Öruggt og viðeigandi húsnæði

Leirtjörn og Hallar í Úlfarsárdal

Ráðist verður í metnaðarfullt húsnæðisátak næsta áratuginn og byggðar allt að 16.000 nýjar íbúðir fram til ársins 2034. Þetta kemur fram í nýrri Húsnæðisáætlun Reykjavíkur sem samþykkt var á fundi borgarráðs í gær.

Áhersla verður lögð á að byggja húsnæði sem hentar fjölbreyttum hópum samfélagsins, þar á meðal ungu fólki, fyrstu kaupendum, tekjulágum, eldri borgurum og fólki með sértækar þarfir. Markmið borgarinnar er að 35% allrar nýrrar uppbyggingar verði á vegum óhagnaðardrifinna uppbyggingarfélaga eða í formi félagslegs leiguhúsnæðis. Með þessu á að stuðla að jafnvægi í félagslegri blöndun, auknum jöfnuði og heilbrigðari húsnæðismarkaði.

Byggjum borg fyrir fólk

„Við byggjum borg fyrir fólk, ekki bara fasteignir,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri í ávarpi sínu. „Við ætlum að tryggja að íbúar hafi raunverulegan aðgang að öruggu og viðeigandi húsnæði.“

Samstarf um hraðari uppbyggingu

Borgin hyggst vinna náið með verkalýðshreyfingunni, óhagnaðardrifnum félögum, ríkinu og lífeyrissjóðum til að hraða uppbyggingu á uppbyggingarsvæðum borgarinnar, m.a. í Höllum í Úlfarsárdal og víðar. Jafnframt verður lögð áhersla á sjálfbæra byggð í nálægð við vistvænar samgöngur, þjónustu og græn svæði, í samræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2040, en þar mun Borgarlína mynda hryggjarstykkið á uppbyggingar- og samgönguásum borgarinnar.

Nánari upplýsingar: