Þjónusta sem skiptir máli

Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024

Ávarp sviðsstjóra

Árið 2024 markaði enn einn kafla í vegferð þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem eins af kjarnasviðum Reykjavíkur en árið var það fyrsta eftir stórt fjárfestingarátak í stafrænni framþróun.

Eftir að hafa lagt grunninn að nútímavæðingu á stafrænum innviðum og þjónustu árin á undan tók við sú áskorun að festa breyttar áherslur í rekstri og áframhaldandi framþróun þjónustu í sessi, eða með öðrum orðum að innleiða nýtt verklag inn í daglega starfsemi borgarinnar.

Verkefnið var krefjandi, ekki síst vegna þess að því fylgdi umtalsverð fækkun starfsfólks sem ráðið hafði verið inn í tímabundin störf í tengslum við fjárfestingarátakið.

Aðgerðir sem snerta störf fólks eru alltaf flóknari og viðkvæmari en aðrar fyrir öll sem að þeim koma.

Óskar J. Sandholt, sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs
Óskar J. Sandholt, sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs

Þegar tekst að innleiða líkanið að fullu mun það skapa aukið gegnsæi og sveigjanleika í borgarkerfinu.

Nýtt rekstrarlíkan innleitt

Á sama tíma tókst að stíga mikilvægt skref með því að hefja innleiðingu nýs rekstrarlíkans sem stefnt var að tæki gildi að fullu árið 2025.

Þetta líkan skilgreinir hvernig rekstur, þróun og fjárfestingar vinna saman á samræmdan hátt sem er grundvöllur þess að borgin geti haldið áfram að þróa framúrskarandi stafræna þjónustu fyrir borgarbúa og innviði í takt við þarfir framtíðarinnar. Á sama tíma er líkaninu ætlað að raungera fjárhagslegt hagræði innan borgarkerfisins á þeim stöðum sem það verður til í kjölfar stafrænnar umbreytingar.

Rúmlega þriggja ára samstarfi Reykjavíkur við Bloomberg Philanthropies lauk einnig á árinu sem kallaði á enn frekari fækkun í starfsliði sviðsins. Breytingin var umtalsverð en við lok ársins hafði starfsfólki sviðsins fækkað úr um 215 í um 170 þegar mest var.

Innleiðing rekstrarlíkansins hefur gengið misvel, sem er að einhverju leyti skiljanlegt þar sem um frekar róttæka breytingu er að ræða. Þegar tekst að innleiða líkanið að fullu mun það skapa aukið gegnsæi og sveigjanleika í borgarkerfinu.

Líkanið er í grunninn eftirspurnardrifið, sem gerir það að verkum að þörf og áhugi annarra sviða eða stjórnmálafólks á stafrænni þróun mun að einhverju leyti stjórna fjármögnun verkefna. Auk þess mun það auðvelda okkur að aðlaga starfsemi sviðsins að þeirri eftirspurn sem til staðar verður hverju sinni.

Aukið samstarf sveitarfélaga

Árið 2024 færði okkur marga sigra, bæði stóra og smáa. Til að nefna fáeina þá voru stigin stærri og markvissari skref í samstarfi sveitarfélaga í stafrænni framþróun en áður. 

Segja má að stakkaskipti hafi orðið á þeim vettvangi og skilningur aukist á þeim tækifærum sem geta skapast í samvinnu við þróun og rekstur stafrænna lausna. Ef áfram gengur vel mun þetta að líkum hafa mikil áhrif inn í framtíðina.  

Annað sem má nefna er að Mínar síður borgarinnar hafa þróast mjög mikið og eru í raun orðnar að einu af kjarnakerfunum í þjónustu borgarinnar. Þessi vara er einnig komin á þann stað að raunhæft má telja að sameina hana við mínar síður Ísland.is

Þannig yrði stórt skref stigið í að raungera þá sýn að öll opinber þjónusta sé aðgengileg á einum stað, sem yrði stórt framfaraskref fyrir notendur. Borgin hóf viðræður við Stafrænt Ísland um þetta á árinu og því samtali verður haldið áfram.  

Okkur þykir vænt um þessa viðurkenningu. Hún staðfestir að sterkur starfsandi og gott vinnuumhverfi sem laðar til sín hæfileikaríkt starfsfólk er einn lykillinn að árangri okkar undanfarin ár.

Verðlaunaár

Við fengum verðlaun á árinu og þar bar hæst gullverðlaun Seoul Smart City Prize fyrir Betri borg fyrir börn verkefnið sem vakti mikla athygli þar. Reykjavík var einnig í sviðsljósinu í tengslum við City Lab-ráðstefnuna í Mexíkó og á Smart City Expo í Barcelona.

Síðast en ekki síst fékk þjónustu- og nýsköpunarsvið vottun sem „Great Place to Work,“ og var þar í öðru sæti stórra vinnustaða sem sérlega góður vinnustaður fyrir konur. Okkur þykir vænt um þessa viðurkenningu. Hún staðfestir að sterkur starfsandi og gott vinnuumhverfi sem laðar til sín hæfileikaríkt starfsfólk er einn lykillinn að árangri okkar undanfarin ár.

Malbik eða stafrænir innviðir

Stafræn vegferð borgarinnar hélt þannig áfram á árinu en í umtalsvert öðrum takti en fyrri ár. Flestum er nú orðið ljóst að á tímum sífellt hraðari tækniþróunar er það viðvarandi verkefni að framþróa og endurskoða hvernig þjónusta er veitt og hvar tækni getur komið að notum við að gera hana betri og aðgengilegri. Við höfum stundum líkt stafrænum innviðum við malbik: Hvorki malbik né stafrænir innviðir eru lífsnauðsynleg fyrirbæri en bæði búa yfir svipuðum eiginleikum, þó að um ólík fyrirbæri sé að ræða. 

Bæði innifela lífsgæði sem flest okkar vilja ekki vera án og bæði auðvelda flutning upplýsinga og aðfanga á milli aðila, þó með ólíkum hætti sé. Bæði eru kostnaðarsamir innviðir sem krefjast mikils undirbúnings og umtalsverðrar fjárfestingar í byrjun. Bæði slitna og úreldast við notkun og þarfnast því viðhalds og framþróunar. Með aukinni notkun krefjast bæði stækkunar eða endurhönnunar. Í báðum getur umferð teppst sem veldur oftast miklu uppnámi. Helsti munurinn á þessum fyrirbærum er annars vegar að góð framkvæmd malbikunar verður varla framkvæmd án stafrænna innviða. Á hinn bóginn elskar flest fólk gott malbik – en síður stafræna innviði sem sjálfstætt fyrirbæri.

Við höfum líka stundum lýst vegferð síðustu ára á þann veg að oft höfum við verið að ryðja akbrautina og malbika hana á sama tíma en erum nú komin á þann stað að vegstæðið framundan liggur skýrar fyrir – þó að áfram þurfi að styrkja veginn til að mæta þeim kröfum sem tækni framtíðarinnar mun setja okkur. 

Við lok árs 2024 finnum við sem störfum á þjónustu- og nýsköpunarsviði sífellt skýrar að við höfum náð eftirtektarverðum árangri.

Hressandi skilaboð

Við lok árs 2024 finnum við sem störfum á þjónustu- og nýsköpunarsviði sífellt skýrar að við höfum náð eftirtektarverðum árangri. Það má meðal annars merkja af áhuga og endurgjöf opinberra aðila sem og stórra og smárra fyrirtækja á einkamarkaði, innan lands og utan, sem sækjast eftir að kynnast því hvernig við framkvæmum margvísleg verkefni – allt frá þjónustuveitingu í framlínu, yfir í skjalahögun, verkefnastýringu, högun upplýsingatæknimála og svo mætti lengi telja. Slík skilaboð er sannarlega hressandi og gefandi að fá þegar verið er að feta að einhverju leyti óþekktar slóðir.