Nýtt flokkunarkerfi sorphirðu

Reykjavíkurborg tekur upp nýtt og samræmt flokkunarkerfi sorphirðu í samvinnu við nágrannasveitarfélög. Skylt varð að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við heimili með lögum um hringrásarhagkerfi, sem tóku gildi í janúar 2023. Þetta er stórt umhverfismál en með réttri flokkun er hægt að minnka sóun og endurnýta verðmæti í stað þess að þeim sé hent.  

Fjórir flokkar

Flokkarnir fjórir eru: Pappír og pappi, plastumbúðir, matarleifar og blandaður úrgangur. 

 

Fjórir flokkar þýðir ekki að fólk muni endilega hafa fjórar tunnur við heimili sitt. 

 

Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er.

 

Samhliða þessum breytingum verða tunnurnar tæmdar oftar. Nú verður pappír og plast tæmt á tveggja vikna fresti en hirðutíðnin var áður þrjár vikur.

Hvenær verður tunnunum skipt út?

Íbúar þurfa ekki að grípa til neinna aðgerða hvað varðar tunnuskipti. Byrjað verður að dreifa nýjum tunnum um miðjan maí og og lýkur breytingunum í september.

  • Kjalarnes, Grafarvogur, Grafarholt og Úlfarsárdalur fá nýjar tunnur í maí.
  • Árbær og Breiðholt fá nýjar tunnur í júní.
  • Háaleiti og Bústaðir fá nýjar tunnur í júní og júlí.
  • Laugardalur fær nýjar tunnur í júlí.
  • Miðborg og Hlíðar fá nýjar tunnur í ágúst.
  • Vesturbær fær nýjar tunnur í september.

Tunnuskipti

Hvernig tunnur fæ ég?

Sérbýli: Þar sem eru þrír íbúar eða færri verða tvær tvískiptar tunnur. Önnur verður fyrir blandaðan úrgang og matarleifar  og hin fyrir pappír og plast.

 

Þar sem íbúar eru fjórir eða fleiri verða þrjár tunnur. Sem fyrr verður ein fyrir blandaðan úrgang og matarleifar og blá tunna fyrir pappír og græn fyrir plast.

 

Fjölbýli: Í stærri fjölbýlum verða ekki notaðar tvískiptar tunnur heldur aðeins heilar tunnu. Gráum tunnum fyrir blandaðan úrgang verður skipt út fyrir tunnur undir endurvinnsluefni.

 

Í litlum fjölbýlum með þremur eða færri íbúðum verða notaðar tvískiptar tunnur fyrir blandaðan úrgang og matarleifar og bláar og grænar tunnur fyrir plast og pappír.

Þarftu fleiri eða stærri tunnur?

Allir þurfa að flokka í fjóra flokka við heimili en íbúar geta haft áhrif á fjölda tunna. Tunnum fjölgar þar sem ekki voru endurvinnsluílát fyrir. Að lágmarki er hægt að hafa tvær tvískiptar tunnur í sérbýli með þremur eða færri íbúum.

Hvað ef ég þarf að breyta sorpgerðinu hjá mér?

Sérbýli: Ef þú þarft að setja skýli eða stækka það þá þarf að gæta þess að nauðsynlegt er að fá samþykki eiganda aðliggjandi lóðar ef aðstaðan er nær lóðamörkum en þrír metrar. Sorpgerði má ekki opnast út á borgarland.

Við uppsetningu sorpgerðis þarf að hafa í huga að gönguleið sé greið og örugg. Mælst er til þess að huga að því að gönguleið sé stutt en sérstakt aukagjald er lagt á ef gönguleiðin er lengri en 15 metrar.

Fjölbýli: Ef reisa á sorpgerði eða -skýli á lóð fjöleignarhúsa þarf að sækja um byggingarleyfi hjá byggingarfulltrúa.

Stærð á tunnum

Tegund  Hæð (mm) Breidd (mm) Dýpt (mm)
140 lítra 1100 505 555
240 lítra 1169 580 724
360 lítra 1150 590 880
660 lítra 1225 1255 775

 

240 lítra tunna er algengasta stærðin eins og á tvískiptum tunnum og bláum og grænum tunnum fyrir pappír og plast.

Viltu vita meira?

Almenningur hefur lengi kallað eftir sérsöfnun á lífrænum úrgangi og samræmingu á flokkunarkerfi við heimili á höfuðborgarsvæðinu. Þetta felur í sér betri þjónustu við íbúa. Allar almennar upplýsingar um nýtt flokkunarkerfi og söfnun á matarleifum er að finna á vef Sorpu.

Spurt og svarað um nýtt flokkunarkerfi

Þarf ég að vera með fleiri en eina tunnu?

Já, samkvæmt nýjum lögum verður að safna matarleifum, pappír og plasti við hvert heimili. Auk þess þarf að vera tunna fyrir blandað sorp. Alls eru því tunnur eða hólf fyrir fjóra flokka.

Hversu mikið pláss taka tvískiptu tunnurnar?

Tvískiptar tunnur eru sömu stærðar og gráu tunnurnar undir blandað sorp sem hafa verið í borginni, 240 lítrar og 58 sentimetrar á breidd. Tunnunum er skipt upp í hlutfallinu 60/40. Minna minna hólfið er 96 lítrar og stærra hólfið 144 lítrar.

Ef tunnum er raðað hlið við hlið þá ráðleggjum við að hafa 10 sentimetra á milli þeirra.

Er hægt að biðja um að fá tvískipta tunnu fyrir pappír og plast í staðinn fyrir að hafa tvær stakar tunnur?

Já, ef þú býrð í sérbýli geturðu óskað eftir tvískiptri tunnu. Ef beiðni berst áður en tunnuskipti vegna nýs flokkunarkerfis eiga sér stað færðu hana samhliða tunnuskiptunum. Ef beiðnin kemur síðar verður hún tekin fyrir eins fljótt og hægt er eftir að innleiðingu lýkur í hverfinu.

Dugar tvískipt tunna fyrir pappír og plast fyrir fleiri en þrjá íbúa?

Nei, tvískipt tunna dugar líklega ekki heimilum með fleiri en þremur íbúum. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að ef íbúar þjappa pappír eða plasti í tunnuna þannig að það losnar ekki úr henni þegar henni er hvolft í hirðubílinn, verður hún skilin eftir ólosuð.

Hvað dugar brún tunna undir matarleifar fyrir margar íbúðir?

Miðað er við að brún tunna dugi fyrir allt að sex íbúðir en það er breytilegt eftir fjölda heimilisfólks. Ef brúna tunnan fyllist er hægt að panta fleiri tunnur.

Hversu oft verða matarleifar sóttar?

Lífrænn eldhúsúrgangur verður losaður aðra hvora viku, sem er algeng tíðni í útlöndum og hefur reynst vel í tilraunaverkefnum hér á landi.

Hvar fæ ég bréfpoka fyrir matarleifar?

Hvert og eitt heimili á höfuðborgarsvæðinu fær bréfpoka senda heim þegar nýrri tunnu fyrir matarleifar og körfu fyrir pokana er dreift í hús. Í einu búnti af bréfpokum eru 80 pokar sem ættu að duga í tvo til þrjá mánuði.

Þegar pokarnir klárast verður fyrst um sinn hægt að sækja þá þér að kostnaðarlausu í helstu matvöruverslanir og þjónustuver Reykjavíkurborgar.

Má ég nota maíspoka fyrir matarleifar?

Nei, mælst er til þess að maíspokar séu ekki notaðir fyrir matarafganga þar sem þeir brotna illa niður í Gaju, jarð- og gasgerðarstöðinni, og eiga til að vefjast utan um vélar sem vinna sorpið.

Má setja garðaúrgang í brúnu tunnuna eða hólfið fyrir matarleifar?

Nei, garðaúrgangi á að skila á endurvinnslustöðvar Sorpu. Móttakan er gjaldfrjáls fyrir efni sem er allt að tveir rúmmetrar. Leyfilegt er að setja blómabúnt eða annað sambærilegt sem fellur til innan íbúðar í tunnuna.

Hvað á að gera við málma og gler?

Málma og gler á að flokka sérstaklega og skila á grenndar- eða endurvinnslustöðvar. Gleri er safnað á nær öllum grenndarstöðvum í borginni. Gámar fyrir málma eru á grenndarstöðvum í Árbæ, Norðlingaholti, Selás og Ártúnsholti og einnig á á djúpgámastöðvum við Laugalæk, Skúlagötu og Freyjutorg/Óðinsgötu.

Gámum fyrir málma verður bætt við á aðrar grenndarstöðvar uppúr áramótum samhliða breytingum sem unnið er að á stöðvunum.

Hvenær verður sorphirðugjöldunum breytt?

Hirðugjöld í Reykjavík verða endurskoðuð þegar búið er að innleiða nýtt kerfi og verður álagningu sorphirðugjalda breytt með haustinu.

Hvernig verður nýja gjaldskráin?

Sorphirðugjald í Reykjavík tekur mið af fjölda og stærð tunna og úrgangsflokki. Gera má ráð fyrir að gjald fyrir endurvinnsluefni verði lægra í nýrri gjaldskrá þar sem Úrvinnslusjóður greiðir fyrir söfnun umbúðaúrgangs úr pappír, pappa og plasti.

Fleiri spurningar?

Hafðu samband: upplysingar@reykjavik.is

Frekari upplýsingar má nálgast hjá þjónustuveri í síma 411 1111