í ýmsum alþjóðlegum verkefnum sem snúa að loftslagsmálum. Við viljum geta sýnt það með stolti hvaða árangri við höfum náð og hverju lítil borg getur áorkað. Reykjavíkurborg er einnig einn af stærstu rekstraraðilum landsins og getur þar af leiðandi gefið tóninn í innlendu rekstrarumhverfi varðandi umhverfisvænni innkaup og ábyrgð í rekstri.
Að hlíta lögum og reglum á samræmdan hátt
Við vitum að við eigum öll að flokka rusl og flokkum eftir bestu getu. Hins vegar geta aðferðirnar, merkingarnar, úrgangsmagnið, ílátafjöldi, hirðutíðni, fræðsla og margt annað sem tengist sorpinu verið eins mismunandi og vinnustaðirnir eru margir. Í gegnum Grænu skrefin er eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt og reynt er að hafa skipulag og samræmingu í þessum málaflokki.
Að auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra
Ef við höldum umhverfi okkar hreinu og snyrtilegu líður okkur betur og með betri flokkun á sorpi og snyrtilegri aðstöðu til þess eykst ánægja starfsfólks. Ef vinnustaður leggur áherslu á að fækka bílum eða fækka eknum ferðum og hvetur til hreyfingar þá hefur það mjög jákvæð áhrif á heilsufar starfsfólks og starfsandann. Það hefur einnig jákvæð áhrif á starfsemina að bæta alla verkferla sem óhjákvæmilega gerist þegar farið er að vinna í svona verkefni eins og Grænu skrefunum.
Hvað viltu skoða næst?
- Spurt og svarað um Græn skref Algengar spurningar og svör um Græn skref
- Grænu skrefin fjögur Umhverfisstarf sem innleiðir umhverfisvænar aðgerðir.
- Þátttakendur í Grænum skrefum Listi yfir starfsstaði sem eru þátttakendur í Grænum skrefum.
- Hvernig hafa grænu skrefin áhrif á samgöngur? Losun vegna samgangna er langstærsti hluti allrar losunar.
- Hvernig er hægt að spara orku með Grænum skrefum? Það eru margar leiðir til þess að spara orku og allt telur.
- Loftslagsmál Markmiðið er að verða kolefnishlutlaus árið 2040.
- Árangur Græna plansins Græna planið er framtíðarsýn borgarinnar til ársins 2030.