Þjónusta sem skiptir máli

Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024

Þjónusta og umbreyting

Skrifstofa þjónustu og umbreytinga leiðir umbreytingu á þjónustu og endurhönnun þjónustuferla innan borgarinnar. Skrifstofan sér einnig um innleiðingu þjónustustefnunnar ásamt því að bera ábyrgð á samræmdri framlínuþjónustu Reykjavíkur og þjónustuveri.

Deild umbreytinga

Deild umbreytinga sér um að greina, hanna, framleiða og innleiða bætta þjónustu. Á árinu samanstóð deildin af sérfræðingum í framleiðslu stafrænna verkefna, sérfræðingum í þjónustuupplifun, þjónustuhönnuðum, stafrænum vöruhönnuðum, textasmiðum, myndhönnuði og notendarannsakanda.

Með fólkið í forgrunni

Á árinu vann deildin að fjölbreyttum verkefnum með það að markmiði að gera þjónustu borgarinnar einfaldari, aðgengilegri og skilvirkari.

Notendamiðuð nálgun var höfð að leiðarljósi í allri vinnu, þar sem lögð var áhersla á þarfagreiningu, prófanir og náið samstarf við starfsfólk og íbúa.

Nýjar lausnir voru þróaðar, þekkingu miðlað og haldnar fjölmargar vinnustofur til að styðja við umbætur í þjónustu borgarinnar.

Fólk í fyrsta sæti

Þarfagreining fyrir Ártúnshöfða

Þarfagreining var unnin fyrir menningar- og samfélagshús nýs borgarhluta við Ártúnshöfða. Greiningin var óvenjuleg að því leyti að ekki var hægt að taka viðtöl við raunverulega notendur, enda viðfangsefnið hús sem er ekki til í hverfi sem er ekki til.

Í staðinn var rætt við íbúa á nýlega byggðum svæðum til að skilja hvort skortur á þjónustu og samfélagsrýmum hefði áhrif á upplifun þeirra. Grunnþarfir íbúa voru kortlagðar og settar fram tillögur að rýmum sem gætu mætt þessum þörfum.

Mínar síður

Mínar síður héldu áfram að vaxa og dafna og eru ein stærsta stafræna vara borgarinnar. Þar er hægt að óska eftir þjónustu á einfaldan hátt og fylgjast með stöðu sinna mála. Markmið þeirra er að einfalda líf fólks og fyrirtækja í borginni með því að bjóða upp á betra aðgengi að opinberri þjónustu.

Á árinu bættust við ýmsar nýjungar, þar á meðal ný umboðslausn í gegnum island.is sem gerir einstaklingum og prókúruhöfum fyrirtækja kleift að veita öðrum umboð til að sinna sínum málum á Mínum síðum.

Aðrar viðbætur voru meðal annars:

  • Birting á stöðu mála fyrir forsjáraðila vegna innritunar í grunnskóla
  • Umsókn um íbúakort
  • Upphleðsla skjala eftir innsendingu
  • Öruggar boðgreiðslur
  • Stafrænt pósthólf
  • Tilkynningarform fyrir tæknileg vandamál
  • Tungumálastillingar

Bloomberg-samstarf

Árið 2021 hlaut Reykjavíkurborg styrk upp á um 2,5 milljónir bandaríkjadala frá Bloomberg Philanthropies, góðgerðarsamtökum í eigu Michael Bloomberg. Samtökin styðja við samfélagsverkefni um allan heim sem miða að því að bæta lýðheilsu, menntun, umhverfi, borgarþróun og aðgengi að menningu og listum.

Styrkurinn gerði borginni kleift að stofna svonefnt i-teymi til að hraða stafrænni umbreytingu. Þetta var mikil viðurkenning á forystu Reykjavíkur á heimsvísu þegar kemur að þróun opinberrar þjónustu. Fjölmargar borgir sóttu um styrkinn og auk Reykjavíkur hlutu Amsterdam, Bogotá, Mexíkóborg, San Francisco og Washington D.C. sambærilegan styrk.

Samstarfið veitti sviðinu tækifæri til að ráða inn starfsfólk með afar fjölbreytta reynslu úr ólíkum geirum. Meðal annars var gerð krafa um ráðningu listamanns sem gaf umbreytingaverkefnum sviðsins nýja vídd og opnaði á skapandi lausnir. Auk listamanns voru ráðin til starfa félagssálfræðingur, samskiptasérfræðingur og gagnasérfræðingur sem öll lögðu sitt af mörkum til nýrra nálgana og lausna.

Teikning af fólki á kökuriti.

Stafrænn vegvísir

Með stuðningi sérfræðinga frá Bloomberg var unnið að vegvísi fyrir stafræna umbreytingu borgarinnar. Stafrænn vegvísir dregur fram nauðsynlegar lykiláherslur til að tryggja stafræna sjálfbærni til framtíðar. Með vegvísinum var framtíðarsýn sviðsins til næstu fimm ára skilgreind og markmið sett fram í formi stefnuljósa ásamt viðeigandi aðgerðum.

Betri borg fyrir börn

Fyrsta verkefni samstarfsins var jafnframt eitt stærsta og flóknasta umbreytingarverkefni borgarinnar: Betri borg fyrir börn. Verkefnið snerist um að bæta þjónustu fyrir börn sem þurfa aukinn stuðning í skóla, sem í daglegu tali er nefnd skólaþjónusta.

Hannað var nýtt þjónustuferli með skýrara hlutverki og áherslum, ásamt nýjum umsóknareyðublöðum og skýrum verklagsreglum. Þá voru stofnuð þverfagleg lausnateymi í skólum sem kortleggja stöðu barna og styðja við þau. Á árinu var einnig unnið að þróun stafrænnar lausnar sem styður nýja þjónustuferlið og byggir á gildum snemmtækrar íhlutunar og þjónustuhönnunar og lögum um farsæld barna.

Fjöltyngi

Annað verkefni Bloomberg-samstarfsins sneri að því að finna leiðir til að styðja betur við fjöltyngd börn og foreldra þeirra. Ítarleg greiningarvinna með sérfræðingum, kennurum og 50 foreldrum fjöltyngdra barna frá 25 löndum leiddi til þróunar á þremur lausnum:

  • Markmiðasetningatól – Tól til að hjálpa kennurum, foreldrum og börnum að setja sameiginleg markmið byggð á raunhæfum væntingum um íslenskunám.
  • Sammála – Mentoraprógram sem tengir saman börn sem eru að læra íslensku við þau sem eru lengra komin.
  • Upplýsingapakki – Miðlægur lendingarstaður með leiðbeiningum um skólakerfið, gagnlegum verkfærum og efni til að efla íslenskukunnáttu.

Verkefninu lauk formlega haustið 2024. Stefnt er á innleiðingu í alla skóla í Reykjavík, og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu vinnur einnig að því að gera lausnirnar aðgengilegar skólum á landsvísu.

Leyfi og líf í borginni

Síðasta verkefni samstarfsins snerist um greiningu á starfsleyfisferlum hjá umhverfis- og skipulagssviði. Greind voru viðtöl, gögn og samtöl við umsækjendur, starfsfólk borgarinnar og hagaðila í veitingarekstri.

Niðurstöðurnar bentu til ýmissa áskorana í ferlinu og til að bregðast við þeim voru lagðar til lausnir sem einfalda umsóknarferlið, auka stuðning við umsækjendur, bæta upplýsingagjöf og aðgengi að leiðbeiningum og tryggja meira samræmi í þjónustu og verklagi.

Verkefninu lauk í desember 2024, en næstu skref ráðast af ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Jafnframt er innleiðing nýs eftirlitskerfis hafin og unnið er að samræmingu milli sveitarfélaga.

Teikning af fólki á göngu með litla fána og einn stóran fána með merki Reykjavíkurborgar.

Túlkun sem fólk tengir við

Þó Bloomberg-samstarfinu sé formlega lokið gætir áhrifa þess enn víða á sviðinu og í borginni allri í formi stafrænna vara, þjónustu og menningar. Sýnilegasta afurðin er ef til vill framlag listamannsins, sem tókst með verkum sínum að setja flókin gögn og margbreytilegan veruleika í skiljanlegt, aðgengilegt og lifandi form sem flest okkar geta tengt við. 

Ráðstefnur, fyrirlestrar og fræðsla

Deild umbreytinga tók þátt í þó nokkrum ráðstefnum á árinu um þjónustuhönnun og umbætur í opinberri þjónustu, bæði til að miðla eigin reynslu og læra af erlendum sérfræðingum. 

Ráðstefna – til þjónustu reiðubúin

Þann 19. september hélt þjónustu- og nýsköpunarsvið fyrstu ráðstefnuna um opinbera þjónustu hér á landi. Yfirskriftin var „Til þjónustu reiðubúin!“ og á dagskránni voru fjölbreytt erindi um ýmsar hliðar opinberrar þjónustu, frá bæði Reykjavík og öðrum sveitarfélögum og stofnunum. Ráðstefnan var opin öllum og þátttakendur voru rúmlega 200 manns. 

Áhersla ráðstefnunnar var á þjónustuhönnun og notendaupplifun og horft var til hvernig ríki og sveitarfélög veita íbúum þjónustu þvert á stjórnsýslustig. Meðal erinda voru umfjöllun um þjónustuaukningu við fjöltyngd börn í Reykjavík, þjónustuumbreytingu á Landspítalanum og mótun þjónustustefnu ríkisins.

Hluti af ráðstefnunni voru þrjár vinnustofur þar sem 60 þátttakendur fengu tækifæri til að dýpka þekkingu sína í faginu. Vinnustofunum var stýrt af leiðandi sérfræðingum á heimsvísu í notendaupplifun, þjónustuhönnun og borgarþróun, þeim Lou Downe, Adam Lawrence og Cecilie Bang Shulze.

Erindi á ráðstefnu í Helsinki

Teymisstjórar þjónustu- og vöruhönnunar héldu erindi á ráðstefnunni International Design in Government í Helsinki um hvernig Reykjavík hefur byggt upp innanhúss-hönnunarkúltúr og innleitt aðferðir hönnunar í þjónustuumbreytingarverkefnum.

Stjórnendadagurinn

Á stjórnendadegi Reykjavíkur var sjónum beint að góðri þjónustu. Þar var lögð áhersla á mikilvægi þess að greina upplifun notenda til að hanna réttu lausnirnar og tryggja að þjónustan mæti raunverulegum þörfum borgarbúa.

Afleggjarinn

Vorið 2024 fór fram fyrsti Afleggjarinn, átta vikna þjónustusprettur þar sem starfsfólk víðs vegar úr borgarkerfinu kom saman til að finna nýjar leiðir til að bæta þjónustu og einfalda starfshætti. Verkefnið er hluti af innleiðingu þjónustustefnu borgarinnar og byggir á aðferðum þjónustuhönnunar.

Þátttakendur unnu að raunverulegum áskorunum og þróuðu lausnir sem til að innleiða á sínum starfsstöðum. Sem dæmi einfaldaði starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs ferla við útiveitingaleyfi og starfsfólk velferðarsviðs vann að samþættri þjónustu við íbúa.

Verkefninu lauk með uppskeruhátíð þar sem lausnir voru kynntar og þátttakendur hlutu viðurkenningu sem leiðtogar í þjónustuumbreytingu. Næsti Afleggjarinn fer fram haustið 2025.

Teikning af afleggjara í blómapotti.

Þjónustuupplifun

Árið 2024 nýtti teymi þjónustuupplifunar fjölbreyttar og skapandi aðferðir til að styðja við innleiðingu þjónustustefnu borgarinnar. Teymið prófaði ný verkfæri, hélt vinnustofur og flutti erindi til að styrkja þjónustumenningu innan borgarkerfisins.

Slönguspilið

Teymi þjónustuupplifunar setti af stað skapandi lausn í formi slönguspils til að kortleggja notendaferðalag í þjónustu borgarinnar. Slönguspilið gefur starfsfólki leikandi og áhugaverða leið til að skilja upplifun notenda betur.

Lyklar að góðri þjónustu

Teymið kynnti tíu lykla að góðri þjónustu á stjórnendadegi borgarinnar. Í kjölfarið var unnið að gerð myndbands um lykla að góðri þjónustu, sem mun nýtast í fræðslu fyrir allt starfsfólk borgarinnar.

Könnunarhugbúnaðurinn Qualtrics

Teymið lauk við kaup á miðlæga könnunarhugbúnaðinum Qualtrics sem tryggir samræmda nálgun við gerð þjónustumælinga þvert á borgina. Unnið er að innleiðingu búnaðarins samhliða þróun á bættu verklagi og fræðsluefni í samstarfi við sérfræðinga sviðanna í árangurs- og þjónustumælingum.

Lego Serious Play

Teymið fór út fyrir landsteinana til að bæta við sig sérhæfingu í LEGO SERIOUS PLAY. Þessi skapandi aðferðafræði er notuð við ýmsar aðstæður, svo sem við að samstilla teymi, umbótavinnu, stefnumótun, breytingastjórnun, persónulega þróun og hugmyndavinnu. Teymið beitti aðferðinni til dæmis við stefnumótun með þjónusturáðgjöfum framlínu borgarinnar.

Þjónustuvika umhverfis- og skipulagssviðs

Teymið tók þátt í að skipuleggja árlega þjónustuviku umhverfis- og skipulagssviðs í mars og hélt tvö erindi fyrir starfsfólk sviðsins um hagnýtar aðferðir til að bæta þjónustuupplifun notenda.

Á bak við innleiðingartjöldin

Á fyrstu ráðstefnu borgarinnar um góða opinbera þjónustu hélt teymið erindið „Á bak við innleiðingartjöldin“, þar sem fjallað var um ólíkar leiðir til að innleiða stefnu líkt og þjónustustefnuna. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að vera sveigjanleg og óhrædd við að prófa ný tól og aðferðir til að ná til fólks og mæta því þar sem það er statt hverju sinni.

Vinnustofur og ferlagreiningar

Fjölbreyttar vinnustofur voru haldnar með hinum ýmsu hópum inni á sviðum borgarinnar með það að markmiði að skýra ferla, skoða upplifun notenda og finna tækifæri til umbóta.

Framlínan

Árið 2024 var viðburðaríkt hjá framlínunni og einkenndist af umbótum og aukinni sjálfvirkni stafrænna lausna. Lögð var áhersla á einfaldari ferla og markvissari þjónustu ásamt því að efla samstarf við aðrar deildir innan sviðsins.

Snjallari þjónusta með samræmdari ferlum

Á árinu sem leið hóf framlínan umbótavinnu með sorphirðunni við að bæta svörun í fyrstu snertingu. Vinna með Bílastæðasjóði hélt einnig áfram. Í samstarfi við skrifstofu þjónustu og samskipta á umhverfis- og skipulagssviði var endurhannað flæði erinda frá framlínu til sérfræðinga. Sérhæfing sviðstengiliða velferðarsviðs var aukin til að bæta þjónustu barnaverndarsímtala og með mannauðs- og starfsumhverfissviði var unnið að samræmdu gæðaferli vegna kvartana. Ný ferli voru einnig sett um viðbrögð við ógnandi hegðun í þjónustuveri.

Verkbeiðnir í Jira

Á árinu innleiddi framlínan Jira sem nýtt verkbeiðnakerfi. Kerfið stofnar beiðnir sjálfkrafa fyrir flest netföng sem framlínan hefur umsjón með, sem dregur úr handvirkri skráningu og eykur skilvirkni. Samhliða voru flæði beiðna skilgreind, bæði innan framlínu og á milli deilda, og sjálfvirk svör til íbúa sett upp.

Jira auðveldar einnig greiningu á erindum, svo sem hlutfalli þeirra sem er svarað í fyrstu snertingu og þeirra sem eru send áfram til sérfræðinga. Með kerfinu fæst loks betri yfirsýn yfir heildarfjölda innsendra erinda, sem áður var erfitt að rekja þegar beiðnir bárust eingöngu í tölvupósti.

Innleiðingin styður við skilvirkari móttöku erinda á sviðunum og opnar á möguleika til að nýta Jira sem hluta af nýjum ábendingavef.

Andlitslyfting á Confluence

Unnið var að endurhönnun á viskubrunni framlínunnar í Confluence í samstarfi við vefteymi og gervigreindarsérfræðing þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Markmiðið er að bæta aðgengi að upplýsingum og hámarka framleiðni. Með nýju sérhönnuðu svæði verða möguleikar gervigreindar og Confluence samþættir til þess að skapa öflugri og notendavænni þekkingargrunn.

Kaup á leyfum í Genesys

Útboð vegna kaupa á samskiptalausn framlínu var klárað og gerður þriggja ára samningur um kaup á leyfum í Genesys sem Advania þjónustar. Kerfið hefur verið jafnt og þétt í aðlögun að þörfum framlínunnar en það veigamesta sem var gert á árinu var uppsetning á neyðarflæði sem hægt er að virkja ef það kemur til rýmingar á starfsstöðum framlínunnar.

Rafræn skilríki

Gerður var samningur við Auðkenni á árinu um skráningarstöð í þjónustuveri framlínu Reykjavíkur. Borgin varð þannig fyrst sveitarfélaga til að gera slíkan samning við Auðkenni. Með þessu varð til nýtt hlutverk skráningar- og fræðslufulltrúa Auðkennis í framlínunni. Þetta verkefni mun bæta aðgengi og styðja við sjálfsafgreiðslulausnir sem borgin býður upp á sem krefjast rafrænnar auðkenningar notenda.

Sterk og samræmd framlína

Á árinu fékk eignaumsjón upplýsingatækniþjónustunnar starfsstöð í þjónustuverinu. Breytingin hefur reynst farsæl, bæði fyrir vinnuumhverfi eignaumsjónar og samvinnu deilda, auk þess sem hún eykur aðgengi starfsfólks að þjónustu upplýsingatækniþjónustunnar.

Samræmd framlína gegnir lykilhlutverki í því að efla svörun í fyrstu snertingu, sem er eitt af meginmarkmiðum þjónustustefnu borgarinnar. Í takt við þróun þjónustunnar hafa verkefni framlínunnar færst frá almennri upplýsingagjöf og yfir í markvissari ráðgjöf. Því var tekin ákvörðun um að breyta starfsheitinu úr „þjónustufulltrúi“ í „þjónusturáðgjafi“, sem endurspeglar betur raunverulegt hlutverk og áherslur starfsins í dag.

Meiri sjálfvirkni og stafræn þróun

Á árinu tók stafræna vinnuaflið Þjarkur við svörun fyrirspurna um stöðu fasteignagjalda. Áður bárust 20–40 beiðnir daglega í tölvupósti sem þjónusturáðgjafar þurftu að afgreiða handvirkt. Með tilkomu Þjarks fara allar beiðnir nú í gegnum sjálfvirkt ferli sem eyðir biðtíma, eykur skilvirkni og losar tíma hjá starfsfólki fyrir önnur verkefni.

Póstferli voru einnig einfölduð með því að fela starfsfólki að skrá ábyrgðarbréf sjálf á postur.is áður en þau eru afhent til útsendingar. Þannig fer rakningarnúmer beint til sendanda og ábyrgð skýrist.

Að auki tók framlínan að sér ný verkefni í innri þjónustu. Þar má nefna skráningu gagna úr Mínum síðum inn á Hlöðuna fyrir byggingarfulltrúa og afhendingu starfsmannakorta í samstarfi við rekstrarþjónustu. Með þessum breytingum er framlínan að styðja við skjótari afgreiðslu erinda og létta álagi af sérfræðingum borgarinnar.

Fræðsla

Á árinu hófst vinna við nýtt skipulag á fræðslu fyrir framlínuna á Torginu. Reglulegir fundir voru teknir upp með þjónusturáðgjöfum þar sem greind voru tækifæri og áskoranir í framlínuþjónustu borgarinnar. Með aukinni áherslu á samtal og samvinnu var skapaður vettvangur fyrir miðlun reynslu og eflingu færni, sem styrkir bæði þjónustuna og starfsumhverfið.

Þjónusturáðgjafar framlínunnar sóttu einnig alþjóðlega ráðstefnu, Customer Contact Week, í Amsterdam. Ráðstefnan var mikilvægur vettvangur til að sækja nýja þekkingu, fylgjast með þróun í alþjóðlegri framlínuþjónustu og miðla góðum hugmyndum heim.