Spurt og svarað um sorphirðu
Allt sem þú vissir ekki að þú vildir vita um sorphirðu, flokkun og endurvinnslu.
Almennt
Hvenær eru tunnur losaðar í mínu hverfi?
Hér er hægt að sjá sorphirðudagatal sem sýnir áætlaða losunardaga.
Af hverju eru tunnurnar ekki ókeypis?
Reykjavíkurborg ber samkvæmt lögum að innheimta sorphirðugjöld sem næst raunkostnaði vegna söfnunar á heimilisúrgangi og rekstri grenndar- og endurvinnslustöðva.
Sorphirðugjöld eru innheimt með fasteignagjöldunum. Þau taka mið af fjölda tunna, stærð íláta, fjarlægð sem þarf að fara til að losa ílátið og tegund úrgangs. Gjöldin taka breytingum frá og með þeirri viku sem óskað er breytinga á tunnum. Tunnur fyrir pappír, plast og matarleifar eru ódýrari en tunnur fyrir blandaðan úrgang. Það borgar sig því að flokka.
Get ég gert eitthvað til þess að lækka sorphirðugjaldið?
Já það getur þú.
Í sérbýlum er áhrifaríkast að flokka meira og henda minna. Ef lítið fellur til af blönduðum úrgangi er hægt að óska eftir tvískiptri tunnu eða spartunnu í stað gráu tunnunnar. Tunnur fyrir endurvinnsluefni eru ódýrari en fyrir blandaðan úrgang. Ef tunnurnar þínar er staðsettar meira en 15 metra frá götubrún getur þú lækkað gjaldið með því að færa tunnurnar nær götunni.
Ef þú býrð í fjölbýli væri ráð að endurskoða fjölda grárra tunna og fækka þeim ef hægt er. Mögulega er í staðinn hægt að bæta við grænum, bláum eða brúnum tunnum undir endurvinnsluefni.
Hvað á ég að gera við flugeldaleifar?
Flugeldaleifum og ósprungnum flugeldum skal skila á endurvinnslustöðvar Sorpu, ekki í gráu tunnuna.
Íbúar eru hvattir til að taka til hendinni í sínu nánasta umhverfi og tína upp flugeldaleifar eftir gamlárskvöld en víða í borginni verða eftir leifar af flugeldum, tertukössum og öðrum skoteldum. Mikilvægt er að allir leggist á eitt og íbúar hreinsi upp sjálfir leifar af skoteldum í sínu nánasta umhverfi. Mælst er til þess að fólk skili því sem safnast á endurvinnslustöðvar SORPU bs. eða í söfnunargáma hjá sölustöðum flugelda en setji ekki í tunnur við heimili.
Hvað á ég að gera við umfram sorp sem rúmast ekki í tunnu?
Íbúar geta nálgast merkta poka, gegn gjaldi, sem hægt er að setja í umfram blandaðan úrgang. Þeir fást á næstu N1 stöð í Reykjavík eða í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12–14. Pokarnir eru skildir eftir hjá tunnunum og verða fjarlægðir við næstu losun.
Pokarnir eru eingöngu ætlaðir undir blandað heimilissorp og er óheimilt að setja í þá spilliefni eða annan hættulegan úrgang, plast, málma, gler, textíl og pappír, umbúðir með skilagjaldi, raftæki, timbur og annan grófan úrgang, garðaúrgang, múrbrot, jarðefni eða grjót. Slíkum úrgangi á að skila á endurvinnslustöðvar SORPU bs.
Einnig er hægt að fara með umfram úrgang á grenndar- eða endurvinnslustöðvar.
Er eftirlit með því hvað er sett í tunnurnar?
Mikilvægt er að úrgangur skili sér í réttar tunnur en með hringrásarlögunum varð öllum skylt að flokka pappír, plast, matarleifar, gler, málma, textíl, spilliefni og lyf.
Auk þess er óheimilt að setja flöskur og dósir, garðaúrgang, jarðveg og málma í gráu tunnuna.
Starfsfólk sorphirðunnar fylgist með hvort það hafi verið flokkað rétt. Tunnur með rangri flokkun verða ekki losaðar.
Ber ég ábyrgð ef nágranni minn flokkar ekki í fjölbýlishúsi?
Í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 er fjallað um réttindi og skyldur eiganda fjöleignarhúsa. Sorpgeymslur eru almennt í sameign fjöleignarhúsa og bera eigendur allir óskipta ábyrgð á sameigninni sbr. 57. gr. laganna. Húsfélagið og eigendur bera ábyrgð á sameiginlegum kostnaði skv. ákvæðum 43. og 47. gr., og því ábyrgð á kostnaði sem hlýst af rangt flokkuðum úrgangi.
Sannist að einn eigandi valdi húsfélaginu kostnaði með því að flokka ekki úrganginn getur húsfélagið endurkrafið hann um kostnaðinn skv. almennum reglum kröfuréttar. Húsfélag getur einnig sett húsreglur sem ná til flokkunar á úrgangi sbr. 1. tl. C-liðar 41. gr. sbr. einnig 74. gr. laganna, einkum 1. tl. 3. mgr.
Sannist það að einn eigandi fari ítrekað ekki eftir reglunum getur húsfélagið lagt bann við búsetu eða dvöl hans í húsinu sbr. 1. mgr. 55. gr. laganna en gæta verður að því að veita eiganda tækifæri á að bæta sig sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hægt er að fá álit kærunefndar húsamála skv. 80. gr. laganna um ágreining sameigenda um túlkun á lögunum og/eða fara með málið fyrir dómstóla sbr. 6. mgr. 80. gr. og fá endanlega niðurstöðu um álitaefnið.
Ef ég vil færa sorpgeymsluna mína hvað geri ég þá?
Ætli lóðarhafar að færa sorpgeymslur innan lóðar þarf að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum til byggingafulltrúa. Umhverfis- og skipulagssvið veitir allar frekari upplýsingar og er íbúum innan handar með leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi flutning sorpgeymsla þar sem því verður við komið í síma 411 1111 og byggingarfulltrui@reykjavik.is.
Hvernig veit ég hvað ég á að vera með mörg sorpílát við heimili mitt?
Með lögum um hringrásarhagkerfi varð öllum skylt að flokka úrgang sinn og setja upp tunnur fyrir pappír, plast, matarleifar og blandaðan úrgang innan lóðar. Ekki er til almenn regla um fjölda tunna fyrir hverja íbúð og geta íbúar því ákveðið fjöldann og er kostnaðurinn samkvæmt því.
Þörfin ræðst af ýmsum þáttum eins og fjölda íbúa, neysluvenjum og hversu duglegir íbúar eru að flokka.
Aukaferð til losunar
Ef ekki er hægt að losa ílát vegna hindrana, rangrar flokkunar eða af öðrum ástæðum, geta íbúar óskað eftir aukaferð til losunar. Greitt er fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá.
Hvað verður um glerið?
Frá umhverfislegu sjónarhorni borgar sig að flokka, safna, flytja út og endurvinna gler frá Íslandi. Gleri er nú hægt að skila á öllum grenndarstöðvum og hefur verið notað sem burðarlag, sem telst til endurnýtingar. Til stendur að koma upp búnaði til að búa það undir endurvinnslu erlendis.
Urðun úrgangs
Blandaður úrgangur er nú að stærstum hluta (rúm 80%) baggaður og sendur til Svíþjóðar í brennslu. Það sem eftir stendur er flutt í Álfsnes og urðað þar. Brennsla úrgangs er talin skör ofar en urðun hans þar sem brennsla hefur minni áhrif á loftslagið.
SORPA bs. rekur urðunarsvæðið á Álfsnesi en svæðið er skilgreint sem iðnaðarsvæði. Í Álfsnesi hefur síðan 1999 verið framleitt ökutækjaeldsneytið metan úr hauggasi, sem verður til vegna niðurbrots lífræns úrgangs í haugnum. Metan er kraftmikil gróðurhúsalofttegund eða allt að 21 sinnum öflugara en koltvísýringur ef það fær að gufa óhindrað upp úr haugnum. Með því að safna hauggasinu, hreinsa það og nota sem bifreiðaeldsneyti, í stað innflutts jarðefnaeldsneytis, eru gróðurhúsaáhrif urðunarstaðarins í lágmarki.
Græn tunna
Hvað má setja í græna tunnu?
Einungis hreint plast fer í græna tunnu, bæði mjúkt og hart. Mjúkt plast er til dæmis plastpokar, plastfilma og bóluplast. Hart plast er til að mynda plastbakkar og – brúsar og önnur plastílát af ýmsu tagi undan hreinsiefnum og matvöru.
Hreinsa þarf eins og hægt er allar matar- og efnaleifar af plastinu og minnka rúmmál eins og mögulegt er áður en það er sett í tunnuna.
Mikilvægt er að skila frauðplasti ekki í grænar tunnur heldur á endurvinnslustöðvar Sorpu.
Gæta skal að því að málmar, rafmagnstæki, rafhlöður, spilliefni, pappírsefni eða aðrir úrgangsflokkar fari ekki í grænu tunnuna. Góð flokkun er forsenda þess að hægt sé að endurvinna plastið.
Þarf ég að panta græna tunnu?
Íbúar sem kjósa að láta sækja til sín endurvinnanlegt plast þurfa að panta græna tunnu.
Í Reykjavík velja íbúar þá leið sem þeim hentar við að koma frá sér endurvinnsluefnum sem þeir flokka frá. Sumum hentar betur að skila flokkuðum endurvinnsluefnum á grenndar- eða endurvinnslustöðvar, því þær eru í nágrenninu eða í leiðinni, en að vera með viðbótartunnu við heimili.
Hvað kostar græn tunna?
Upplýsingar um verð á grænni tunnu er að finna í gjaldskrá sorphirðu.
Gjöldin eru innheimt með fasteignagjöldunum og í Reykjavík taka þau mið af fjölda tunna, stærð íláta, hirðutíðni, fjarlægð sem þarf að fara til að losa ílátið og tegund úrgangs, og taka breytingum frá og með þeirri viku sem óskað er breytinga á tunnum.
Hvað er græn tunna tæmd oft í mánuði?
Græn tunna er tæmd að jafnaði á 21 dags fresti.
Í sorphirðudagatalinu getur þú séð hvenær sorpið þitt verður sótt. Athugaðu að dagatalið er sett upp eftir hverfum borgarinnar.
Hvernig er fyrirkomulagi plastsöfnunar við heimili háttað?
Íbúar þurfa að óska eftir grænni tunnu undir plast við heimili sitt. Græna tunnan er keyrð út endurgjaldslaust.
Græna tunnan er hirt á þriggja vikna eða 21 dags fresti að jafnaði. Athugið að hirða fer oftast fram í tvískiptum bílum og tveir úrgangsflokkar því hirtir í einu.
Plast er um 20% af blönduðum úrgangi sem fer í gráar tunnur og spartunnur og helmingi rúmmálsfrekara og því er fyrirséð að magnið í gráu tunnunni geti minnkað. Á heimilum þar sem lítið fellur til af blönduðum úrgangi, t.d. vegna flokkunnar, geta íbúar í einbýli óskað eftir spartunnu sem er ódýrari og helmingi minni. Íbúar í fjölbýlum geta endurskoðað fjölda grárra tunna og fækkað þeim ef tilefni er til og greitt þannig lægri gjöld.
Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að bjóða íbúum að velja það þjónustustig sem hentar þeim og að greiða fyrir þjónustuna í takt við það. Þannig geta íbúar valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða hvort þeir kjósa að endurvinnanlegur úrgangur sé sóttur á heimili þeirra.
Efst á síðunni er hægt að nálgast dagatal fyrir hirðu úrgangs við heimili í Reykjavík.
Hvað gerist ef rangt er flokkað í græna tunnu?
Ef rangt er flokkað í grænu tunnuna er ekki hægt að losa hana þar sem aðskotaefni geta eyðilagt endurvinnsluefnin sem þegar eru í hirðubílnum. Fjarlægja þarf rangt flokkaða efnið út tunnunni áður en losun getur farið fram. Ef þörf er á losun fyrir þann tíma þá þarf að bregðast við með einu af neðangreindu:
- Hafa samband við Reykjavíkurborg og óska eftir aukalosun sem greiða þarf fyrir samkvæmt gjaldskrá
- Fara með plastið úr tunnunni á næstu grenndar- eða endurvinnslustöð. Sjá kort yfir söfnunarstöðvar í sorphirðudagatali.
Af hverju er plast ekki rusl?
Með því að flokka og skila plasti til endurvinnslu eykst endurvinnsla plasts og magn urðaðs úrgangs minnkar. Mikilvægt að koma í veg fyrir urðun plastúrgangs út frá umhverfislegum sjónarmiðum þar sem með því er auðlindum, sem annars hefðu nýst, sóað. Einnig kostar meira að meðhöndla óflokkaðan blandaðan úrgang en flokkuð plastefni og því er græna tunnan ódýrari en gráa tunnan.
Plasti sem skilað er til endurvinnslu er baggað í móttöku- og flokkunarstöð SORPU bs. í Gufunesi. Plastið er sent til Svíþjóðar til þar sem það er annað hvort endurunnið eða brennt til orkuvinnslu. Hægt er að efnisendurvinna stóran hluta plasts og brennsla til orkunýtingar er ákjósanlegri valkostur en urðun í þeim tilfellum þar sem endurvinnsla er ekki fýsileg af einhverjum ástæðum. Flokkun og skil til endurvinnslu er undirstaða þess að þetta sé hægt.
Plast er eitt algengasta efnið í umhverfi okkar og notkun þess eykst í sífellu. Hlutur þess var 20% í blönduðum úrgangi skv. greiningu SORPU bs. árið 2014 eða næststærsti flokkurinn á eftir lífrænum úrgangi. Alls féllu til 18.085 tonn af blönduðum úrgangi frá heimilum í Reykjavík árið 2014 og því má búast við að ríflega 3.617 tonn af plasti hafi verið urðuð í Álfsnesi það árið. Búast má við að um 1.700 tonnum meira af plasti skili sér til endurvinnslu í Reykjavík náist sambærilegur árangur og með flokkun pappírsefna.
Hvað get ég gert við plastið?
Hægt er að losa sig við hreint endurvinnanlegt plast á eftirfarandi hátt:
- Græn tunna borgarinnar
Hana þarf að panta og geta íbúar að jafnaði byrjað að flokka í hana um leið og hún hefur verið afhent.
- Endurvinnslustöð
Slíkar stöðvar eru sex á höfuðborgarsvæðinu en þar er jafnframt hægt að skila mörgum öðrum flokkum endurvinnsluefna.
Sjá kort og upplýsingar um endurvinnslustöðvar
- Grenndarstöð
Slíkar stöðvar eru 57 innan Reykjavíkur og þar er auk pappírs og pappa hægt að skila plasti og í einhverjum tilfellum skilagjaldskildum umbúðum og fötum.
Sjá kort yfir grenndarstöðvar
Blá tunna
Hvað má setja í bláa tunnu?
Í bláu tunnuna má setja fimm flokka af pappír og pappa. Þeir eru:
- Bylgjupappi, s.s. pítsukassar, skókassar og aðrir pappakassar. Bylgjupappi þekkist af því að þegar hann er rifin sést á sárinu að hann er tvöfaldur með bylgjulaga pappa í miðjunni.
- Dagblöð, tímarit og auglýsingapóstur. Allt sem kemur inn um bréfalúguna. Einnig bækur. Límrönd og plastgluggar mega fara með umslögunum, þarf ekki að rífa af.
- Fernur, eins og undan mjólk, ávaxtasafa og rjóma. Plasttappi, sem oft er settur í fernur til að auðvelda notkun þeirra og verja innihaldið, má vera á fernum. Ál- og plastfilmur innan í fernum draga ekki úr endurvinnsluhæfni þeirra.
- Skrifstofupappír. Bæði litaður og hvítur ljósritunar- og prentarapappír.
- Umbúðapappír og pappi s.s. morgunkornskassar, eggjabakkar og kexpakkar. Gjafapappír má einnig fara í bláu tunnuna.
Endurvinnslugildi pappírsefnanna ræðst af hreinleika þeirra. Mikilvægt er að hreinsa allar matarleifar af umbúðum og skítugan eldhúspappír og servíettur skal setja í gráu tunnuna eða flokka til jarðgerðar. Einnota bleiur eiga að fara í gráu tunnuna með blandaða úrganginum.
Efni sem sett er í bláu tunnuna skal setja laust í tunnuna. Ekki má setja efnið í plastpoka.
Góð flokkun er forsenda endurvinnslu.
Þarf ég að panta bláa tunnu?
Íbúar sem kjósa að láta sækja til sín pappír og pappa þurfa að panta bláu tunnuna.
Í Reykjavík velja íbúar þá leið sem þeim hentar við að koma frá sér endurvinnsluefnum sem þeir flokka frá. Sumum hentar betur að skila flokkuðum endurvinnsluefnum á grenndar- eða endurvinnslustöðvar, því þær eru í nágrenninu eða í leiðinni, en að vera með viðbótartunnu við heimili.
Hvað kostar blá tunna?
Upplýsingar um verð á blárri tunnu er að finna í gjaldskrá sorphirðu.
Gjöldin eru innheimt með fasteignagjöldunum og í Reykjavík taka þau mið af fjölda tunna, stærð íláta, hirðutíðni, fjarlægð sem þarf að fara til að losa ílátið og tegund úrgangs, og taka breytingum frá og með þeirri viku sem óskað er breytinga á tunnum.
Hvað er blá tunna tæmd oft í mánuði?
Blá tunna er tæmd að jafnaði á 21 dags fresti.
Í sorphirðudagatalinu getur þú séð hvenær sorpið þitt verður sótt. Athugaðu að dagatalið er sett upp eftir hverfum borgarinnar.
Hvernig er fyrirkomulagi pappírssöfnunar við heimili háttað?
Íbúar þurfa að óska eftir blárri tunnu undir pappír og pappa við heimili sitt. Bláa tunnan er keyrð út endurgjaldslaust.
Tunnan er hirt á þriggja vikna eða 21 dags fresti að jafnaði. Athugið að hirða fer oftast fram í tvískiptum bílum og tveir úrgangsflokkar því hirtir í einu.
Á heimilum þar sem lítið fellur til af blönduðum úrgangi, t.d. vegna flokkunnar, geta íbúar í einbýli óskað eftir spartunnu sem er ódýrari og helmingi minni. Íbúar í fjölbýlum geta endurskoðað fjölda grárra tunna og fækkað þeim ef tilefni er til og greitt þannig lægri sorphirðugjöld.
Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að bjóða íbúum að velja það þjónustustig sem hentar þeim og að greiða fyrir þjónustuna í takt við það. Þannig geta íbúar valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða hvort þeir kjósa að endurvinnanlegur úrgangur sé sóttur á heimili þeirra.
Efst á síðunni er hægt að nálgast dagatal fyrir hirðu úrgangs við heimili í Reykjavík.
Hvað gerist ef rangt er flokkað í bláa tunnu?
Úrgangur sem ekki á heima í bláu tunnunni getur eyðilagt endurvinnsluefni sem eru nú þegar í sorpbílnum. Áður en hægt er að losa tunnuna þarft þú að fjarlægja rangt flokkaða úrganginn. Tunnan verður svo losuð á næsta losunardegi, eftir rúmar þrjár vikur. Ef það þarf að losa tunnuna fyrir þann tíma þá getur þú:
- Haft samband við Reykjavíkurborg og óskað eftir aukalosun sem greitt er fyrir samkvæmt gjaldskrá.
- Farið með pappírinn úr tunnunni á næstu grenndar- eða endurvinnslustöð.
Af hverju er pappír ekki rusl?
Flokkun pappírs og skil til endurvinnslu hefur bæði umhverfislegan ávinning og er hagkvæmari en ef hann er settur í gráu tunnuna og urðaður í Álfsnesi. Pappír er auðlind sem hægt er að nýta til ýmissa hluta ef hann er flokkaður frá og skilað til endurvinnslu.
Pappír sem skilað er til endurvinnslu er flokkaður vélrænt í móttöku- og flokkunarstöð SORPU í Gufunesi til að aðskilja bylgjupappa frá sléttum pappa og pappír. Efnið er pressað og baggað og síðan flutt til Svíþjóðar til frekari flokkunar og endurvinnslu. Úr endurunnum pappír og pappa eru t.d. framleiddur salernispappír, eldhúspappír, dagblaðapappír og karton sem notað er til að útbúa nýjar umbúðir. Úr endurunnum bylgjupappa er framleiddur nýr bylgjupappi.
Hvað verður um pappírinn?
Pappír er auðlind sem hægt er að nýta til ýmissa hluta ef hann er flokkaður frá og skilað til endurvinnslu. Flokkun pappírs og pappa og skil til endurvinnslu hefur bæði umhverfislegan ávinning og er hagkvæmari en ef hann er settur í gráar tunnur og urðaður í Álfsnesi. Þess vegna er bláa tunnan ódýrari en sú gráa.
Pappírsefni sem skilað er til endurvinnslu er flokkaður vélrænt í móttöku- og flokkunarstöð SORPU bs. í Gufunesi til að aðskilja bylgjupappa frá sléttum pappa og pappír. Efnið er pressað og baggað og síðan flutt til Svíþjóðar til frekari flokkunar og endurvinnslu. Úr endurunnum pappír og pappa eru t.d. framleiddur salernispappír, eldhúspappír, dagblaðapappír og karton sem notað er til að útbúa nýjar umbúðir. Úr endurunnum bylgjupappa er framleiddur nýr bylgjupappi.
Hvað get ég gert við pappírinn?
Hægt er að losa sig við pappír og pappa á eftirfarandi stöðum:
- Bláa tunnu borgarinnar
Hana þarf að panta og geta íbúar að jafnaði byrjað að flokka í hana um leið og hún hefur verið afhent.
- Endurvinnslustöð
Slíkar stöðvar eru sex á höfuðborgarsvæðinu en þar er jafnframt hægt að skila mörgum öðrum flokkum endurvinnsluefna.
Sjá kort og upplýsingar um endurvinnslustöðvar
- Grenndarstöð
Slíkar stöðvar eru 57 innan Reykjavíkur og þar er auk pappírs og pappa hægt að skila plasti og í einhverjum tilfellum skilagjaldskildum umbúðum og fötum.
Sjá kort yfir grenndarstöðvar
Grá tunna og spartunna
Hvað má setja í gráa tunnu og spartunnu?
Í gráa tunnu (spartunnu þar með talið) fer blandaður úrgangur frá heimilum. Blandaður úrgangur af heimilinu er sem dæmi:
- Ryksugupokar
- Einnota bleyjur
- Einnota dömubindi
- Blautklútar
Hvað má ekki setja í gráu tunnuna:
- Matarleifar
- Endurvinnanlegan pappír og pappa
- Textíl
- Dósir eða flöskur með skilagjaldi
- Garðaúrgang
- Múrbrot
- Jarðefni
- Grófan úrgang, eins og timbur og brotamálma
- Rafmagnstæki
- Rafhlöður
- Spilliefni
- Lyf
Þarf ég að panta gráa tunnu eða spartunnu?
Íbúar þurfa að hafa aðgang að tunnu undir blandaðan úrgang við heimili sitt.
Gráa tunnan er undir blandaðan úrgang og er 240 l að stærð en athugið að á heimilum þar sem lítið fellur til af blönduðum úrgangi geta íbúar í einbýli óskað eftir spartunnu sem er 120 l og ódýrari en grá tunna.
Íbúar í fjölbýli geta óskað eftir 660 l kari ef aðstæður leyfa.
Hvað kosta grá tunna og spartunna?
Upplýsingar um verð á grárri tunnu og spartunnu er að finna í gjaldskrá sorphirðu.
Gjöldin eru innheimt með fasteignagjöldunum og í Reykjavík taka þau mið af fjölda tunna, stærð íláta, hirðutíðni, fjarlægð sem þarf að fara til að losa ílátið og tegund úrgangs, og taka breytingum frá og með þeirri viku sem óskað er breytinga á tunnum.
Hvað eru grá tunna og spartunna tæmdar oft í mánuði?
Grá tunna og spartunna eru tæmdar að jafnaði á 14 daga fresti.
Í sorphirðudagatalinu getur þú séð hvenær sorpið þitt verður sótt. Athugaðu að dagatalið er sett upp eftir hverfum borgarinnar.
Hvað gerist ef rangt er flokkað í gráa tunnu og spartunnu?
Ef rangt er flokkað í gráu tunnuna er hún ekki losuð. Áður en hægt er að losa tunnuna þarft þú að fjarlægja rangt flokkaða úrganginn. Tunnan verður svo losuð á næsta losunardegi, eftir rúmar tvær vikur. Ef það þarf að losa tunnuna fyrir þann tíma þá getur þú:
- Haft samband við Reykjavíkurborg og óskað eftir aukalosun sem greitt er fyrir samkvæmt gjaldskrá.
- Farið með rangt flokkaða úrganginn úr tunnunni á næstu grenndar- eða endurvinnslustöð.
Rekstraraðilar
Hirðir Reykjavíkurborg sorp hjá rekstraraðilum?
Rekstraraðilar sem úrgangur fellur til hjá skulu sjálfir sjá um söfnun og meðferð á þeim úrgangi. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á að söfnun úrgangs fari fram innan borgarmarkanna og að sjá til þess að innviðir séu til staðar til að tryggja rétta meðhöndlun úrgangs. Rekstraraðilar hafa frjálsar hendur við samningagerð við einkaaðila um hirðu og flokkun úrgangs sem fellur til frá fyrirtækinu.
SORPA bs. tekur við flokkuðum úrgangi frá einkaaðilum á móttökustöðvum en aðilunum er frjálst að velja þær leiðir sem þeir kjósa fyrir endurvinnsluefni. Einkaaðilar sem hirða blandaðan úrgang frá rekstraraðilum sjá um að bagga og pakka úrgangi áður en honum er skilað á urðunarstað í Álfsnesi.
Get ég fengið tunnu undir endurvinnsluefni á minn vinnustað?
Bláu og grænu tunnur borgarinnar eru einungis í boði fyrir heimili í Reykjavík en standa fyrirtækjum og stofnunum ekki til boða. Þau geta skilað flokkuðum úrgangi á endurvinnslustöðvar. Rekstraraðilar greiða ekki fyrir skil á endurvinnsluefnum en greitt er fyrir blandaðan úrgang og aðra úrgangsflokka skv. gjaldskrá SORPU bs.
Fjöldi þjónustuaðila bjóða einnig upp á tunnur undir endurvinnsluefni og flutning á þeim fyrir stofnanir og fyrirtæki um allt land.