Þjónusta sem skiptir máli
Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024
Gagnaþjónustan
Hlutverk gagnaþjónustunnar er að skapa virði úr gögnum með því að stuðla að betri nýtingu þeirra. Hún veitir einnig ráðgjöf í gagna- og tölfræðimálum, tryggir aðgengi að réttum gögnum og mótar gagnastefnu borgarinnar.
Gagnaþjónustan 2024
Gagnahögun: Tryggir gæði og aðgengi borgarbúa og starfsfólks að réttum og áreiðanlegum gögnum.
Gagnavísindi: Sinnir flóknari gagnagreiningum. Þar á meðal eru tölfræðigreiningar, skýrslugerðir, þróun og innleiðing á gervigreindarlíkönum.
Gagnamiðlun: Miðlar sögunni sem gögnin segja okkur á einfaldan, skýran og skiljanlegan máta. Leggur mikla áherslu á stafrænt aðgengi að gögnum.
Markmið og mikilvægi gagnaþjónustunnar
Meginmarkmið gagnaþjónustunnar er að efla gagnavitund og stuðla að markvissri notkun gagna innan borgarinnar. Með því að tryggja að rétt gögn séu aðgengileg réttu fólki á réttum tíma styður gagnaþjónustan við upplýsta ákvarðanatöku og bætir þjónustu við íbúa, starfsfólk og fyrirtæki.
Lögð er áhersla á að þróa notendavænar lausnir sem nýtast öllum, óháð menntunarstigi, þjóðerni eða samfélagslegri stöðu. Fólk á ekki að þurfa að vera sérfræðingar í gögnum eða opinberri stjórnsýslu til að geta nýtt sér gögn borgarinnar til gagns og gamans.
Til að ná þessum markmiðum vinnur gagnaþjónustan að uppbyggingu traustra gagnainnviða og umbreytingu á verklagi í skráningu og meðhöndlun gagna. Þetta er nauðsynlegt til að styðja við önnur svið borgarinnar og tryggja að gögn séu nýtt á skilvirkan og ábyrgan hátt í stjórnsýslu og þjónustu borgarinnar.
Framtíðarsýn
- Draga úr sóun og bæta nýtingu gagna
- Auka gagnsæi í stjórnsýslu og einfalda ferla
- Tryggja skýrari ábyrgð og samræmda notkun gagna
- Bæta aðgengi að upplýsingum og stuðla að betri ákvörðunum
- Halda áfram að þróa notendamiðaðar lausnir sem styðja við gagnadrifna stjórnsýslu og bætta þjónustu við íbúa.
Gervigreind
Mikil tækifæri felast í hagnýtingu gagna, sérstaklega þegar kemur að innleiðingu gervigreindar í starfsemi borgarinnar. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í tengslum við hagnýtingu og miðlun gagna liggja enn fjölmörg tækifæri ónýtt.
Gervigreind nýtir gögn til að læra og leysa aðgerðir sem annars myndu krefjast inngrips manneskju. Gervigreind byggir alfarið á gögnum og er mikilvægt að tryggja gæði gagnanna sem hún vinnur með, meðal annars með því að byggja upp trausta gagnainnviði, réttleika gagna og stuðla að fræðslu.
Gagnaverkefni eru viðamikil og snerta alla starfsemi Reykjavíkur, en þau eru jafnframt mikilvægur hlekkur í heildstæðri gagnauppbyggingu hennar, aukinni skilvirkni, gagnsæi og ákvarðanatöku.
Áherslur ársins
Á árinu 2024 var lögð sérstök áhersla á að bæta yfirsýn yfir gögn, einfalda aðgengi að þeim og draga úr þeim tíma sem starfsfólk þarf til að afla upplýsinga fyrir ákvarðanatöku. Þá var settur aukinn kraftur í að undirbúa starfsemina fyrir mögulega hagnýtingu gervigreindar og þau tækifæri sem hún hefur í för með sér.
Helstu áskoranir:
- Stórt og flókið upplýsingatækniumhverfi með miklu magni gagna
- Skortur á yfirsýn yfir gögn og gagnastreymi
- Mikill tími og fyrirhöfn starfsfólks til að nálgast og nýta gögn
- Skortur á samræmdri skráningu, ferlum og gagnastjórnun þvert á borgina
Helstu verkefni:
Vöruhús gagna
Unnið var að þróun miðlægs vöruhúss gagna fyrir borgina þar sem gögn eru samræmd, hreinsuð og sett fram á aðgengilegan hátt fyrir starfsfólk og stjórnsýslu. Markmið vöruhússins er að tryggja að gögn séu nýtt á skilvirkan hátt og stuðli að betri ákvarðanatöku.
Gagnalandslag Reykjavíkur
Unnið var að kortlagningu og skipulagningu gagnaflæðis innan borgarinnar til að auðvelda miðlun og aðgengi að gögnum á milli sviða. Einnig að tryggja réttleika og gæði gagna ásamt öryggi þeirra.
Hugtakasafn
Sameiginleg hugtök og staðlar fyrir gagnaskráningu voru skilgreind til að tryggja samræmi í notkun og túlkun gagna.
Upplýsingasíða og kjörstaðaleit
Leiðarbestunarreiknirit frá landupplýsingakerfi Reykjavíkur (LUKR) sá um útreikninga á bestu gönguleið frá heimilisfangi að kjörstað.
Á upplýsingasíðunni var gagnvirkt viðmót þar sem hægt var að sjá sinn kjörstað, helstu göngu- og strætóleiðir, upplýsingar um kjördeildir, kjörstjórn, fundi og annað sem tengist kosningum. Árið 2024 voru 24 kjörstaðir í Reykjavík, svo það borgaði sig að fletta upp réttum stað til að forðast að mæta á rangan kjörstað.
Verklag og notkun Power BI (PBi)
Verklag fyrir notkun Power BI í borginni var þróað til að bæta yfirsýn og greiningu gagna fyrir stefnumótun og rekstrarlegar ákvarðanir.
Gagnahlaðborð og opin gagnagátt
Áfram var unnið að því að gera gögn borgarinnar aðgengileg almenningi og styrkja opna gagnastefnu Reykjavíkur.
Gagnahlaðborðið er vettvangur miðlunar þar sem hægt er að skoða opin gögn borgarinnar og lesa greiningar á mannamáli. Þar er einnig hægt að fletta upp í opnum gagnasöfnum borgarinnar í gegnum gagnagáttina, hlaða niður gögnum og nýta í ýmis verkefni.
Nýtt sorphirðudagatal
Uppfært sorphirðudagatal var tekið í notkun á árinu. Nú uppfærast dagsetningar sorphirðu sjálfkrafa í takt við breytingar hjá sorphirðunni, án þess að handvirkar breytingar þurfi að fara fram.
Dagatalið hefur fengið nýtt og notendavænna útlit, býður upp á ítarlegri upplýsingar um sorphirðu á hverju heimilisfangi og sýnir næstu grenndargáma með leiðarbestun frá heimili. Einnig er hægt að nálgast útprentanlega QR-kóða fyrir húsfélög og fleira gagnlegt.
Spálíkanagerð
Unnið var að þróun spálíkana sem styðja við ákvarðanatöku borgarinnar, meðal annars fyrir uppbyggingu og þróun skólahverfa.
Gagnaborð fyrir innri og ytri starfsemi borgarinnar
Á árinu var unnið markvisst að því að gera gögn aðgengilegri fyrir starfsfólk borgarinnar. Fjöldi gagnaborða leit dagsins ljós, flest þeirra hönnuð í Power BI. Þau gefa skýra mynd af stöðu mála, styðja við ákvarðanatöku og gera starfsfólki kleift að bregðast tímanlega við þegar þörf krefur.
Dæmi um gagnaborð sem voru útbúin:
- Ný framsetning á opnum fjármálum borgarinnar
- Fjárhagsáætlun Reykjavíkur í Power BI
- Mælaborð fyrir ráðninganefnd borgarinnar
- Tunnutalningamódel fyrir sorphirðu
- Mælaborð stjórnenda í Power BI
- Kynjuð fjárhagsgreining tæknibúnaðar