Spurt og svarað um sorphirðu
Allt sem þú vissir ekki að þú vildir vita um sorphirðu, flokkun og endurvinnslu.
Almennt
Hvenær eru tunnur losaðar í mínu hverfi?
Hér er hægt að sjá sorphirðudagatal sem sýnir áætlaða losunardaga.
Af hverju eru tunnurnar ekki ókeypis?
Reykjavíkurborg ber samkvæmt lögum að innheimta sorphirðugjöld sem næst raunkostnaði vegna söfnunar á heimilisúrgangi og rekstri grenndar- og endurvinnslustöðva.
Sorphirðugjöld eru innheimt með fasteignagjöldunum. Þau taka mið af fjölda tunna, stærð íláta, fjarlægð sem þarf að fara til að losa ílátið og tegund úrgangs. Gjöldin taka breytingum frá og með þeirri viku sem óskað er breytinga á tunnum. Tunnur fyrir pappír, plast og matarleifar eru ódýrari en tunnur fyrir blandaðan úrgang. Það borgar sig því að flokka.
Get ég gert eitthvað til þess að lækka sorphirðugjaldið?
Já það getur þú.
Í sérbýlum er áhrifaríkast að flokka meira og henda minna. Ef lítið fellur til af blönduðum úrgangi er hægt að óska eftir tvískiptri tunnu eða spartunnu í stað gráu tunnunnar. Tunnur fyrir endurvinnsluefni eru ódýrari en fyrir blandaðan úrgang. Ef tunnurnar þínar er staðsettar meira en 15 metra frá götubrún getur þú lækkað gjaldið með því að færa tunnurnar nær götunni.
Ef þú býrð í fjölbýli væri ráð að endurskoða fjölda grárra tunna og fækka þeim ef hægt er. Mögulega er í staðinn hægt að bæta við grænum, bláum eða brúnum tunnum undir endurvinnsluefni.
Hvað á ég að gera við umfram sorp sem rúmast ekki í tunnu?
Íbúar geta nálgast merkta poka, gegn gjaldi, sem hægt er að setja í umfram blandaðan úrgang. Þeir fást á næstu N1 stöð í Reykjavík eða í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12–14. Pokarnir eru skildir eftir hjá tunnunum og verða fjarlægðir við næstu losun.
Pokarnir eru eingöngu ætlaðir undir blandað heimilissorp og er óheimilt að setja í þá spilliefni eða annan hættulegan úrgang, plast, málma, gler, textíl og pappír, umbúðir með skilagjaldi, raftæki, timbur og annan grófan úrgang, garðaúrgang, múrbrot, jarðefni eða grjót. Slíkum úrgangi á að skila á endurvinnslustöðvar SORPU bs.
Umfram pappír og plast er hægt að fara með á grenndar- eða endurvinnslustöðvar.
Er eftirlit með því hvað er sett í tunnurnar?
Starfsfólk sorphirðunnar fylgist með hvort það hafi verið flokkað rétt. Tunnur með rangri flokkun verða ekki losaðar.
Mikilvægt er að úrgangur skili sér í réttar tunnur en með hringrásarlögunum varð öllum skylt að flokka pappír, plast, matarleifar, gler, málma, textíl, spilliefni og lyf.
Auk þess er óheimilt að setja flöskur og dósir, garðaúrgang, jarðveg og málma í gráu tunnuna.
Ber ég ábyrgð ef nágranni minn flokkar ekki í fjölbýlishúsi?
Í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 er fjallað um réttindi og skyldur eiganda fjöleignarhúsa. Sorpgeymslur eru almennt í sameign fjöleignarhúsa og bera eigendur allir óskipta ábyrgð á sameigninni sbr. 57. gr. laganna. Húsfélagið og eigendur bera ábyrgð á sameiginlegum kostnaði skv. ákvæðum 43. og 47. gr., og því ábyrgð á kostnaði sem hlýst af rangt flokkuðum úrgangi.
Sannist að einn eigandi valdi húsfélaginu kostnaði með því að flokka ekki úrganginn getur húsfélagið endurkrafið hann um kostnaðinn skv. almennum reglum kröfuréttar. Húsfélag getur einnig sett húsreglur sem ná til flokkunar á úrgangi sbr. 1. tl. C-liðar 41. gr. sbr. einnig 74. gr. laganna, einkum 1. tl. 3. mgr.
Sannist það að einn eigandi fari ítrekað ekki eftir reglunum getur húsfélagið lagt bann við búsetu eða dvöl hans í húsinu sbr. 1. mgr. 55. gr. laganna en gæta verður að því að veita eiganda tækifæri á að bæta sig sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hægt er að fá álit kærunefndar húsamála skv. 80. gr. laganna um ágreining sameigenda um túlkun á lögunum og/eða fara með málið fyrir dómstóla sbr. 6. mgr. 80. gr. og fá endanlega niðurstöðu um álitaefnið.
Ef ég vil færa sorpgeymsluna mína hvað geri ég þá?
Ætli lóðarhafar að færa sorpgeymslur innan lóðar þarf að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum til byggingafulltrúa. Umhverfis- og skipulagssvið veitir allar frekari upplýsingar og er íbúum innan handar með leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi flutning sorpgeymsla þar sem því verður við komið í síma 411 1111 og upplysingar@reykjavik.is.
Hvernig veit ég hvað ég á að vera með mörg sorpílát við heimili mitt?
Með lögum um hringrásarhagkerfi varð öllum skylt að flokka úrgang sinn og setja upp tunnur fyrir pappír, plast, matarleifar og blandaðan úrgang innan lóðar. Ekki er til almenn regla um fjölda tunna fyrir hverja íbúð og geta íbúar því ákveðið fjöldann og er kostnaðurinn samkvæmt því. Að lágmarki þarf að vera tunna fyrir hvern flokk úrgangs.
Þörfin ræðst af ýmsum þáttum eins og fjölda íbúa, neysluvenjum og hversu duglegir íbúar eru að flokka.
Get ég flokkað gler og málma?
Já, hægt er að skila gler og málmum á allar grenndar- og endurvinnslustöðvar.
Hvað á að gera við brotna bolla og postulín?
Það á að fara með keramík og postulín sem ekki er hægt að nýta áfram á endurvinnslustöðvar Sorpu. Þetta efni á ekki heima í glergámi.
Hvað á ég að gera við flugeldaleifar?
Flugeldaleifum og ósprungnum flugeldum skal skila á endurvinnslustöðvar Sorpu, ekki í gráu tunnuna.
Íbúar eru hvattir til að taka til hendinni í sínu nánasta umhverfi og tína upp flugeldaleifar eftir gamlárskvöld en víða í borginni verða eftir leifar af flugeldum, tertukössum og öðrum skoteldum. Mikilvægt er að allir leggist á eitt og íbúar hreinsi upp sjálfir leifar af skoteldum í sínu nánasta umhverfi. Mælst er til þess að fólk skili því sem safnast á endurvinnslustöðvar SORPU bs. eða í söfnunargáma hjá sölustöðum flugelda en setji ekki í tunnur við heimili.
Þarf ég að vera með fleiri en eina tunnu?
Já, samkvæmt nýjum lögum verður að safna matarleifum, pappír og plasti við hvert heimili. Auk þess þarf að vera tunna fyrir blandað sorp. Alls eru því tunnur eða hólf fyrir fjóra flokka.
Hversu mikið pláss taka tvískiptu tunnurnar?
Tvískiptar tunnur eru sömu stærðar og gráu tunnurnar undir blandað sorp sem hafa verið í borginni, 240 lítrar og 58 sentimetrar á breidd. Tunnunum er skipt upp í hlutfallinu 60/40. Minna minna hólfið er 96 lítrar og stærra hólfið 144 lítrar.
Ef tunnum er raðað hlið við hlið þá ráðleggjum við að hafa 10 sentimetra á milli þeirra.
Dugar tvískipt tunna fyrir pappír og plast fyrir fleiri en þrjá íbúa?
Nei, tvískipt tunna dugar líklega ekki heimilum með fleiri en þremur íbúum. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að ef íbúar þjappa pappír eða plasti í tunnuna þannig að það losnar ekki úr henni þegar henni er hvolft í hirðubílinn, verður hún skilin eftir ólosuð.
Hvað dugar brún tunna undir matarleifar fyrir margar íbúðir?
Miðað er við að brún tunna dugi fyrir allt að sex íbúðir en það er breytilegt eftir fjölda heimilisfólks. Ef brúna tunnan fyllist er hægt að panta fleiri tunnur.
Hvar fæ ég bréfpoka fyrir matarleifar?
Bréfpokar undir matarleifar fást endurgjaldslaust á endurvinnslustöðvum Sorpu og í Góða hirðinum.
Hvernig geng ég frá matarleifum í bréfpoka?
Láta sósu og vökva renna af matvælum áður en þau eru sett í pokann. Þannig haldast matarleifarnar þurrar og pokinn endist lengur.
Ef henda á matarleifum úr ísskáp gera það um leið og farið er út með pokann, ekki þegar nýr poki er tekinn í notkun. Þannig endist pokinn lengur.
Loka pokanum vel þegar hann er settur út í tunnu.
Passa að brúna tunnan sé ekki þar sem er sól, smá trekkur kælir hana niður.
Má ég nota maíspoka fyrir matarleifar?
Nei, mælst er til þess að maíspokar séu ekki notaðir fyrir matarafganga þar sem þeir brotna illa niður í Gaju, jarð- og gasgerðarstöðinni, og eiga til að vefjast utan um vélar sem vinna sorpið.
Má setja garðaúrgang í brúnu tunnuna eða hólfið fyrir matarleifar?
Nei, garðaúrgangi á að skila á endurvinnslustöðvar Sorpu. Móttakan er gjaldfrjáls fyrir efni sem er allt að tveir rúmmetrar. Leyfilegt er að setja blómabúnt eða annað sambærilegt sem fellur til innan íbúðar í tunnuna.
Hvernig er gjaldskráin?
Sorphirðugjald í Reykjavík tekur mið af fjölda og stærð tunna og úrgangsflokki. Sveitarfélögum ber skylda til þess að innheimta allan kostnað vegna söfnunar meðhöndlunar úrgangs. Tunnur fyrir endurvinnsluefni eru talsvert ódýrari en tunnur fyrir blandaðan úrgang til þess að skapa hvata fyrir aukna flokkun.
Græn tunna
Hvað má setja í græna tunnu?
Einungis hreint plast fer í græna tunnu, bæði mjúkt og hart. Mjúkt plast er til dæmis plastpokar, plastfilma og bóluplast. Hart plast er til að mynda plastbakkar og – brúsar og önnur plastílát af ýmsu tagi undan hreinsiefnum og matvöru.
Hreinsa þarf eins og hægt er allar matar- og efnaleifar af plastinu og minnka rúmmál eins og mögulegt er áður en það er sett í tunnuna.
Mikilvægt er að skila frauðplasti ekki í grænar tunnur heldur á endurvinnslustöðvar Sorpu.
Gæta skal að því að málmar, rafmagnstæki, rafhlöður, spilliefni, pappírsefni eða aðrir úrgangsflokkar fari ekki í grænu tunnuna. Góð flokkun er forsenda þess að hægt sé að endurvinna plastið.
Hvað kostar græn tunna?
Upplýsingar um verð á grænni tunnu er að finna í gjaldskrá sorphirðu.
Gjöldin eru innheimt með fasteignagjöldunum og í Reykjavík taka þau mið af fjölda tunna, stærð íláta, hirðutíðni, fjarlægð sem þarf að fara til að losa ílátið og tegund úrgangs, og taka breytingum frá og með þeirri viku sem óskað er breytinga á tunnum.
Hvað er græn tunna tæmd oft í mánuði?
Græn tunna er tæmd að jafnaði á 21 dags fresti.
Í sorphirðudagatalinu getur þú séð hvenær sorpið þitt verður sótt. Athugaðu að dagatalið er sett upp eftir hverfum borgarinnar.
Hvað gerist ef rangt er flokkað í græna tunnu?
Ef rangt er flokkað í grænu tunnuna er ekki hægt að losa hana þar sem aðskotaefni geta eyðilagt endurvinnsluefnin sem þegar eru í hirðubílnum. Fjarlægja þarf rangt flokkaða efnið út tunnunni áður en losun getur farið fram. Tunnan verður svo losuð á næsta losunardegi. Ef þörf er á losun fyrir þann tíma þá þarf að bregðast við með því að fara á stærri grenndarstöðvar eða næstu endurvinnslustöð.
Hægt er að finna næstu grenndarstöð í sorphirðudagatali.
Blá tunna
Hvað má setja í bláa tunnu?
Í bláu tunnuna má setja fimm flokka af pappír og pappa. Þeir eru:
- Bylgjupappi, s.s. pítsukassar, skókassar og aðrir pappakassar. Bylgjupappi þekkist af því að þegar hann er rifin sést á sárinu að hann er tvöfaldur með bylgjulaga pappa í miðjunni.
- Dagblöð, tímarit og auglýsingapóstur. Allt sem kemur inn um bréfalúguna. Einnig bækur. Límrönd og plastgluggar mega fara með umslögunum, þarf ekki að rífa af.
- Fernur, eins og undan mjólk, ávaxtasafa og rjóma. Plasttappi, sem oft er settur í fernur til að auðvelda notkun þeirra og verja innihaldið, má vera á fernum. Ál- og plastfilmur innan í fernum draga ekki úr endurvinnsluhæfni þeirra.
- Skrifstofupappír. Bæði litaður og hvítur ljósritunar- og prentarapappír.
- Umbúðapappír og pappi s.s. morgunkornskassar, eggjabakkar og kexpakkar. Gjafapappír má einnig fara í bláu tunnuna.
Endurvinnslugildi pappírsefnanna ræðst af hreinleika þeirra. Mikilvægt er að hreinsa allar matarleifar af umbúðum og skítugan eldhúspappír og servíettur skal setja í gráu tunnuna eða flokka til jarðgerðar. Einnota bleiur eiga að fara í gráu tunnuna með blandaða úrganginum.
Efni sem sett er í bláu tunnuna skal setja laust í tunnuna. Ekki má setja efnið í plastpoka.
Góð flokkun er forsenda endurvinnslu.
Hvað kostar blá tunna?
Upplýsingar um verð á blárri tunnu er að finna í gjaldskrá sorphirðu.
Gjöldin eru innheimt með fasteignagjöldunum og í Reykjavík taka þau mið af fjölda tunna, stærð íláta, hirðutíðni, fjarlægð sem þarf að fara til að losa ílátið og tegund úrgangs, og taka breytingum frá og með þeirri viku sem óskað er breytinga á tunnum.
Hvað er blá tunna tæmd oft í mánuði?
Blá tunna er tæmd að jafnaði á 21 dags fresti.
Í sorphirðudagatalinu getur þú séð hvenær sorpið þitt verður sótt. Athugaðu að dagatalið er sett upp eftir hverfum borgarinnar.
Hvað gerist ef rangt er flokkað í bláa tunnu?
Úrgangur sem ekki á heima í bláu tunnunni getur eyðilagt endurvinnsluefni sem eru nú þegar í sorpbílnum. Fjarlægja þarf rangt flokkaða efnið út tunnunni áður en losun getur farið fram. Tunnan verður svo losuð á næsta losunardegi. Ef þörf er á losun fyrir þann tíma þá þarf að bregðast við með því að fara á stærri grenndarstöðvar eða næstu endurvinnslustöð.
Hægt er að finna næstu grenndarstöð í sorphirðudagatali.
Grá tunna og spartunna
Hvað má setja í gráa tunnu og spartunnu?
Í gráa tunnu (spartunnu þar með talið) fer blandaður úrgangur frá heimilum. Blandaður úrgangur af heimilinu er sem dæmi:
- Ryksugupokar
- Einnota bleyjur
- Einnota dömubindi
- Blautklútar
Hvað má ekki setja í gráu tunnuna:
- Matarleifar
- Endurvinnanlegan pappír og pappa
- Textíl
- Dósir eða flöskur með skilagjaldi
- Garðaúrgang
- Múrbrot
- Jarðefni
- Grófan úrgang, eins og timbur og brotamálma
- Rafmagnstæki
- Rafhlöður
- Spilliefni
- Lyf
Þarf ég að panta gráa tunnu eða spartunnu?
Íbúar þurfa að hafa aðgang að tunnu undir blandaðan úrgang við heimili sitt.
Gráa tunnan er undir blandaðan úrgang og er 240 l að stærð en athugið að á heimilum þar sem lítið fellur til af blönduðum úrgangi geta íbúar í einbýli óskað eftir spartunnu sem er 120 l og ódýrari en grá tunna.
Íbúar í fjölbýli geta óskað eftir 660 l kari ef aðstæður leyfa.
Hvað kosta grá tunna og spartunna?
Upplýsingar um verð á grárri tunnu og spartunnu er að finna í gjaldskrá sorphirðu.
Gjöldin eru innheimt með fasteignagjöldunum og í Reykjavík taka þau mið af fjölda tunna, stærð íláta, hirðutíðni, fjarlægð sem þarf að fara til að losa ílátið og tegund úrgangs, og taka breytingum frá og með þeirri viku sem óskað er breytinga á tunnum.
Hvað eru grá tunna og spartunna tæmdar oft í mánuði?
Grá tunna og spartunna eru tæmdar að jafnaði á 14 daga fresti.
Í sorphirðudagatalinu getur þú séð hvenær sorpið þitt verður sótt. Athugaðu að dagatalið er sett upp eftir hverfum borgarinnar.
Hvað gerist ef rangt er flokkað í gráa tunnu og spartunnu?
Ef rangt er flokkað í gráu tunnuna er hún ekki losuð. Áður en hægt er að losa tunnuna þarft þú að fjarlægja rangt flokkaða úrganginn. Tunnan verður svo losuð á næsta losunardegi, eftir rúmar tvær vikur. Ef það þarf að losa tunnuna fyrir þann tíma þá getur þú:
- Haft samband við Reykjavíkurborg og óskað eftir aukalosun sem greitt er fyrir samkvæmt gjaldskrá.
- Farið með rangt flokkaða úrganginn úr tunnunni á næstu grenndar- eða endurvinnslustöð.
Rekstraraðilar
Hirðir Reykjavíkurborg sorp hjá rekstraraðilum?
Rekstraraðilar sem úrgangur fellur til hjá skulu sjálfir sjá um söfnun og meðferð á þeim úrgangi. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á að söfnun úrgangs fari fram innan borgarmarkanna og að sjá til þess að innviðir séu til staðar til að tryggja rétta meðhöndlun úrgangs. Rekstraraðilar hafa frjálsar hendur við samningagerð við einkaaðila um hirðu og flokkun úrgangs sem fellur til frá fyrirtækinu.
SORPA bs. tekur við flokkuðum úrgangi frá einkaaðilum á móttökustöðvum en aðilunum er frjálst að velja þær leiðir sem þeir kjósa fyrir endurvinnsluefni. Einkaaðilar sem hirða blandaðan úrgang frá rekstraraðilum sjá um að bagga og pakka úrgangi áður en honum er skilað á urðunarstað í Álfsnesi.
Get ég fengið tunnu undir endurvinnsluefni á minn vinnustað?
Bláu og grænu tunnur borgarinnar eru einungis í boði fyrir heimili í Reykjavík en standa fyrirtækjum og stofnunum ekki til boða. Þau geta skilað flokkuðum úrgangi á endurvinnslustöðvar. Rekstraraðilar greiða ekki fyrir skil á endurvinnsluefnum en greitt er fyrir blandaðan úrgang og aðra úrgangsflokka skv. gjaldskrá SORPU bs.
Fjöldi þjónustuaðila bjóða einnig upp á tunnur undir endurvinnsluefni og flutning á þeim fyrir stofnanir og fyrirtæki um allt land.