Hvernig er hægt að spara orku með Grænum skrefum?

Teikning af húsi sem er eins og blómapottur í laginu og kona vökvar gróður á þakinu

Undir flokknum raforka og húshitun í grænu skrefunum er allt sem tengist heitavatnsnotkun og rafmagnsnotkun í rekstrinum en undir það fellur öll lýsing, öll raftækjanotkun og hvernig við stýrum upphitun eða kælingu húsnæðisins. Það eru margar leiðir til þess að spara orku og allt telur. 

1. Tölvuframleiðsla og tölvunotkun

Framleiðsla á tölvum hefur mikil neikvæð áhrif á umhverfið, bæði vegna þeirra náttúrauðlinda sem notaðar eru sem hráefni í tölvurnar og framleiðsluferlinu sjálfu. Sem dæmi má nefna að við framleiðslu á 2 gramma minniskubbi þarf að jafnaði 72 grömm af kemískum efnum og 1,2 kíló af jarðefnaeldsneyti. Við framleiðslu á tölvu sem vegur 25 kíló myndast að jafnaði 63 kíló af úrgangi í framleiðsluferlinu auk þess sem notaðir eru 27.700 lítrar af vatni og 2.300 kílóvattstundir af orku.

Við innkaup á tölvum eins og öðrum skrifstofuvörum er hægt að beina innkaupum að tækjum sem hafa minni umhverfisáhrif en sambærileg tæki; hafa Energy Star vottun um orkusparnað; bera umhverfismerkin Bláa engilinn, Evrópublómið eða önnur sambærileg. Þegar líftími tölvunnar er liðinn er áríðandi að henni sé fargað á réttan hátt. Setja skal tölvur í raftækjagám í endurvinnslustöð Sorpu svo að hægt sé að vinna úr þeim endurnýtanlega hluti. 

1.1. Hvað get ég gert til að draga úr umhverfisáhrifum af tölvunotkuninni?

  • Endurræsa tölvuna

    Flestar nýrri tölvur eru orðnar mjög orkusparandi en þó er hægt að gera betur með því að venja sig á að smella á endurræsa í lok dags, fyrir helgar eða lengri frí í stað þess að setja tölvuna í hvíldarstöðu. Endurræsingin sparar orku vegna þess að þá slekkur tölvan á öllum forritum sem gætu verið að vinna í bakgrunni og núllstillir sig. Orkusparnaðurinn er ekki mikill fyrir eina tölvu, en þar sem Reykjavíkurborg er stór vinnustaður er hægt að spara umtalsverða orku og fjármagn með bættu verklagi. Safnast þegar saman kemur. 

  • Læsa tölvunni

    Ef fólk vill ekki láta tölvuna endurræsa sig heldur vill geta gengið að gögnunum og öllum gluggum opnum eins og skilið var við í lok dags, þá er betra að nota læsingu (Windows merkið + L) frekar en að skilja tölvuna eftir í gangi. Læsingin gerir það að verkum að tölvan skynjar að engin hreyfing og engin vinnsla á sér stað svo að hún er þá tilbúin til að fara í letiham („idle mode“) sem sparar meiri orku en hún er samt opin fyrir uppfærslur forrita og slíkt. 

     
  • Eyða ruslpósti

    Því stærra sem geymsluminni tölva er og þær geyma meiri upplýsingar, því meiri orku krefjast þær. Til að spara orku er því gott að huga að betri geymsluaðferðum. Er hugsanlegt að við getum gert eitthvað gott fyrir jörðina með því að eyða ruslpóstinum okkar og öðrum tölvupósti sem við höfum ekki þörf fyrir að geyma? Svarið er já, en það gera ekki allir sér grein fyrir því hvað það er mikil orkusóun í geymslu tölvupósts. Tölvupóstur er geymdur í gagnageymslum um allan heim. Gagnageymslurnar nota gífurlega mikið rafmagn sem kemur frá kolakyntum orkuverum. Hreinsa skal reglulega út af tölvupóstreikningnum, bæði eldri pósta og ruslpósta. Tæmið einnig reglulega úr ruslafötunni í tölvupóstforritinu.  

2. Prentarar og prentpappír

Pappír hefur margvísleg áhrif á umhverfið á öllum stigum framleiðslu og notkunar, svo sem við skógarhögg og verkun timbursins, með losun mengandi efna frá pappírs- og pappírsmassaverksmiðjum og að lokum sem sorp, svo dæmi séu tekin. Í prentara og ljósritunarvélar skal nota léttan pappír til að minnka magn timburs sem notað er í framleiðslu pappírsins. Prentun báðum megin á pappírinn dregur úr því magni pappírs sem við þurfum að nota. Mikilvægt er að prentun báðum megin og að prentun í svarthvítu sé sjálfvalin stilling í tölvum starfsmanna ef hægt er.  

2.2. Hvernig get ég dregið úr notkun á prentbleki?

  • Rafræn skjöl

    Besta ráðið til að draga úr notkun á prentbleki er að prenta minna og/eða búa til rafræn skjöl til að lesa í tölvunni.

     
  • Velja ECO prentstillingar

    Til að draga úr notkun á prentsvertu er hægt að velja ECO-printing stillingar, gráskala- eða uppkastsstillingar á prentara í gegnum eiginleika prentara („print properties“). Prentunin verður eilítið grárri en kemur ekki að sök í daglegri útprentun. Einnig væri hægt að setja þessar stillingar í sjálfgefnar stillingar. 

     
  • Umhverfisvæn prenthylki

    Prenthylki frá viðurkenndum framleiðanda eru umhverfisvænni og mikið er núna lagt upp úr gæðum og að minnka umbúðir. Hægt er að hafa samband við söluaðila prenthylkjanna til að fá upplýsingar um umhverfisvæn prenthylki. Ef prentarinn er vottaður með umhverfisvottun þá eru prenthylkin talin með og prentarinn fengi ekki vottun nema prenthylkin væru einnig umhverfisvæn. Tónerar mega fara í plastendurvinnslu þegar þeir eru orðnir tómir.  

     
  • Stilla tæki þannig að þau fari í svefnham

    Hægt er að stilla mörg raftæki á borð við prentara, ljósritunarvélar, faxtæki og skjávarpa þannig að þau fari í svefnham („sleep mode“) standi þau ónotuð í ákveðinn tíma. Tækin verða aftur virk þegar hreyft er við þeim, til dæmis þegar beiðni um prentun er send á prentara. Hafið þann tíma sem tekur tækin að fara í svefnham sem stystan og aðlagið að þörfum þeirra sem eru að nota þau. Slíkar stillingar þarf oftast að virkja í tækjunum sjálfum. Prenturum sem ekki bjóða upp á svefnhamsstillingar er hægt að stjórna miðlægt þannig að það slokkni á þeim á ákveðnum tímum og kvikni aftur á þeim þegar prentbeiðni er send.  

3. Raftæki

Slökkva ætti á raftækjum öðrum en tölvum handvirkt yfir nóttina, helgar og hátíðir. Rafmagnstæki eyða ennþá orku á meðan þau eru í sambandi, jafnvel þótt þau séu stillt á biðstöðu.   

Til að auðvelda neytendum samanburð á orkunotkun heimilistækja er til samræmdur staðall Evrópusambandsins sem allir framleiðendur heimilistækja eru skyldugir að fylgja. Samkvæmt þessum staðli fá þvottavélar, uppþvottavélar, þurrkarar og eldavélar einkunn á skalanum A til G þar sem A stendur fyrir bestu orkunýtnina og G fyrir þá lökustu. Þessar orkumerkingar voru uppfærðar árið 2021 en eldri merkingar höfðu verið við lýði í 25 ár. Í dag munu mest orkusparandi vörurnar á markaðinum fá í upphafi merkinguna B eða C. Sumar vörur geta verið merktar með A en það er ekki eins algengt og áður þegar flest raftæki voru komin með merkinguna A++ eða A+++. 

3.3. Hvað get ég gert til að spara orku?

  • Uppþvottavél

    Fyllið uppþvottavélina áður en hún er sett í gang. Hún notar jafnmikla orku hvort sem mikið eða lítið er þvegið í einu. Notið sparnaðarprógramm, eða Eco prógramm, eins oft og kostur er. Notið eins lítið af uppþvottaefni og hægt er og notið eingöngu umhverfismerkt uppþvottaefni, til dæmis merkt með Evrópublóminu eða Svansmerkinu. Potta og önnur áhöld sem taka mikið rými, er ekki hagkvæmt að þvo í uppþvottavélinni. Þvoið upp sem fyrst svo að matarleifar nái ekki að þorna. Þá nægir styttra þvottakerfi og lægra hitastig. Skolið allar matarleifar burtu fyrst til þess að stífla ekki filterinn í uppþvottavélinni og þegar minna er um fituleifar á diskum þá nægir lægra hitastig. Hins vegar er gott að þvo á hærra hitastigi stöku sinnum inná milli til þess að drepa allar bakteríur í vélinni og til að þrífa vélina og losna við fitu sem gæti hafa safnast upp.  

 

  • Þvottavél

    Fyllið vélina af þvotti, það kostar álíka mikið að þvo lítinn og mikinn þvott. Notið ekki of hátt hitastig, hægt er að spara orkuna um þrjátíu prósent ef hitinn er lækkaður um þriðjung. Sleppið forþvotti ef þvotturinn er lítið óhreinn. Skolun með köldu vatni fyrir þvott getur sparað orku. Því lægri vatnshiti sem þvegið er við, því minni rafmagnsnotkun. Oft dugar að þvo við 40°C í stað 60°C. Merkingar á fötum sýna hámarkshita sem fötin þola en eru ekki leiðbeiningar um hvaða hita skal nota við þvott. Notið umhverfismerkt þvottaefni. Eins og með uppþvottavélina er þörf á að þvo stöku sinnum á hæsta hitastigi til þess að vélin hreinsi sig. 

 

  • Þurrkari

    Það sparar peninga og orku að hengja upp þvottinn auk þess sem það slítur þvottinum minna. Ef nauðsynlegt er að nota þurrkara þá er best að vinda þvottinn vel áður en hann er settur í þurrkarann. Hreinsið lósíuna eftir hverja notkun. Setjið hæfilegt magn af þvotti í þurrkarann, hvorki of mikið né of lítið. Hvort tveggja veldur meiri orkunotkun en ef þurrkað er hæfilegt magn í einu. Notið sparnaðarstillingu þegar henni verður við komið.  

 

  • Eldavél

    Gætið þess að potturinn sé hæfilega stór á helluna. Ef potturinn hefur minna þvermál en hellan erum við að sóa orku. Ósléttur botn á potti eða pönnu getur valdið aukinni rafmagnsnotkun. Notið þétt lok á pottinn og takið það ekki af meðan soðið er. Ef lokið er ekki á pottinum þarf þrefalt meiri orku en ella.  

 

  • Frystikista

    Æskilegt er að frystikistan sé á köldum stað. Því lægri sem umhverfishitinn er því minna rafmagn notar frystikistan. Hæfilegt hitastig í kistunni er um -18°C. Ef hitastigið er lægra eykst rafmagnsnotkunin. Gætið þess að kæliristin á bakhlið kistunnar sé hrein og að nóg loft geti leikið um hana. Innilokuð og rykug kælirist getur valdið meiri rafmagnsnotkun. Látið frystikistuna ekki ganga tóma og munið að tóm kista notar jafnmikið rafmagn og full.  

 

  • Ísskápur

    Hæfilegt hitastig í kæliskápnum er 4-5°C. Rafmagnsnotkun eykst um 4% fyrir hvert stig sem hitinn er lækkaður. Gætið þess að loftræsting sé nægjanleg bak við kæliskápinn. Léleg loftræsting getur valdið 5-10% meiri rafmagnsnotkun. Kæliskápa sem ekki eru með sjálfvirka afhrímingu þarf að þíða reglulega.