Þjónustuíbúðir | Reykjavíkurborg

Þjónustuíbúðir

Markmið með rekstri þjónustuíbúða er að mæta þörfum íbúa sem þar búa, stuðla að sjálfstæði þeirra svo sem hvað varðar fjármál og heimilishald og stuðla að sem mestri sjálfsbjargargetu hvers og eins. Þeim er ætlað að vera íbúum hentugur bústaður þar sem þeir geta haldið eigið heimili sem lengst við ákjósanlegar aðstæður. Með því móti er leitast við að fresta eða koma í veg fyrir stofnanadvöl.

Þjónustuíbúðir eru úrræði í þeim tilvikum þegar tilboð heilbrigðis- og félagsþjónustu í heimahús fullnægja ekki þjónustuþörf lengur og/eða þegar einstaklingur kýs að búa ekki lengur á heimili sínu.

Íbúar leigja þjónustuíbúðina af Félagsbústöðum, geta sótt félagsstarf í húsinu og verið í fullu fæði kjósi þeir það.  Veitt er heimaþjónusta inn í íbúðir eftir þörfum og óskum hvers og eins.

Fyrir hverja eru þjónustuíbúðir?

Þeir sem eru 67 ára og eldri og hafa átt lögheimili í Reykjavík í að minnsta kosti þrjú ár geta sótt um þjónustuíbúð á vegum borgarinnar.

Hvernig er sótt um þjónustuna?

Sækja þarf um þjónustuíbúð í þjónustumiðstöð í hverfi umsækjanda. Umsóknareyðublöð er hægt að nálgast í bláa rammanum hér að ofan.

Lindargata 57 - 66, þjónustuíbúðir

Á Lindargötu eru 94 íbúðir en þær eru nú ýmist í einkaeign eða leigu. Stærð íbúða er um 51-53 fm.

Í húsinu er starfrækt félags- og tómstundastarf og hægt er að kaupa hádegismat alla daga og kaffiveitingar virka daga. Heimaþjónusta er veitt samkvæmt einstaklingsbundnu mati. Á Lindargötu eða Vitatorgi er einnig rekin dagvistardeild fyrir fólk með heilabilun.

Öryggiskerfi er í öllum íbúðum og vakt allan sólarhringinn.

Nánari upplýsingar um þjónustuna eru veittar í síma 411 9450.

Seljahlíð, þjónustuíbúðir

Þjónustuíbúðirnar í húsinu eru 49 talsins, bæði einstaklings- og tveggja herbergja íbúðir. Í Seljahlíð er vakt allan sólarhringinn og öryggiskallkerfi í hverri íbúð. Seljahlíð er bæði þjónustuíbúðakjarni og hjúkrunarheimili. Heimaþjónusta er í húsinu og veitir aðstoð við þrif og þvotta. Í félagsmiðstöðinni er fjölbreytt félagsstarf í boði og virknihópur Seljahlíðar fékk viðurkenningu velferðarráðs árið 2012 fyrir þróunarstarf.

Í Seljahlíð er hægt að kaupa hádegismat alla daga vikunnar.

Nánari upplýsingar um þjónustuna eru veittar í síma 540 2400.

Dalbraut 21 - 27, þjónustuíbúðir

Á Dalbraut 27 eru 46 einstaklingsíbúðir. Á Dalbraut  21 - 25 eru 18 tveggja herbergja  íbúðir eða 3 raðhús með 6 íbúðum hver. Heilsugæslulæknar eru starfandi við þjónustuíbúðirnar. Vakt er allan sólarhringinn og er innanhússbjöllukerfi tengt frá hverri íbúð inn á vaktherbergi. Þeir sem þess þurfa fá aðstoð við að fara í bað, dagleg persónuleg þrif og heimilishjálp. Þvottur íbúa er þveginn. Íbúar geta verið í fullu fæði ef þeir óska þess.

Félagsstarf er fjölbreytt og leitast við að  laga það að óskum hvers og eins.

Í félagsmiðstöðinni er boðið upp á ýmis konar þjónustu og hægt er að kaupa hádegismat alla daga vikunnar.

Nánari upplýsingar um þjónustuna eru veittar í síma 411 2500.

Norðurbrún 1, þjónustuíbúðir

Að Norðurbrún 1 eru 60 þjónustuíbúðir, 52 íbúðir eru fyrir einstaklinga og 8 tveggja herbergja  íbúðir. Þjónustuíbúðir eru ætlaðar þeim sem þurfa aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili. Félagsmiðstöð er opin öllum aldurshópum alla virka daga frá kl. 9:00 - 17:00. Fjölbreytt dagskrá er í boði. Í félagsmiðstöðinni er boðið upp á ýmis konar þjónustu og hægt er að kaupa hádegismat alla daga vikunnar.

Öryggiskerfi er í húsinu og vakt allan sólarhringinn. Veitt er heimaþjónusta eftir þörfum hvers og eins. Síminn á Norðurbrún er 411-2760.

Nánari upplýsingar um þjónustuna eru veittar í gegnum síma 411 2760.

Langahlíð 3, þjónustuíbúðir

Fjölbýlishúsið að Lönguhlíð 3 var tekið í notkun árið 1978. Íbúðir í húsinu eru 33, þar af 32 einstaklingsíbúðir og ein  tveggja herbergja íbúð. Í húsinu er starfrækt félags- og tómstundastarf, hárgreiðsla og fótsnyrting.  Hægt er að kaupa fullt fæði alla daga og fá aðstoð við böðun svo eitthvað sé nefnt. Heimaþjónusta er veitt samkvæmt einstaklingsbundnu mati.  Öryggiskerfi er í öllum íbúðum og vakt allan sólarhringinn.

Forstöðumaður er yfirmaður allrar starfsemi í húsinu. Sími hans er 411-2550.

Furugerði 1, þjónustuíbúðir

Þjónustuíbúðirnar í húsinu eru 70 talsins, þar af eru 56 einstaklingsíbúðir og 14 tveggja herbergja  íbúðir. Í Furugerði er vakt allan sólarhringinn og öryggiskallkerfi í hverri íbúð. Íbúar og aðrir þeir sem nýta þjónustu í Furugerði 1 geta fengið baðaðstoð ef með þarf.

Heimaþjónusta er í húsinu og veitir aðstoð við þrif og þvotta.

Í félagsmiðstöðinni er fjölbreytt félagsstarf í boði og hægt er að kaupa mat alla daga ársins og kaffi alla virka daga klukkan þrjú.

Nánari upplýsingar um  þjónustuna eru veittar í síma 411 2740.

Sótt er um þjónustuna á útprentuðu umsóknareyðublaði.*

*Á umsóknareyðublaði er spurt hvort sótt er um þjónustuíbúð eða öryggisíbúð (sem eru á tveimur stöðum) en munurinn á þessum íbúðum er að í öryggisíbúð er hjúkrunarfræðingur á vakt allan sólarhringinn.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 0 =