Grænu skrefin fjögur

Græn skref í starfsemi Reykjavíkur er fjögurra skrefa umhverfisstarf sem með einföldum og skipulögðum hætti innleiðir umhverfisvænar aðgerðir. Í hverju skrefi eru sjö flokkar og innan hvers flokks eru aðgerðir sem saman í heild mynda gátlista sem hver vinnustaður þarf að fylla út. 

 

Sjö umhverfisflokkar

Sumir vinnustaðir hafa þegar byrjað með umhverfisaðgerðir í einhverri mynd og geta ef til vill þegar uppfyllt fleiri en eitt skref í einu. Stofnanir sem þegar hafa vottað ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfi eða hafa innleitt annars konar umhverfisstarf eins og Grænfánann eiga auðveldara með að innleiða Grænu skrefin.  

Rafmagn og húshitun

Í flokkinum Rafmagn og húshitun er lögð áhersla á að draga úr orkunotkun og kostnaði með því að nýta þá eiginleika raftækja sem bjóða upp á orkusparnað og hámarksorkunýtingu, svo sem Eco stillingar, LED perur og hreyfiskynjarar. Einnig er ýtt undir almenna vitundarvakningu með því að hvetja starfsfólk til að huga að orkusparandi aðgerðum eins og að draga fyrir glugga í kulda og nýta sólarljós í stað raflýsingar. 

Skref 1 

 • Raftæki á borð við tölvur og prentara eru stillt þannig að tækin fara í sparnaðarstillingu þegar þau eru ekki í notkun. 
 • Við veljum sparnaðarstillingu á uppþvotta- og þvottavélum og forðumst að gangsetja hálffullar vélar. 
 • Við slökkvum á öllum ljósum í þeim rýmum sem eru ekki í notkun og öll ljós í lok dags. Sérstaklega er hugað að fundarherbergjum, geymslum og þar sem dagsbirtu nýtur við. 
 • Við höfum komið fyrir áminningarmiðum við rofa og valdar útgönguleiðir þar sem minnt er á að slökkva ljós í lok dags og á raftækjum þegar þau eru ekki í notkun. 
 • Merkingar eru við lyftur þar sem starfsmenn og gestir eru hvattir til að nota stiga í stað lyftu 

Skref 2 

 • Við endurnýjun ljósgjafa eru ávallt valdar perur eða lýsing með bestu orkunýtni, svo sem LED. 
 • Við minnum starfsfólk á að slökkva á raftækjum og fjöltengjum við þau raftæki sem eru í lítilli notkun til að spara orku. 
 • Við nýtum sólarljósið til hins ýtrasta til að draga úr notkun raflýsingar og kyndingar. 

Skref 3 

 • Við höfum kynnt okkur ýmsar leiðir til orkusparnaðar við húshitun. 
 • Við sendum áminningu í tölvupósti til allra starfsmanna fyrir stórhátíðir og í upphafi orlofstíma um hvernig hægt er að spara rafmagn og hita þegar gengið er frá fyrir frí. 
 • Við vöktum og skráum árlega raforku- og hitanotkun á vinnustaðnum og setjum okkur markmið um að draga úr notkuninni 

Skref 4 

 • Þar sem viðvera er lítil, svo sem á snyrtingum og í geymslum eru hreyfiskynjarar í stað rofa. Þar sem ekki er hægt að setja upp slíka hreyfiskynjara eru áminningarmiðar um að slökkva ljósin. 

Flokkun og minni sóun

Í þessum flokki er áhersla lögð á rétta flokkun úrgangs og réttar merkingar á flokkunarílátum. Einnig eru aðgerðir til þess að draga úr úrgangi og almennri sóun til dæmis með því að minnka útprentun og endurnýta það sem til er.

Skref 1

 • Við flokkum að lágmarki í 5 úrgangsflokka á kaffistofum, mötuneytum og annars staðar þar sem úrgangur fellur til (til dæmis plast, pappa, almennt, málma og lífrænt eða bylgjupappa). Öll ílát eru merkt með viðkomandi úrgangsflokki og flokkunartaflan er sýnileg öllum á vinnustaðnum og starfsmenn eru vel upplýstir um flokkun og endurvinnslu.
 • Við flokkum gæðapappír (hvítan skrifstofupappír), dagblöð, tímarit og skilagjaldsumbúðir.
 • Við flokkum spilliefni eins og lög og reglur kveða á um, svo sem rafhlöður, prenthylki, málningarafganga, flúrperur og skilum til ábyrgrar förgunar.
 • Við prentum báðum megin á blöð þegar það er mögulegt. Prentun á báðar hliðar og í svart-hvítu ætti að vera sjálfgild stilling á tölvum starfsmanna.
 • Við endurnotum pappír sem prentað er á öðrum megin. Við prentara og ljósritunarvélar er ílát þar sem slíkum pappír er safnað saman og hann til dæmis nýttur sem minnisblöð.
 • Við notum margnota umslög fyrir innanhússpóst og hvetjum til notkunar þeirra í stað einnota umslaga.
 • Við útgáfu kynningarefnis og annars efnis bjóðum við ávallt upp á rafræna útgáfu sem lesendur geta valið í stað pappírsútgáfu.

Skref 2

 • Við flokkum í sex úrgangsflokka (málma, pappa og pappír, plast, gler, skilagjaldsumbúðir og lífrænn úrgangur) til endurvinnslu á kaffistofum, í mötuneytum og annars staðar þar sem umbúðaúrgangur fellur til. Rafhlöður eru flokkaðar sérstaklega. 
 • Við flokkum í aðra flokka eftir þörfum, svo sem gæðapappír (hvítur skrifstofupappír), bylgjupappa, spilliefni og svo framvegis. 
 • Engin ílát eru undir almennt rusl við vinnuaðstöðu starfsfólks. Úrgangur sem fellur til er settur í tilheyrandi flokkunartunnur í sameiginlegum rýmum. 
 • Útbúinn hefur verið sérmerktur staður sem starfsmenn þekkja og geta nálgast fyrir skristofuvörur og allt smálegt sem gengur að endurnýta. Dæmi um slíkar vörur eru pennar, umslög, límmiðar. 
 • Við endurnýtum umbúðir svo sem innkaupapoka, kassa og annað sem fellur til við innkaup og notkun á vörum 
 • Við höfum kynnt okkur Eco-printing stillingar til að lágmarka notkun á prentsvertu og hvetjum starfsfólk til að nýta sér þær. 

Skref 3

 • Flokkunarílát, að minnsta kosti 3 flokkar, hafa verið sett upp í almennum rýmum. 
 • Óskað hefur verið eftir því við alla birgja að nota margnota flutningskassa í stað einnota, til dæmis undir ávexti og aðra matvöru.  
 • Við hvetjum starfsmenn okkar til að nota rafrænt kynningarefni og símavæna framsetningu í stað útprentaðs efnis. 

Skref 4

 • Á snyrtingum er notaður endurunninn, umhverfisvottaður pappír til handþurrkunar. 
 • Við endurnýjun húsgagna eða annarra heillegra hluta reynum við að koma þeim í endurnýtingu með því að auglýsa og stuðlum þannig að eflingu hringrásarhagkerfis. 
 • Við höfum gert greiningu á því hvar helst er hægt að draga úr myndun úrgangs og unnið minnst eina aðgerð til að bregðast við því.

 

Viðburðir og fundir

Við leitumst við að hafa alla viðburði og stærri fundi sem umhverfisvænsta með því að fylgja gátlista Umhverfisstofnunar um sjálfbæra viðburðaskipulagningu. Þar ber að hafa í huga hvers konar veitingar boðið er upp á og í hvernig umbúðum, hvar viðburðurinn er haldinn, hvernig samgöngumöguleikar eru til að komast á staðinn og það þarf einnig að hafa í huga hvernig vörur verða fluttar á staðinn.

Skref 1 

 • Við bjóðum upp á kranavatn en ekki vatn í einnota drykkjarumbúðum. 
 • Við hvetjum þátttakendur til að huga að umhverfinu og nýta sér vistvæna ferðamáta til og frá fundum og viðburðum, til dæmis með neðanmálsgrein í tölvupósti. 
 • Við kaupum ekki einnota drykkjarmál og borðbúnað, ef ekki er komist hjá því eru notaðar umhverfismerktar eða niðurbrjótanlegar vörur ("compostable"). Bent er á borðbúnaðarleigu fyrir stærri viðburði. 

Skref 2 

 • Á viðburðum forðumst við að dreifa smávöru (gefins) eða prentgögnum. Það er gert eingöngu ef nauðsyn krefur. 
 • Við höfum aðgang að fjarfundabúnaði og hvatt er til fjarfunda þegar við á. 
 • Starfsmenn nota vistvæna ferðamáta á viðburði eins og kostur er (til dæmis hjól, hlaupahjól, samakstur). 
 • Við bjóðum upp á máltíðir og snarl í umhverfisvænum umbúðum. 
 • Gestir hafa aðgang að ílátum undir flokkaðan úrgang, að lágmarki fyrir pappír, plast og skilagjaldsumbúðir, á öllum viðburðum og útisamkomum á okkar vegum. 
 • Á öllum fundum og viðburðum á vegum vinnustaðarins eru ekki notuð einnota smábréf undir til dæmis vökva, salt, sykur, sósur og fleira, eftir því sem við verður komið. 

Skref 3 

 • Til að koma í veg fyrir myndun úrgangs á fundum og viðburðum á okkar vegum notum við margnota ílát undir til dæmis vatn, salt, sykur og mjólk og veljum vörur í stærri einingum. 
 • Á viðburðum innandyra bjóðum við nær eingöngu upp á umbúðalausar veitingar, eða höldum umbúðum í lágmarki og höfum þær umhverfisvænar. 
 • Við leggjum áherslu á fjölbreytt val veitinga úr plönturíkinu á fundum og viðburðum. 

Skref 4 

 • Við höfum sjálfbærni að leiðarljósi við skipulagningu viðburða og fylgjum gátlista í handbók um vistvænni viðburði. 
 • Á viðburðum á okkar vegum bjóðum við upp á lífrænt ræktað og/eða siðgæðisvottað ("Fair trade") kaffi og te. 
 • Ef veitingar frá viðburðum verða afgangs er leitað leiða til að forða þeim frá því að enda sem úrgangur, til dæmis með því að gefa hjálparsamtökum eða bjóða starfsfólki að taka með sér heim.  
   
 • Handbók um sjálfbæra viðburði.

Samgöngur

Í flokkinum Samgöngur er lögð áhersla á að ferðast til og frá vinnu með virkum hætti. Vinnuveitendur geta hvatt fólk til að hvíla bílinn heima með því að betrumbæta innviði fyrir hjól eða hlaupahjól, bjóða upp á samgöngusamning, strætómiða til að nota á vinnutíma eða rafknúinn vinnubíl til að sinna vinnutengdum erindum.

Skref 1 

 • Fyrir utan vinnustaðinn eru hjólastæði fyrir starfsmenn og gesti. 
 • Starfsfólk okkar getur nálgast aðgöngukort (Klappkort) fyrir strætó á vinnustaðnum vegna vinnutengdra ferða. 
 • Við höfum hvatt starfsfólk okkar til að nýta sér umhverfisvænni ferðamáta til og frá vinnu með því að bjóða upp á samgöngusamninga og kynna reglulega kosti þeirra. 
 • Vinnustaðurinn tekur þátt í átakinu Hjólað í vinnuna eða Lífshlaupinu til að ýta undir virka ferðamáta.  

Skref 2 

 • Starfsfólk okkar hefur aðgang að rafhjóli, hlaupahjólum eða öðrum vistvænum ferðamáta fyrir styttri vinnutengdar ferðir eða persónuleg erindi á vinnutíma. 
 • Við höfum aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi starfsfólk til að hengja af sér blautan fatnað. 
 • Við óskum ávallt eftir vistvænum leigubíl (raf- eða metan) þegar leigubíll er pantaður. 
 • Við bjóðum starfsfólki upp á yfirbyggða geymslu fyrir hjól. 

Skref 3 

 • Starfsmenn samnýta ferðir á fundi, til dæmis með vistvænum leigubíl. 
 • Við endurnýjun vinnubíla, eða fyrstu kaup, er keyptur rafbíll eða metanbíll. 
 • Tenging fyrir rafbíla er við vinnustaðinn. 
 • Við höfum tryggt að allt starfsfólk fái leiðbeiningar eða tilsögn í notkun rafhjóla, rafhlaupahjóla eða rafbíla og nýti sér þá kosti sem í boði eru. 

 Skref 4 

 • Meirihluti bíla vinnustaðarins gengur fyrir vistvænum orkugjafa. 
 • Við vöktum árlega notkun okkar á jarðefnaeldsneyti og setjum okkur markmið um að draga úr notkuninni. Einnig er hægt að kaupa kolefnisjöfnunareiningar. 
 • Við höfum vakið athygli á vistvænum samgöngumátum við okkar viðskiptavini, skjólstæðinga, gesti og aðra sem tengjast okkar starfsemi (til dæmis með því að setja fram upplýsingar um hjóla- eða strætóleiðir á vef, í tölvupóst eða upplýsingatöflu). 

Hvernig hafa Grænu skrefin áhrif á samgöngur?

Grænt skref í samgöngum er tækifæri fyrir Reykjavíkurborg til að sýna gott fordæmi í samgöngumálum, draga úr mengun og stuðla að betri borg. Hjólreiðar, ganga, almenningssamgöngur og notkun vistvænna bifreiða er meðal þess sem fellur undir vistvænar samgöngur. Grænt skref í samgöngum getur haft jákvæð áhrif á rekstur stofnunarinnar, fjárhag og heilsu starfsmanna auk þess að fela í sér samfélagslegan ávinning.

Eldhús og kaffistofur

Ekki allir vinnustaðir hafa mötuneyti en flestallir bjóða upp á einhvers konar aðstöðu til að matast. Hvort sem er í mötuneyti eða kaffistofum er leitast við að bjóða ekki upp á matvörur í smáumbúðum, ekki einnota hnífapör eða önnur áhöld, bjóða upp á lífrænt kaffi og te og draga úr matarsóun með ýmsum leiðum.

Skref 1 

 • Á kaffistofum og í mötuneyti eru eingöngu notuð margnota borðbúnaður og eldhúsáhöld. 
 • Vinnustaðurinn beitir sér fyrir því að draga úr notkun einnota burðarpoka og eru margnota burðarpokar fyrir útréttingar starfsmanna í boði á áberandi, vel merktum stað. 
 • Við beitum okkur fyrir því að draga úr matarsóun og höfum kallað eftir ábendingum frá starfsmönnum um hvað megi betur fara í baráttunni gegn matarsóun á vinnustaðnum. 

Skref 2 

 • Við notum umhverfisvottaðar sápur og hreinsiefni í uppþvottavélar og þvottavélar. 
 • Við notum einungis umhverfisvottaðar pappírsþurrkur og servíettur þegar þeirra er þörf. 
 • Við bjóðum ekki upp á sykur, salt, sultu og því um líkt í smáumbúðum. 
 • Vinnustaðurinn hefur gert athugun á magni matarsóunar frá eldhúsi/mötuneyti í minnst 1 viku á árinu og miðlað niðurstöðum til starfsfólks. 
 • Við bjóðum eingöngu upp á lífrænt og/eða siðgæðisvottað ("Fair trade") kaffi og te. Á einnig við um kröfur okkar til aðkeyptrar kaffiþjónustu. 
   
 • Meira um umhverfisvottaðar sápur og hreinsiefni

Skref 3 

 • Við höfum innleitt minnst eina aðgerð til að draga úr matarsóun (til dæmis skráning í mat, hvatning til starfsmanna, fræðsla, minni skammta, breyta úrvali matvæla, leyfa fólki að taka afganga heim). 
 • Í mötuneytum og kaffistofum eru upplýsingar til starfsmanna og gesta um að draga úr matarsóun (tilkynningar, áminningarlímmiðar, eða ísskápsseglar með upplýsingum).
   
 • Plakat um matarsóun og umbúðir

Skref 4 

 • Við höfum dregið úr plastnotkun með því að sleppa pokum í flokkunarílátum þar sem það er hægt, til dæmis undir hreinan pappír eða hreint plast. 
 • Á þeim vinnustöðum þar sem eldað er á staðnum er allri notaðri olíu og fitu safnað í ílát og skilað til endurvinnslu. 

Innkaup

Í gegnum grænu skrefin eru vistvæn innkaup innleidd hjá öllum stofnunum borgarinnar með því að gera innkaupagreiningu, þekkja umhverfismerkin og umbúðamerkingar og sjá til þess að þjónustuaðilar þeir sem stofnanir skipta við hafi virka umhverfisstefnu.

Skref 1

 • Við íhugum vel þörfina áður en við kaupum inn til dæmis hvort nýta megi betur, samnýta, fresta innkaupum eða gera við. 
 • Við kaupum orkusparandi raftæki samkvæmt orkuflokkum Evrópusambandsins. 
 • Við kaupum einungis umhverfisvottaðan prentpappír samkvæmt rammasamningum Reykjavíkurborgar og þykkt pappírs sem við notum til prentunar og ljósritunar er 80 g/m2 eða minni. 
 • Við kaupum einungis hreinlætis- og ræstivörur sem eru umhverfisvottaðar (bera umhverfismerki). 
 • Við kaup á efnavöru, svo sem málningu, lím, lakk og annan efnivið, forðumst við að velja efni sem eru hættuleg umhverfinu (bera varúðarmerkingar) 
 • Allir innkaupaaðilar á vinnustaðnum hafa kynnt sér vistvæn innkaup og nýtt upplýsingar af heimasíðu Grænna skrefa til leiðbeininga. 
   
 • Meira um umhverfismerkingar
 • Meira um varúðarmerkingar

Skref 2

 • Vinnustaðurinn hefur gert þarfagreiningu fyrir innkaup. 
 • Við biðjum birgja um upplýsingar um vistvæna valkosti og höfum í huga umhverfisáhrif vöru við innkaup. 
 • Þegar keypt eru skrifstofuhúsgögn eða önnur húsgögn könnum við hvort til séu notuð húsgögn, eða hægt sé að gera við áður en keypt eru ný. 
 • Við lágmörkum innkaup á smápappír eins og minnismiðum, skilaboðamiðum og post-it miðum og notum í staðinn pappír sem fellur til á vinnustaðnum. 
 • Við innkaup á matvælum hugum við að því að lágmarka matarsóun með góðri stýringu á því hvað keypt er inn. 

Skref 3

 • Við kaupum ekki vörur sem innihalda plastagnir / örplast. 
 • Umslög og annað bréfsefni sem við notum er umhverfismerkt. 
 • Við kaup á ræstiþjónustu er valinn þjónustuaðili sem hefur umhverfisvottun. 
 • Við höfum dregið úr notkun einnota rafhlaðna og notum hleðslurafhlöður þar sem því verður komið við. 
 • Þegar unnið er að verðfyrirspurnum skal hafa umhverfisviðmið í fyrirspurnargögnum í samráði við innkaupaskrifstofu. 
   
 • Meira um umhverfisviðmið

Skref 4

 • Við kaup á utanaðkomandi þjónustu veljum við aðila sem hafa virka umhverfisstefnu og/eða vottað umhverfisstjórnunarkerfi. 
 • Við innkaup á skrifstofumunum veljum við húsgögn, málningu, efnivið og þess háttar án rokgjarnra efna (VOC) og tryggjum að þau mengi andrúmsloftið lítið eða ekkert við uppsetningu og notkun. 
 • Við leitumst við að kaupa ekki vörur sem innihalda pálmaolíu og veljum aðrar vörur í staðinn. 
   
 • Meira um rokgjörn efni

Miðlun og stjórnun

Í flokkinum miðlun og stjórnun er áhersla lögð á að upplýsa allt starfsfólk vinnustaðarins um stöðu mála í grænum skrefum og kalla eftir ábendingum frá þeim um umhverfismál. Skylda er að fylla út grænt bókhald og skila til Grænna skrefa.

Skref 1 

 • Við höfum skipað umhverfisteymi sem sér til þess að aðgerðir Grænna skrefa nái fram að ganga og svo tengilið sem sér um samskipti við verkefnisstjórn Grænna skrefa. 
 • Við höfum kynnt Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar, heimasíðu Grænna skrefa og þátttöku vinnustaðarins fyrir öllu starfsfólki. 
 • Starfsmenn okkar eru hvattir til að líka við síðu Grænna skrefa á Facebook og á Workplace, sem er einnig umræðuvettvangur. 
 • Við höfum fundað með starfsmönnum um framgang verkefnisins og safnað saman ábendingum um hvað megi betur fara í umhverfismálum á vinnustaðnum. Stjórnendur hafa verið upplýstir um ábendingar. 
 • Við höfum sett upp áminningarlímmiða sem tengjast aðgerðunum í skrefi 1.

Skref 2 

 • Vinnustaðurinn hefur byrjað að kynna sér grænt bókhald á heimasíðu Grænna skrefa. 
 • Við höfum fundað með starfsmönnum um framgang verkefnisins og safnað saman ábendingum um hvað megi betur fara í umhverfismálum á vinnustaðnum. Ábendingar hafa verið lagðar fram fyrir stjórnendur. 

Skref 3 

 • Starfsfólk okkar hefur fengið fræðslu um umhverfismál, hvernig megi draga úr orkunotkun, flokka úrgang og nýta vistvænni samgöngumáta. 
 • Við höfum látið húseiganda eða rekstrarfélag skriflega vita af umhverfisstarfi okkar og óskað eftir samstarfi um úrbætur í umhverfismálum til dæmis aðstöðu fyrir flokkun úrgangs, aðstöðu fyrir hjól eða tengi fyrir rafbíla. Einnig höfum við látið nágranna sem deila með okkur húsnæði vita af þátttöku okkar í Grænum skrefum. 
 • Vinnustaðurinn hefur byrjað að vinna í grænu bókhaldi og skoðað helstu flokka sem þar þarf að færa inn. 
 • Við höfum fundað með starfsmönnum um framgang verkefnisins og safnað saman ábendingum um hvað megi betur fara í umhverfismálum á vinnustaðnum. Ábendingar hafa verið lagðar fram fyrir stjórnendur. 

Skref 4 

 • Við höfum vakið athygli útávið á þeim árangri sem við höfum náð í vistvænni starfsemi og þannig hvatt aðra til góðra verka. 
 • Vinnustaðurinn færir grænt bókhald og skilar inn til graenskref@reykjavik.is árlega hér eftir. 
 • Vinnustaðurinn hefur kynnt helstu niðurstöður úr grænu bókhaldi fyrir starfsfólki og sett sér markmið til að draga úr útblæstri, sóun eða aðrar úrbætur. 
 • Við tökum þátt í einhverju umhverfisverkefni umfram það sem Grænu skrefin segja til um, til dæmis Samgönguviku, Nýtniviku, strandhreinsun, plokki og fleiru.