Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara | Reykjavíkurborg

Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara

Á fundi borgarstjórnar 16. júní 2014 var Dagur B. Eggertsson kosinn borgarstjóri.

Borgarstjórinn í Reykjavík er æðsti yfirmaður tæplega 8.000 starfsmanna Reykjavíkurborgar. Borgarstjóri gegnir þremur meginhlutverkum. Hann er framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar, fulltrúi Reykjavíkurborgar á opinberum vettvangi og pólitískur leiðtogi meirihlutans.

Borgarritari er Stefán Eiríksson. Hann er æðsti embættismaður borgarinnar að undanskildum borgarstjóra og einn af staðgenglum hans. Borgarritari hefur yfirumsjón með miðlægri stjórnsýslu og stoðþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar.  Netfang Stefáns er stefan.eiriksson@reykjavik.is

Kjarnahlutverk skrifstofu borgarstjóra og borgarritara felst í þjónustu við embætti borgarstjóra og borgarritara auk þess sem hún hefur yfirumsjón með miðlægri stoðþjónustu og samhæfingu innan stjórnsýslunnar.

Skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara er Helga Björg Ragnarsdóttir. Netfang Helgu er helga.bjorg.ragnarsdottir@reykjavik.is.

 

Undir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara heyra upplýsinga- og vefdeild, mannauðsdeild, tölfræði og greining og borgarskjalasafn.

Upplýsingadeild heldur utan um og ber ábyrgð á upplýsingamiðlun Reykjavíkurborgar. Deildin ritstýrir vef borgarinnar í samráði við fagsvið og skrifstofur. Þá heldur deildin úti öflugri samfélagsmiðlun fyrir borgina, m.a. á facebook, twitter og instagram. Deildin sér um uppfærslu á vef Reykjavíkurborgar, reykjavik.is. Starfsfólk deildarinnar sér um fréttaskrif, útbýr fréttatilkynningar til útsendingar til fjölmiðla og svarar fjölmiðlafyrirspurnum þvert á borgarkerfið. Hún er ráðgefandi fyrir fagsvið og skrifstofur borgarinnar varðandi samskipti við fjölmiðla, innri miðlun, útgáfumál, auglýsingamál, kynningarherferðir og fundaherferðir. Þá heldur hún utan um fjölmargar fyrirspurnir sem berast frá erlendum fjölmiðlum og metur viðtalsbeiðnir til borgarstjóra erlendis frá.

Mannauðsdeild hefur yfirumsjón með mannauðsmálum Reykjavíkurborgar. Hún leiðir stefnumótun í mannauðsmálum Reykjavíkurborgar og ber ábyrgð á samræmdri framkvæmd starfsmannastefnu. Deildin veitir ráðgjöf til borgaryfirvalda í mannauðs- og atvinnumálum. Deildin kemur að gerð kjarasamninga, ber ábyrgð á framkvæmd launasetningar, þar á meðal starfsmatsins, hefur umsjón með atvinnumálum og sameiginlegri fræðslu fyrir stjórnendur Reykjavíkurborgar. Deildin fer með mannauðsþjónustu fyrir miðlæga stjórnsýslu í Ráðhúsi.

Tölfræði og greining ber ábyrgð á greiningu og birtingu tölfræðilegra upplýsinga, þróun mælikvarða og samræmdri miðlun stefnu, gæða og árangurs í umhverfis-, samfélags- og efnahagsmálum. Undir deildina heyra verkefni um þróun stjórnendaupplýsinga og innleiðing stjórnendaupplýsingahugbúnaðar. Þá sinnir deildin þróun og uppfærslu á Reykjavík í tölum og verkefnum tengdum grænu hagkerfi.

Borgarskjalasafn mótar og setur reglur um skjalastjórn borgarstofnana og fyrirtækja í meirihlutaeign borginnar og hefur eftirlit með skjalastjórn þeirra. Safnið tekur við eldri skjölum stofnana borgarinnar og einkaaðila til varðveislu og veitir aðgang að þeim. Brýnasta verkefnið framundan er að tryggja rafræna langtímavörslu skjala.

Starfsfólk skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Skipurit: 

Aðalskipurit Reykjavíkurborgar

Borgarstjóri Borgarritari Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara Upplýsingadeild Mannauðsdeild Tölfræði og greining Borgarskjalasafn Image Map

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 9 =