Fræðsluefni um hatursorðræðu og skaðlega orðræðu

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa hefur útbúið fræðsluefni um hatursorðræðu og skaðlega orðræðu í samræmi við aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022-2024. Efnið er aðgengilegt fyrir öll en því fylgja raunhæf verkefni og umræðupunktar svo að hægt sé að nýta það í kennslu í unglingadeildum grunnskóla eða í framhaldsskólum. 

Staðalmyndir og fordómar

Farið er yfir hugtökin staðalmyndir og fordómar. Staðalmyndir eru hugmyndir sem við tengjum ákveðnum hópnum og geta verið bæði jákvæðar og neikvæðar. Allar staðalmyndir geta þó ýtt undir fordóma og hamlað því að einstaklingurinn sé metinn á eigin forsendum.

Lýðræði

Í lýðræði felst að öll eiga jafnan rétt á að hafa áhrif á stjórn samfélagsins. Farið er yfir grunnþætti lýðræðisins og hvernig það birtist í samfélaginu. Mismunun, fordómar og skorður sem samfélagsgerð okkar setur getur orðið til þess að við njótum ekki öll jafnra tækifæra. Það er lykilatriði ef tryggja á lýðræðislega þátttöku að öll eigi kost á að taka þátt í umræðunni á jafnræðisgrunni.

Falsfréttir og miðlalæsi

Þegar uppspuna er deilt undir þeim formerkjum að um raunverulegar staðreyndir sé að ræða og með það að markmiði að hafa áhrif á skoðanir fólks er talað um falsfréttir. Samfélagsmiðlar og internetið hafa gert það að verkum að auðvelt er að deila upplýsingum með fjölda fólks á mettíma, en jafnframt verður erfiðara að greina uppruna og réttmæti upplýsinga.

Hatursorðræða og skaðleg orðræða

Hatursorðræða eru umæli eða önnur hatursfull tjáning sem sé beint að vel afmörkuðum hópi, hann tengdur við óæskilega eiginleika og lögð áhersla á að hann sé óæðri. Það getur verið snúið að koma auga á hatursorðræðu. Hún getur verið falin í setningu sem virðist í fyrstu rökrétt og eðlileg, en þegar betur er að gáð er þar að finna niðurlægjandi eða hatursfull skilaboð í garð tiltekins hóps fólks. Hatursfull skilaboð geta einnig verið hættuleg þó svo að þau nái ekki því alvarleikastigi að falla undir ákvæði almennra hegningarlaga yfir hatursorðræðu. Sú orðræða er skaðleg samfélaginu og getur m.a. verið undanfari hatursorðræðu og hatursglæpa. 

Myndbönd

Hér má finna skjal með hlekkjum á stutt myndbönd sem fjalla um fordóma, staðalmyndir og hatursorðræðu.

Raunhæft verkefni

Verkefnið fær þátttakendur til að velta fyrir sér hvernig hatursorðræða verður til, breiðist út og hefur áhrif á einstaklinga og samfélagið.

Umræðupunktar

Hér má finna umræðupunkta í formi spurninga sem að hægt er að nota með fræðsluefninu um hatursorðræðu og skaðlega orðræðu. Eins eru gefin svör við spurningunum.

Nánari upplýsingar

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa veitir nánari upplýsingar um fræðsluefnið.