Þjónusta sem skiptir máli

Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024

Stjórnsýsla og stefnumótun

Stafrænt ráð

Árið 2024 heyrði starfsemi þjónustu- og nýsköpunarsviðs undir stafrænt ráð.

Ráðið er skipað pólitískt kjörnum fulltrúum úr bæði meirihluta og minnihluta borgarstjórnar. Hlutverk þess er að fylgja eftir stafrænni umbreytingu, stuðla að gagnsærri stjórnsýslu og bæta þjónustu borgarinnar þannig að hún verði einfaldari, skilvirkari og aðgengilegri.

Auk þess vinnur ráðið að eflingu lýðræðisþátttöku, styður við nýsköpun og snjallvæðingu og tryggir að tækni sé nýtt markvisst í stefnumótun borgarinnar.

Á árinu 2024 fundaði stafrænt ráð 18 sinnum.

Við lok árs sátu í ráðinu:

  • Alexandra Briem, formaður
  • Kristinn Jón Ólafsson 
  • Skúli Helgason 
  • Aðalsteinn Haukur Sverrisson 
  • Björn Gíslason 
  • Friðjón R. Friðjónsson 
  • Andrea Helgadóttir

Fyrirspurnir og erindi

Á árinu 2024 bárust sviðinu 30 erindi og fyrirspurnir frá borgarfulltrúum til umfjöllunar og afgreiðslu. Slík mál eru liður í lýðræðislegri stjórnsýslu og stuðla að gagnsæi og ábyrgð gagnvart íbúum borgarinnar. Fyrirspurnir varða margvísleg málefni, þar á meðal:

  • stafræna þjónustu og innleiðingu nýrra kerfa
  • skráningu gagna og rekjanleika
  • upplýsingagjöf og aðgengi að þjónustu
  • innri ferla og umbætur í stjórnsýslu

Afgreiðsla þessara mála er oft unnin í samstarfi við aðrar einingar innan borgarkerfisins og undir leiðsögn ábyrgðaraðila sviðsins.

Stefnumótun

Þjónustu- og nýsköpunarsvið gegnir virku hlutverki í mótun og framgangi stefnumótandi mála sem varða stafræna þjónustu, gagnastýringu og nýsköpun innan Reykjavíkurborgar. Á árinu 2024 lagði sviðið reglulega fram mál til umfjöllunar í stafrænu ráði og öðrum viðeigandi ráðum og nefndum. Erindin lúta meðal annars að:

  • Mótun stefnu og innleiðingaráætlana, svo sem um stafræna stefnu borgarinnar, þjónustustefnu og gagnaumgjörð.
  • Kynningu á nýjum verkefnum og lausnum, þar sem m.a. voru kynnt umbótaverkefni, stafrænar lausnir og þróun nýrra þjónustukerfa.
  • Afburðarstjórnun og umbætur, þar sem greint var frá stöðu innri ferla, ábatasemismati og skrefum í átt að skilvirkari stjórnsýslu.
  • Kynningu á þátttöku í innlendu og erlendu samstarfi, til að upplýsa fulltrúa og kalla eftir samþykki eða umfjöllun þegar við á (til dæmis þátttaka í Seoul Smart City Prize, CC4DR og Smart City Expo í Barcelona).

Slík erindi stuðla að gagnsærri stefnumótun, skýrari verkaskiptingu og markvissri upplýsingamiðlun til kjörinna fulltrúa. Þau eru jafnframt vettvangur fyrir ráðin til að fylgjast með framvindu lykilverkefna, leggja mat á árangur og leggja fram ábendingar og tillögur að umbótum.

Teikninga af vegvísi sem táknar stefnur.

Stefnur

Starfsemi þjónustu- og nýsköpunarsviðs byggir á stefnum borgarinnar.

Sviðið ber einnig ábyrgð á innleiðingu og framkvæmd þeirra stefna sem heyra beint undir það.

Atvinnu- og nýsköpunarstefna

Atvinnu- og nýsköpunarstefna Reykjavíkur styður starfsfólk við að móta framtíðina. Nýsköpun er lykill að þróun samfélagsins og tengist fjölbreyttum sviðum, þar á meðal menningu, listum, stjórnsýslu og ýmiss konar þjónustustarfsemi.

Stefnan miðar að því að Reykjavík verði alþjóðlega viðurkennd sem borg þar sem sköpunarkraftur og framtakssemi fær að blómstra. Markmiðið er að borgin sé spennandi staður til að búa, starfa og heimsækja. Með nýjum hugmyndum og sköpun verða til samfélagsleg, efnahagsleg og menningarleg verðmæti í sátt við umhverfið.

Kjarnaáherslur stefnunnar eru: 

  • Sameiginlegur skilningur borgar og atvinnulífs
  • Gott umhverfi atvinnulífs og nýsköpunar
  • Fleiri stoðir verðmætasköpunar
  • Sögur úr borginni
  • Grænn vöxtur
  • Engin skilin eftir

Stafræn stefna

Vinna við stafræna stefnu borgarinnar hélt áfram á árinu. Stafræn stefna Reykjavíkurborgar leggur áherslu á að gera þjónustu borgarinnar aðgengilegri, skilvirkari og notendavænni. Með því að nýta stafrænar lausnir og gögn á markvissan hátt er stefnt að betri þjónustu fyrir íbúa, fyrirtæki og starfsfólk borgarinnar.

Stefnan snýst um að efla stafrænt aðgengi, stuðla að valdeflingu íbúa og nýta tækni til að styðja við sjálfbæra þróun og nýsköpun. Jafnframt er lögð áhersla á örugga og ábyrga meðferð gagna, skýra samvinnu milli sviða og sífellda framþróun innviða borgarinnar.

Við árslok 2024 var vinna við stefnuna á lokastigi. Stefnt er að því að ljúka henni á árinu 2025 og innleiða í starfsemi borgarinnar.

Skjalastefna

Skjalastefnan tryggir örugga meðferð og varðveislu skjala borgarinnar. Hún nær til allra skjala sem eru móttekin, útbúin eða geymd í starfsemi borgarinnar og hjá félögum í meirihlutaeigu hennar.

Markmiðið er að tryggja að skjöl séu rétt skráð, vel varin og aðgengileg þegar þeirra er þörf, bæði til daglegra nota og framtíðarvarðveislu. Stefnan tryggir einnig að skjöl séu varðveitt í samræmi við lög og bestu starfsvenjur.

Þjónustustefna

Þjónustustefnan er kjarni allrar starfsemi þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Reykjavíkurborg er þjónustuaðili, þar sem meginhlutverk hennar er að veita íbúum, fyrirtækjum og gestum borgarinnar fjölbreytta þjónustu.

Stefnan lýsir sameiginlegri sýn borgarinnar á hvað þjónusta snýst um. Í henni eru sett fram leiðarljós og markmið sem nýtast starfsfólki í daglegu starfi og skilgreina viðmið og gæðakröfur fyrir þjónustuna.

Markmið þjónustustefnunnar:

  • Fagmennska – þjónusta er sérhæfð fagkunnátta sem flétta þarf inn í alla starfsemi borgarinnar og gæðastýra.
  • Notendamiðuð þjónusta – þjónustu skal hanna og skipuleggja út frá þörfum og sjónarhorni notenda.
  • Skilvirkni – þjónusta skal ganga greiðlega fyrir sig og vera aðgengileg fyrir notendur.