Þjónusta sem skiptir máli

Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024

Um þjónustu- og nýsköpunarsvið

Þjónustu- og nýsköpunarsvið hóf starfsemi 1. júní 2019 og er eitt af þremur kjarnasviðum Reykjavíkurborgar. Meginhlutverk sviðsins er að veita bæði innri og ytri þjónustu fyrir borgina og stuðla að nýsköpun í starfsemi hennar. Sviðið ber jafnframt ábyrgð á rekstri þjónustuvers, stjórnsýslubygginga og Borgarskjalasafns.

Ábyrgð og hlutverk

Þjónustu- og nýsköpunarsvið styður við öll fagsvið borgarinnar og ber ábyrgð á upplýsingatækni, gagnastjórnun, nýsköpun og tæknilegum umbótum. Sviðið samhæfir tækni-, gagna-, þjónustu- og rekstrarmál Reykjavíkurborgar og veitir faglega ráðgjöf í þessum málaflokkum. 

Stafræn umbreyting er eitt af lykilverkefnum sviðsins. Hún snýst í grunninn um að nýta tækni og skapandi hugsun til að bæta þjónustu og líf íbúa. Markmiðið er að gera þjónustu borgarinnar einfaldari, aðgengilegri og notendavænni með því að innleiða stafrænar lausnir. Jafnframt er unnið að því að gera rekstur borgarinnar skilvirkari með því að draga úr pappírsnotkun og bæta ferla. Með þessu verður þjónustan þægilegri fyrir þau sem nýta sér hana, hvort sem hún fer fram á netinu eða í beinum samskiptum. 

Þjónusta fyrir öll

Þjónustu- og nýsköpunarsvið sinnir fjölbreyttum verkefnum og veitir ráðgjöf fyrir öll svið, skrifstofur, undirstofnanir og starfsfólk borgarinnar, sem og fyrir íbúa og gesti. Umfang þjónustunnar er mikið og nær til: 

  • 8 fag- og kjarnasviða borgarinnar 
  • Yfir 300 starfsstöðva í borginni 
  • Starfsfólks borgarinnar – í kringum 12.000 manns 
  • Rúmlega 143.000 íbúa 

Stefnuljós þjónustu- og nýsköpunarsviðs

Á árinu voru ný stefnuljós þjónustu- og nýsköpunarsviðs mótuð og innleidd. Í janúar hittust stjórnendur á vinnustofu til að skilgreina innri gildi sviðsins. Í framhaldinu var haldinn starfsdagur þar sem allt starfsfólk tók þátt í að setja sér markmið og aðgerðaáætlun sem tengdist stefnuljósunum. Markmiðið var að skapa sameiginlega sýn og styðja við áframhaldandi þróun og umbætur í starfseminni.

Fólk í fyrsta sæti

Notendamiðuð hugsun – Samræmd þjónustuupplifun – Einfaldleikinn í fyrirrúmi

  • Kjarni allrar okkar starfsemi miðar að því að einfalda fólki lífið.
  • Öll þjónusta borgarinnar á að vera hönnuð út frá þörfum notenda hennar.
  • Við vinnum saman sem samræmdur vinnustaður sem veitir heildstæða þjónustuupplifun gagnvart þeim sem til okkar leita.
Fólk í fyrsta sæti

Einu skrefi á undan

Sterkar stoðir – Greindar ákvarðanir – Framtíðarbestun

  • Við byggjum allt okkar starf á traustum grunni sérþekkingar.
  • Við tökum greindar og gagnadrifnar ákvarðanir út frá fyrirliggjandi upplýsingum.
  • Við hugsum nokkra leiki fram í tímann til að geta örugg tekist á við verkefni framtíðarinnar.
Einu skrefi á undan

Aldrei hætta að þora

Kúltúrhakk – Skapandi umhverfi – Fyrirmyndir í verki 

  • Við höfum hugrekkið til að taka af skarið og leiða breytingar í krefjandi aðstæðum.
  • Við vinnum í skapandi umhverfi þar sem traust, endurgjöf og teymisstarf búa til nærandi jarðveg fyrir faglegan vöxt.
  • Við erum fyrirmyndir í verki og leiðum með því að gera.
Aldrei hætta að þora

Ár breytinga og framþróunar

Árið 2024 var ár umbreytinga og framþróunar. Nýtt skipulag og rekstrarfyrirkomulag var innleitt, sem skapaði tækifæri til að þróa skilvirkari og markvissari starfshætti. Hagræðing var í forgrunni sem leiddi til nýrra lausna til að styrkja enn frekar rekstur og þjónustu borgarinnar. Þótt breytingarnar hafi kallað á aðlögun, urðu þær einnig vettvangur fyrir nýsköpun og bætta samvinnu. Sveigjanleiki, skýr stefna og lausnamiðuð nálgun skiptu lykilmáli á þessu ári. 

Skipulag sviðsins

Árið 2024 skiptist þjónustu- og nýsköpunarsvið í fimm skrifstofur. Hver skrifstofa hefur sérhæft hlutverk en saman mynda þær sterka heild þar sem lögð er áhersla á skapandi samvinnu, gagnkvæmt traust og virðingu.

Stafræn Reykjavík

Heldur utan um vefmál, verkefna- og vörustýringu og starfsemi stafrænna leiðtoga.

Veitir ráðgjöf í stafrænum verkefnum og stýrir verkefnaráði sem forgangsraðar og velur verkefni í stafræna umbreytingu.

Sér um samskipti við stjórnsýslu borgarinnar, lögfræðiþjónustu, gæða- og áhættustýringu og almannatengsl. 

Skrifstofustjóri: Þröstur Sigurðsson

Teikning af upplýstum fartölvuskjá.

Þjónusta og umbreyting

Ber ábyrgð á samræmdri framlínuþjónustu Reykjavíkurborgar og rekstri þjónustuvers.

Leiðir innleiðingu þjónustustefnu borgarinnar og vinnur að stafrænni umbreytingu og endurhönnun þjónustuferla.

Skrifstofustjóri: Arna Ýr Sævarsdóttir

Hundur sem heldur á merki borgarinnar.

Gagnaþjónustan

Sér um gagnastjórnun og hagnýtingu gagna í starfsemi borgarinnar.

Markmið skrifstofunnar er að efla gagnavitund og stuðla að betri nýtingu gagna í ákvarðanatöku og þjónustu við starfsfólk, íbúa og fyrirtæki.

Skrifstofustjóri: Inga Rós Gunnarsdóttir

Teikning af fartölvu og tölfræðiskjali að tala saman með kóða.

Upplýsinga- og skjalastýring

Veitir ráðgjöf um upplýsinga- og skjalamál þvert á alla borgina.

Sér um faglega þróun mála- og skjalavistunarkerfisins GoPro og upplýsingastjórnunarkerfisins Hlöðunnar.

Ber einnig ábyrgð á innleiðingu, eftirliti og framkvæmd skjalastefnu Reykjavíkurborgar.

Skrifstofustjóri: Óskar Þór Þráinsson

Teikning af manneskju með fjórar hendur að sinna mörgum hlutverkum í einu.

Upplýsingatækni

Rekur upplýsingatækniinnviði borgarinnar og sér um hugbúnaðarþróun á virðisaukandi vörum fyrir svið Reykjavíkurborgar.

Ber ábyrgð á samskiptum og samningum við birgja ásamt rekstri stjórnsýsluhúsa.

Skrifstofustjóri: Ólafur Sólimann Helgason

Teikning af upplýsingaskilti.

Framkvæmdastjórn

Í framkvæmdastjórn þjónustu- og nýsköpunarsviðs sitja lykilstjórnendur sviðsins.

Stjórnin fundar reglulega yfir árið og fjallar um fagstarf, mannauðsmál, stefnumótun og framkvæmd ákvarðana.

Fundirnir eru vettvangur fyrir upplýsingamiðlun og umræður um sameiginleg úrlausnarefni.

Framkvæmdastjórn 2024:

  • Arna Ýr Sævarsdóttir
  • Bryndís Kristjánsdóttir
  • Inga Rós Gunnarsdóttir
  • Karen María Jónsdóttir
  • María B. Hermannsdóttir
  • Ólafur Sólimann Helgason
  • Óskar J. Sandholt
  • Óskar Þór Þráinsson
  • Þröstur Sigurðsson

Skipurit Þjónustu- og nýsköpunarsviðs