Hvernig hafa grænu skrefin áhrif á samgöngur?

Grænt skref í samgöngum er tækifæri fyrir Reykjavíkurborg til að sýna gott fordæmi í samgöngumálum, draga úr mengun og stuðla að betri borg. Hjólreiðar, ganga, almenningssamgöngur og notkun vistvænna bifreiða er meðal þess sem fellur undir vistvænar samgöngur. Grænt skref í samgöngum getur haft jákvæð áhrif á rekstur stofnunarinnar, fjárhag og heilsu starfsmanna auk þess að fela í sér samfélagslegan ávinning.

Losun vegna samgangna er langstærsti hluti allrar losunar innan borgarmarkanna. Samkvæmt losunarbókhaldi 2021 eiga bílasamgöngur í borginni 70% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda.  

Í aðgerðum Grænna skrefa eru fjölmargar leiðir til að auka enn frekar hlutfall vistvænna samgöngumáta, eins og að sjá til þess að nægar hjólagrindur séu til staðar sem og aðstaða til fataskipta, að bjóða starfsfólki upp á aðgang að rafhjóli eða rafbíl fyrir vinnutengdar ferðir, að bjóða upp á samgöngusamninga, strætómiða og hvetja starfsfólk og gesti til að tileinka sér vistvænni samgöngur. 

Í Evrópskri samgönguviku er fólk hvatt til þess að nota vistvænan ferðamáta í september. 

Hjólreiðar og ganga

Reykjavíkurborg hyggst auka hlutfall vistvænna ferða vegna starfsemi sinnar árlega. Vinnuveitendur hafa ýmis tól og tæki til að hvetja til aukinna hjólreiða og göngu vegna erinda starfsmanna. Starfsfólki skulu standa til boða rafhjól eða hefðbundin hjól vegna styttri vinnutengdra ferða og persónulegra erinda, ef á þarf að halda. Ef starfsmenn koma á hjóli til vinnu er þeim þó heimilt að nota bíla á vegum vinnustaðarins ef nauðsyn krefur vegna persónulegra erinda.

Reykjavíkurborg býður starfsfólki sínu að gera samgöngusamning en það er styrkur til starfsmanna sem nota virkan eða vistvænan ferðamáta til og frá vinnu að minnsta kosti 4 sinnum í viku. Aðstaða fyrir hjólandi og gangandi starfsfólk skal vera til fyrirmyndar. Hjólastæði eiga að vera til staðar við vinnustaði og aðstaða fyrir starfsfólk til að skipta um föt.

Hjólað í vinnuna er heilsu- og hvatningarverkefni á vegum almenningsíþróttasviðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Meginmarkmið átaksins er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Það má líka reikna út gönguferðir í og úr strætó sem sitt framlag í Hjólað í vinnuna keppnina.  

Á vef vistorku getur þú skoðað hversu langan tíma það tekur að hjóla eða ganga í vinnuna. Oftast er það mun styttra en talið er. 

Strætó

Á heimasíðu Strætó er að finna allar helstu upplýsingar um leiðakerfi og gjaldskrár. Tilvalið er að hengja upp kort á kaffistofu og á innri vef, þar sem sýndar eru þær leiðir sem liggja að vinnustaðnum. Í Grænum skrefum er einnig gert ráð fyrir því að yfirlitskort yfir strætóleiðir sé sýnilegt fyrir gesti stofnunarinnar til þess að auðvelt sé að átta sig á því hvaða vagnar ganga í nágrenni við stofnunina. Stofnunin getur einfaldað aðgengi að strætó verulega með því að kaupa Klapp-tíu kort og hafa til reiðu fyrir starfsfólk sem á þarf að halda. Starfsmönnum skal bent á möguleikann að taka hjólið með sér í strætó eða samtvinna ferðamáta á annan hátt. Þar sem rafhlaupahjól eru einnig oft staðsett við biðstöðvar væri auðvelt að blanda vistvænum ferðamátum eins og hlaupahjóli og strætó til þess að komast til og frá vinnu. 

Leigubílar

Ef pantaður er leigubíll fyrir starfsfólk þá þarf að taka það fram við pöntun að óskað sé eftir vistvænum bíl. Hægt er að skrá það í reikningsviðskipti hjá leigubílafyrirtækinu að í hvert sinn sem pantaður er leigubíll á vegum stofnunar eigi ávallt að senda vistvænan bíl á staðinn ef slíkur bíll er laus. Eftirspurn stofnana borgarinnar eftir hreinorkubílum hefur aukist og að sama skapi eykst framboð leigubíla sem eru rafknúnir, metan- eða vetnisknúnir. Það er því orðið lítið mál núna að fá vistvænan bíl sé óskað eftir því. 

Vistakstur

Verði ekki komist hjá því að nota bíl á vinnutíma gera aðgerðir Grænna skrefa ráð fyrir því að vinnubíllinn sé rafknúinn eða metanknúinn og að ökumaður þekki til vistaksturs. Markmið vistaksturs er hagkvæmari og umhverfisvænni akstur. Gott er að tileinka sér að aka alltaf á jöfnum hraða, það mengar meira að vera sífellt að stíga á bremsurnar og taka af stað. Mesta orkunotkunin er þegar bíllinn er að setja kraft í að auka hraðann úr nánast kyrrstöðu. Þar að auki eru umferðarljósin stillt þannig að ökumenn geti alltaf náð grænu ljósi aki þeir ekki hraðar en á 50-60km jöfnum hraða. 

Með því að tileinka sér vistakstur má draga verulega úr viðhaldsþörf bíla, útblæstri og eldsneytisnotkun og ökumaður verður meðvitaðari um aksturslag sitt. Kostirnir eru því meiri sparnaður, minni mengun, meira öryggi og oft sparast einnig tími með vistakstri. Hægt er að fara á námskeið í vistakstri hjá mörgum ökukennurum og ökuskólum. 

Lengri ferðalög

Huga ætti að því að kolefnisjafna flug vegna vinnutengdra ferða. Kolefnisjöfnun miðar að því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Einnig er gott að takmarka millilendingar í flugi og best er að velja flug þar sem hægt er að fljúga beint á áfangastað. Þar sem lestarsamgöngur standa til boða skulu þær valdar vegna minni umhverfisáhrifa en ef bílaleigubíll verður fyrir valinu skal velja vistvænan bíl eftir því sem kostur er. Lengri ferðir starfsmanna skulu ávallt skipulagðar þannig að valdi sem minnstum umhverfisáhrifum bæði á lofti sem á jörðu niðri. Í grænu bókhaldi Grænna skrefa er hægt að finna leiðbeiningar um hvernig hægt er að reikna út losun vegna flugferða.