Flokkun

Með lögum um hringrásarhagkerfi varð skylt að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við heimili. Með réttri flokkun er hægt að minnka sóun og endurnýta verðmæti í stað þess að þeim sé hent. 

Fjórir flokkar

Flokka þarf heimilisúrgang í pappír og pappa, plastumbúðir, matarleifar og blandaðan úrgang. 

Á öllum heimilum eiga að vera ílát fyrir þessa fjóra flokka

Hinir flokkarnir

Fyrir utan flokkun við heimili þarf að passa að gler, málmar, rafhlöður og spilliefni, textíll og lyf rati ekki í blandaðan úrgang. Allar grenndarstöðvar taka við málmum og gleri og margar taka við textíl. Lyfjum og lyfjaumbúðum má skila í apótekum. Rafhlöðum má skila á endurvinnslustöðvum og bensínstöðvum. 

 

Hvað ef ég þarf að breyta sorpgerðinu hjá mér?

Sérbýli: Ef þú þarft að setja skýli eða stækka það þá þarf að gæta þess að nauðsynlegt er að fá samþykki eiganda aðliggjandi lóðar ef aðstaðan er nær lóðamörkum en þrír metrar. Sorpgerði má ekki opnast út á borgarland.

Við uppsetningu sorpgerðis þarf að hafa í huga að gönguleið sé greið og örugg. Mælst er til þess að gönguleið að gerði sé stutt en sérstakt aukagjald er lagt á ef gönguleiðin er lengri en 15 metrar.

Fjölbýli: Ef reisa á sorpgerði eða -skýli á lóð fjöleignarhúsa þarf að sækja um byggingarleyfi hjá byggingarfulltrúa.

Stærð á tunnum

Tegund  Hæð (mm) Breidd (mm) Dýpt (mm)
140 lítra 1.100 505 555
240 lítra 1.169 580 724
360 lítra 1.150 590 880
660 lítra 1.225 1.255 775
240 lítra tunna er algengasta stærðin eins og á tvískiptum tunnum og bláum og grænum tunnum fyrir pappír og plast. Hefðbundin stærð á brúnni tunnu er 140 lítrar.

 

Viltu vita meira?

Almenningur hefur lengi kallað eftir sérsöfnun á lífrænum úrgangi og samræmingu á flokkunarkerfi við heimili á höfuðborgarsvæðinu. Samræmt sorphirðukerfi felur í sér betri þjónustu við íbúa. Allar almennar upplýsingar um flokkunarkerfið og söfnun á matarleifum er að finna á vef Sorpu.

Spurt og svarað um nýtt flokkunarkerfi

Þarf ég að vera með fleiri en eina tunnu?

Já, samkvæmt nýjum lögum verður að safna matarleifum, pappír og plasti við hvert heimili. Auk þess þarf að vera tunna fyrir blandað sorp. Alls eru því tunnur eða hólf fyrir fjóra flokka.

Hversu mikið pláss taka tvískiptu tunnurnar?

Tvískiptar tunnur eru sömu stærðar og gráu tunnurnar undir blandað sorp sem hafa verið í borginni, 240 lítrar og 58 sentimetrar á breidd. Tunnunum er skipt upp í hlutfallinu 60/40. Minna minna hólfið er 96 lítrar og stærra hólfið 144 lítrar.

Ef tunnum er raðað hlið við hlið þá ráðleggjum við að hafa 10 sentimetra á milli þeirra.

Er hægt að biðja um að fá tvískipta tunnu fyrir pappír og plast í staðinn fyrir að hafa tvær stakar tunnur?

Já, ef þú býrð í sérbýli geturðu óskað eftir tvískiptri tunnu. Ef beiðni berst áður en tunnuskipti vegna nýs flokkunarkerfis eiga sér stað færðu hana samhliða tunnuskiptunum. Ef beiðnin kemur síðar verður hún tekin fyrir eins fljótt og hægt er eftir að innleiðingu lýkur í hverfinu.

Dugar tvískipt tunna fyrir pappír og plast fyrir fleiri en þrjá íbúa?

Nei, tvískipt tunna dugar líklega ekki heimilum með fleiri en þremur íbúum. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að ef íbúar þjappa pappír eða plasti í tunnuna þannig að það losnar ekki úr henni þegar henni er hvolft í hirðubílinn, verður hún skilin eftir ólosuð.

Hvað dugar brún tunna undir matarleifar fyrir margar íbúðir?

Miðað er við að brún tunna dugi fyrir allt að sex íbúðir en það er breytilegt eftir fjölda heimilisfólks. Ef brúna tunnan fyllist er hægt að panta fleiri tunnur.

Hversu oft verða matarleifar sóttar?

Lífrænn eldhúsúrgangur verður losaður aðra hvora viku, sem er algeng tíðni í útlöndum og hefur reynst vel í tilraunaverkefnum hér á landi.

Hvar fæ ég bréfpoka fyrir matarleifar?

Bréfpokar undir matarleifar fást endurgjaldslaust á endurvinnslustöðvum Sorpu og í Góða hirðinum.

Hvernig geng ég frá matarleifum í bréfpoka?

Láta sósu og vökva renna af matvælum áður en þau eru sett í pokann. Þannig haldast matarleifarnar þurrar og pokinn endist lengur.

Ef henda á matarleifum úr ísskáp gera það um leið og farið er út með pokann, ekki þegar nýr poki er tekinn í notkun. Þannig endist pokinn lengur.

Loka pokanum vel þegar hann er settur út í tunnu.

Passa að brúna tunnan sé ekki þar sem er sól, smá trekkur kælir hana niður.

 

Má ég nota maíspoka fyrir matarleifar?

Nei, mælst er til þess að maíspokar séu ekki notaðir fyrir matarafganga þar sem þeir brotna illa niður í Gaju, jarð- og gasgerðarstöðinni, og eiga til að vefjast utan um vélar sem vinna sorpið.

Má setja garðaúrgang í brúnu tunnuna eða hólfið fyrir matarleifar?

Nei, garðaúrgangi á að skila á endurvinnslustöðvar Sorpu. Móttakan er gjaldfrjáls fyrir efni sem er allt að tveir rúmmetrar. Leyfilegt er að setja blómabúnt eða annað sambærilegt sem fellur til innan íbúðar í tunnuna.

Hvað á að gera við málma og gler?

Málma og gler á að flokka sérstaklega og skila á grenndar- eða endurvinnslustöðvar. Gleri er safnað á nær öllum grenndarstöðvum í borginni og á árinu 2024 bætast við málmagámar á allar grenndarstöðvar.

Hvernig er gjaldskráin?

Sorphirðugjald í Reykjavík tekur mið af fjölda og stærð tunna og úrgangsflokki. Sveitarfélögum ber skylda til þess að innheimta allan kostnað vegna söfnunar meðhöndlunar úrgangs. Tunnur fyrir endurvinnsluefni eru talsvert ódýrari en tunnur fyrir blandaðan úrgang til þess að skapa hvata fyrir aukna flokkun.